Hvað í andskotanum er að íslensku réttarkerfi???

Ég var rétt í þessu að lesa frétt á mbl.is þar sem segir frá manni sem var dæmdur í skilorðsbundið 45 daga fangelsi fyrir að áreita unga stúlku kynferðislega. Ég nenni ekki að telja upp öll atriðin sem fóru í taugarnar á mér í þessarri grein, og ætla því að leyfa mér að setja hana hér inn í fullri lengd.

“Karlmaður hefur verið dæmdur í skilorðsbundið 45 daga fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir brot gegn blygðunarsemisákvæði 209. greinar hegningarlaga með því að hafa sýnt ungri telpu klámmyndband og berað kynfæri sín í viðurvist hennar og farið höndum um þau.
Atvikið átti sér stað árið 2000 á heimili mannsins á ótilgreindum stað á Norðurlandi eystra. Maðurinn neitaði staðfastlega öllum sakargiftum en hann var ákærður m.a. fyrir að hafa reynt að láta telpuna snerta kynfæri sín er hann horfði á klámmyndband í umrætt sinn. Var hann sýknaður af þeim lið ákærunnar.
Háttsemi ákærða: að bjóða telpunni að horfa á klámfengið myndefni í sjónvarpi í stutta stund og láta hana fylgjast með er hann fitlaði við kynfæri sín, þótti að mati dómsins særandi fyrir hana og til þess fallið að valda henni ótta.
Fullnustu refsingar mannsins var frestað um þrjú ár og fellur hún niður að þeim tíma liðnum haldi maðurinn almennt skilorð. Hann var og dæmdur til að borga fjórðung sakarkostnaðar, þ.m.t. 110.000 krónu þóknun til dánarbús fyrrverandi verjanda hans, 45.000 krónu þóknun réttargæslumanns brotaþola og 110.000 krónu málsvarnarlaun annars skipaðs verjanda síns.
Maðurinn var sýknaður af fyrri lið ákærunnar þar sem hann var sakaður um að hafa eitt sinn árið 1998 eða þar um bil berað kynfæri sín í viðurvist telpu á heimili hennar.”

Tekið af vef Morgunblaðsins, mbl.is

Það er ansi margt þarna sem er algjörlega út í hött, en það sem stakk mig þó mest var þessi klausa: “þótti að mati dómsins særandi fyrir hana og til þess fallið að valda henni ótta”. Til þess fallið að valda henni ótta???? Við hverju býst fólk eiginlega? Réttinum hefur e.t.v. ekki hugkvæmst að stúlkan á eftir að lifa við þessa reynslu það sem eftir er ævi sinnar? Og mannógeðið fær bara skitna 45 daga sem hann þarf ekki einu sinni að afplána ef hann heldur sig innan ramma laganna í þrjú ár?

HVAÐ Í ANDSKOTANUM ER AÐ?

Með engri virðingu fyrir íslensku réttarkerfi,

Kristján