Er ekki löngu tímabært að við hugum að lækkun áfengisaldurs til kaups á bjór og léttvini í 18 ár(S.s 22% alch. og undir). Sumir segja nei, halda því fram að drykkja ungmenna eigi eftir að aukast til muna. Ég get ekki ýmindað mér það, þar sem drykkja ungmenna er þegar til staðar og hefur verið til staðar í mörg, mörg ár. Það er bara staðreynd. Staðreyndin er líka sú að ef að einstaklingur sem hefur ekki aldur, langar í áfengi þá reddar það sér áfengi, hvort sem það er sterkt vín, bjór, léttvín eða jafnvel landi.

Eflaust einhverjir sem eiga eftir að neita fyrir þessar staðreyndir, en þeir einstaklingar ættu að horfa aðeins í kringum sig og sjá hvað er að gerast á þessu blessaða fróni okkar.

Afhverju að lækka áfengisaldur? Jú til að samræma okkur aðeins við önnur evrópulönd og einnig að samræma aldur sjálfræðis, fjárræðis og bílprófs. Er það ríkið sem ákveður þroskastig íslendinga? Þau telja okkur nógu þroskuð til þess að gifta okkur, kaupa hús eða íbúð, kaupa og keyra bíla, opna fyrirtæki og reka þegar við náum 18 ára aldri. En samt telja þau íslendinga ekki nógu þroskaða til að neyta áfengis fyrr en um tvítugt.

Ef einhver ætlar að segja mér að það sé vegna skaðlegs áhrifs áfengis, þá get ég ekki verið sammála. Við átján ára aldur máttu kaupa þér sígarettur sem hafa eflaust verri áhrif á líkaman heldur en áfengi. Það eru meiri líkur á því að þú ávenjist reglulegum og daglegum reykingum heldur en daglegri áfengisdrykkju. Áhættuþættir eru til í báðum tilvikum, neita því ekki. Nota bene, ég er ekki að reyna að sannfæra fólk að áfengi sé gott fyrir heilsuna en ég er að tala um munin á áhættuþáttum á því sem er löglegt á Íslandi. Ríkið telur þig nógu þroskaðan til að reykja þegar þú ert 18 ára en ekki til að drekka.

Áfengi er löglegt á Íslandi (og einnig gott í hófi). Ég sé fleiri jákvæða hluti á lækkun áfengisaldurs heldur en neikvæða. Það myndi jafnvel hrinda af stað kennslu í grunnskólum og framhaldsskólum um meiri þekkingu á áfengi, til að undirbúa ungt fólk undir ábyrgð meðhöndlun áfengis. Ég myndi telja að það myndi skila sér í betri meðhöndlun og þroska einstaklinga á áfengi. Því meir sem maður lærir um hlutin því meiri vitund, myndi maður ætla.

Gæti trúað því að það yrði aukning á ungum ferðamönnum til landsins til að upplifa íslenska djammstemmningu. Líklegra að sala á bjór og léttvíni í matvöruverslunum yrði leyfð, þar að leiðandi heftir ekki möguleikan á unga fólkinu að halda vinnu sinni í matvöruverslunum. Ég tel að lækkun áfengisaldurs verði að gerast áður en við getum leyft bjór og léttvín í matvöruverslunum. Spurningin er alltaf hverjir eru á móti og hverjir er fylgjandi þessu.

Ég sé aðeins tvo möguleika, annar finnst mér raunhæfur og hinn finnst mér fjarstæðukenndur. Þeir eru annaðhvort að lækka áfengisaldur á léttvíni og bjór niður í 18 ár og samræma þar með aldur fjárræðis, sjálfstæðis og bílprófsaldur. Eða þá halda áfengisaldrinum í tvítugu og hækka sjálfræðis-, fjárræðis- og bílprófsaldur, einnig aldur til að kaupa sígarettur í 20ára. Miðað við að fólk er talið nógu þroskað fyrir allt nema áfengi þegar átján ára aldri er náð, finnst mér seinni valmöguleikinn fjarstæðukenndur.

Mér finnst þetta eiginlega segja sig sjálft, því þú ert orðinn sjálfráða og fjárráða þegar þú ert átján ára. En færð ekki að kaupa áfengið í þinni eigin brúðkaupsveislu því þú ert ekki komin/n með aldur. Að sjálfsögðu er enginn eins og þroski fólks er mismunandi, sumir hafa meira jafnaðargeð en aðrir, það er enginn eins. Þar að leiðandi getur maður um fimmtugt verið minna hæfur til að drekka áfengi heldur en átján ára stúlka. Ætti það ekki að vera þín ákvörðun hvenær þú byrjar að drekka áfenga drykki þegar þú ert orðinn sjálf- og fjárráða? Það er allavega mín skoðun á þessu.

Endilega komið með svör hvort sem þið eruð með eða á móti. Ég er ekki að reyna að réttlæta drykkju áfengis heldur að reyna að opna umræðu á þessum málum og varpa skoðun mínum á þessum hlutum og hvað mér finnst betur mætti fara.

Takk fyrir.