Alcan hefur verið duglegt við að koma á framfæri sínum sjónarmiðum og áróðri. Ég ætla hér að benda á nokkra vankanta sem hafa verið á þeim áróðri, af mörgu er að taka.

Heilsíðuauglýsing Alcan í Morgunblaðinu
Alcan hélt því fram að hagnaður Hafnarfjarðar af stækkuðu álveri yrði 800 milljónir á ári.
Alcan gleymdi að reikna kostnað Hafnarfjarðar með. Hafnarfjörður mun að sjálfsögðu ekki aðeins græða á álverinu. Alcan segist miða við skýrslu hagfræðideildar HÍ, en þar er tekið fram að hagnaður Hafnarfjarðar, sé ekki tekið tillit til umhverfistjóns, sé 110 milljónir á ári.

Framburður Alcan varðandi mengunarmál
Engin mengun? Lítil mengun? Ekki mengandi mengun?
Lengi var því haldið fram að mengun myndi ekki aukast við stækkun. Þetta reyndist auðhrekjanlegt, svo Alcan sá sér þann kost færastan að gera sem minnst úr aukningunni. Þar sem hún verður á sumum sviðum 250% af núverandi mengun var það ekki trúverðugt, svo nú er því haldið fram að mengunin sé ekki skaðleg. Aha. Skv. minnisblaði Alcan og Hafnarfjarðar verður koltvíoxíðsútblástur frá stækkuðu álveri 727.720 tonn á ári. Til samanburðar var koltvíoxíðsútblástur vegasamgangna á Íslandi 636.000 tonn árið 2004, skv. Hagstofu Íslands. Skv. vísindavef HÍ er dauðaskammtur flúoríðs 5-10 grömm. Eftir stækkun mun árlegur flúoríðsútblástur álversins verða 253 tonn, skv. fyrrnefndu minnisblaði.
Varðandi svifryk og brennisteinstvíoxíð (sem hvort um sig eru eiturefni) þá geta þessi efni haft samverkandi áhrif “og sýnt hefur verið fram á aukna dánartíðni þar sem mengun þessara efna er hvor um sig um eða yfir 0,25-0,5 mg/m3,” svo aftur sé vitnað í vísindavefinn. 3.450 tonn af brennisteinstvíoxíði og 386 tonn af svifryki munu árlega koma út um strompa stækkaðs álvers.


Áreiðanleiki heilsíðuauglýsinga Alcans
Heilsuverndarmörk eru ekki miðuð við meðaltal
Alcan heldur því fram að mengun frá álveri þeirra í Straumsvík sé innan við prósentu af heilsuverndarmörkum. Það sem þeir taka ekki fram er að heilsuverndarmörk eru ekki miðuð við ársmeðaltal, heldur mælingar á klukkutíma eða sólarhring. Alveg eins og maður getur ekki miðað lögleika aksturs við meðalhraða á ári getur maður ekki miðað mengun við ársmeðaltal.

Meðferð Alcan á Jamaicubúum
Hversu vel fer Alcan með heimamenn?
Í Jamaica er rekin báxítnáma, en úr báxíti er unnið súrálið sem er svo flutt til álbræðsla víða í heiminum, til dæmis á Íslandi. Fyrir hvert tonn af súráli sem unnið er úr báxítinu falla af 3-4 tonn af “rauðri drullu” af. Þeir sem kunnugir eru þessari rauðu drullu vita að hún er menguð vítissóda, er hábasísk og baneitruð. Hvert ætli hið (að eigin sögn) umhverfisvæna Alcan setji þennan úrgang? Í læki, ár og tjarnir. Heilsufar nágranna Alcan í Jamaica er bágborið. Meðal veikinda sem námurnar hafa valdið eru sjúkdómar í öndunarfærum ungbarna, lungnasjúkdómar, sjúkdómar í beinum og tönnum, Alzheimer, Parkinson, taugasjúkdómar, lungnabólga, asmi, bronkítis, krabbamein, hrörnunarsjúkdómar, mígreni og sjóndepurð.

Að þessum staðreyndum meðteknum er vert að hugleiða hvað Alcan sé í raun reiðubúið að gera fyrir okkur, og hvað við erum reiðubúin að gera fyrir Alcan.