Jafnréttindaumræða, það er umræðan um jafnan rétt karla og kvenna, til launa og almennra lífsgæða er ekki ný á nálinni. Þetta hefur verið stórt mál í íslenskri pólitík og þjóðmálaumræðu í óratíma og það má með sanni segja að mikill árangur hafi náðst til að jafna réttindi kynjanna síðustu áratugi. En nú virðist komið ákveðið bakslag í umræðuna, ákveðin tilhneiging til að halda því fram að jafnréttið sé farið að hallast um of með konunum hefur gripið um sig meðal margra sem telja sig knúna til þess að segja eitthvað um málið. Þetta er ógnvænleg þróun og mjög furðuleg, enda virðist hún byggjast algjörlega á misskilningi eða bara hreinlega algjörri fáfræði.

Það væri kannski ekki mikil ástæða til að hlaupa til og benda á einhvert bakslag í umræðunni ef aðeins væri um að ræða einhverja vitleysingsbloggara sem hafa hvort eð er aldrei skrifað gáfulegt orð á sínar vefsíður. En þótt þeir séu sennilega ríkjandi í þessum misskilningi, þá eru þeir ekki einir um það og ótrúlegasta fólk hefur komið með skrýtnar athugasemdir í þessu samhengi.

Það sem hefur hleypt þessu öllu upp undanfarið, og er ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta hér, er „blessuð“ klámráðstefnan.

Fyrir ekki margt löngu höfðu nokkrir forkólfar innan klámbransans ætlað sér að halda hér á landi ráðstefnu. Kvenréttindasamtök létu í sér heyra og úr varð að hópnum var neitað um dvöl á hótelinu þar sem hann hugðist gista. Var þá hætt við ráðstefnuna. Fyrstu viðbrögð mín, og væntanlega kvenréttindasamtaka, voru að þetta væri besta lausnin í stöðunni. En það var einmitt þarna sem bloggararnir stukku til og byrjuðu að blogga, nei, bulla endalaust um mannréttindi, fasisma og alls kyns önnur orð sem þeir hafa greinilega ekki hugmynd um hvað þýða.

Miðað við samfélag sem lætur ótrúlegustu hluti yfir sig ganga, verðsamráð, endalausa níðslu á öryrkjum og öldruðum, reglulegar og rausnarlegar launahækkanir stjórnmálamanna (án nokkurrar ástæðu) og almenningsþjónustu sem hugsar fyrst og fremst um að skara eld að eigin köku (Bankarnir, Tryggingafélögin) þá er alveg merkilegt hvað fólk getur misst sig yfir því að nokkrum klámframleiðendum var stökkt á flótta. Skítt með það þótt að mannréttindi séu brotin um allan heim, á þessari stundu, á konum, börnum, karlmönnum… Það er verið að skjóta eitthvað fólk og sprengja í miðausturlöndum en það er nú bara eitthvað sem gerist á hverjum degi. Hvað segirðu, klámframleiðendum neitað um gistingu í Reykjavík? Þetta er ótrúlegt brot á mannréttindum! Þvílíkt fasistaríki! Gerið mér nú þann greiða, þið sem hafið haldið tveimur síðustu setningum fram, að steinhalda kjafti það sem eftir er ævinnar.

Staðreyndin er sú, þrátt fyrir það sem vitleysingarnir halda fram, að meirihluti kláms byggist á niðurlægingu kvenna. Það er nú einmitt þannig sem er náð til aðalmarkhópsins, karlmanna. Einhverjar misógáfulegar athugasemdir um að hommaklám sé ekki niðurlægjandi fyrir konur eru bara fálm út í loftið. Svo vilja margir meina að þær konur sem taki þátt í þessu séu barasta á súperlaunum og hafi það gott. Það getur alveg verið. En ég efast um að þær hafi dreymt um það frá 6-7 ára aldri að verða klámstjörnur. Þetta er ekki draumastarf neinnar konu.

Eins og ég minntist á í byrjun, eru það ekki bara bloggvitleysingarnir sem halda þessu fram. Ótrúlegasta fólk, jafnt konur sem karlar, hefur komið fram og talað um að þetta sé dæmalaus afskipta- og fyrirhyggjusemi. Það er nefnilega svo merkilegt að sumt fólk virðist vilja afnema boð og bönn með öllu, og gerir sér greinilega ekki nokkra grein fyrir því hvaða áhrif slíkt myndi hafa.

Nú er það svo að kvenréttindasamtök hafa legið undir mikilli orrahríð vegna málsins og þótt þau komi vissulega aðallega frá áðurnefndum blogghálfvitum, þá eru orðin sem hafa verið notuð um þessi samtök alveg hreint skelfileg og ætla ég ekki að hafa þau eftir hérna. Það sem þessum karlrembusvínum virðist ómögulegt að skilja er að konur hafa þurft að berjast í áratugi fyrir því að komast þangað sem þær eru komnar núna, og þegar þær eru komnar upp í vissa prósentu af launum karla, og geta fengið þá til að vaska upp og skúra endrum og sinnum, eiga þær þá bara að láta gott heita?

Það er ekki ætlast til þess að þær geri slíkt fyrr en jafnrétti er náð, og þótt það sé enn langur vegur í að slíkt ástand náist, mun það vonandi á endanum verða viðtekin venja, mun þá fólk líta aftur til dagsins í dag og hugsa, „Guð minn góður hvað voru þessir karlrembuhálfvitar að hugsa?“ Þannig hugsum við reyndar flest í dag, hygg ég.

Að lokum vil ég biðja þessa vitleysinga, þrátt fyrir að hafa kallað þá mörgum illum nöfnum í þessari grein (nokkuð sem þeir hafa notað sjálfir og hljóta að geta tekið við í sama mæli), að lesa það sem þeir eru sjálfir að skrifa, og reyna að átta sig á því hvernig þeir hafa augsýnilega brenglast af þægindasamfélaginu, fyrst þeir finna sig knúna til að skunda fram á ritvöllinn og mótmæla jafn sjálfsögðum hlut eins og að segja klámframleiðendum að eiga sig. Horfið í kringum ykkur, út fyrir skrifstofustólinn og pizzukassana, og sjáið að það eru til málstaðir sem eru þess virði að berjast fyrir. Gerið það og verðið betri menn, og konur.

Höfundur er tæplega þrítugur karlmaður.