Hérna er ég heima að velta vöngum yfir vandamálum heimsins..

Ég var að detta inn úr bíó þar sem ég sá myndina “blood diamond”. Myndin segir frá hvernig svokallaðir átakademantar eyðilöggðu líf fólks, hvernig þjóðin snéri sér upp á móti eigin fólki og hvernig vestrænar þjóðir hálfvegis fjárfestu í stríðinu með því að halda áfram að kaupa “stríðsvöruna”, demantinn sem meðalljónið eyðir kannski 3 mánuðum í að vinna fyrir til að geta gefið heittelskuðu í trúlofunargjöf. Myndin sýnir hvernig demantshringur á minni hendi getur hafa kostað marga menn hendurnar.

Ég sit hérna í sjokki sem ég sá, þar sem ég veit að sagan sem sögð var er byggð á sönnum atburðum og hlutum sem enn eru vandamál. Ég er svo sjokkeruð að sjá hvernig peninga- og valdagræðgi getur breytt fallegum steini sem náttúran gaf okkur í slíkt drápstæki sem valdasjúkir litlir menn notfæra sér.

Ég er líka að hugsa um hvernig öll vandamál heimsins eru búin til af okkur sjálfum og venjum okkar. Við búum til reglur, viðmið og við viljum gera hlutina flóknari en þeir í rauninni eru. Við kunnum ekki að nota góðu og fallegu hlutina sem eru svo margir og mikilsverðir að þeir ættu að geta gefið okkur það mikla hamingju að litlir hvítir steina gætu aldrei hrist eins mikið upp í okkur og raun ber vitni. Ég sat agndofa yfir fegurð landins, á meðan skothríðum rigndi yfir og börn og ósjálfbjarga, óvopnað fólk var miskunalaust skotið niður. Hvernig getur fólk sett áherslurnar á svo ranga staði að þeir hlutir sem virkilega skipta máli verða svona þýðingalitlir í þeirra augum?

Þetta fékk mig til að hugsa um hvað okkar daglegu athafnir eru í rauninni ómerkilegar. Enn og aftur fór ég að hugsa um orðið farsæld. Er ég farsæl ef ég nota þá hæfileika sem mér voru í blóð bornir til að koma mér hátt í sess, verða valdamikil, rík eða hvað það nú er sem fólk flokkar undir farsæld? Er ég betri en fólk sem að þjáist vegna valdagrægi annara og vegna þess að heimurinn í kring um þau er það óréttlátur að það sviptir það lífi án þess að gefa þeim minnsta tækifæri á að verja sig? Er ég betri af því að samfélagið sem ég bý í er það öruggt að það gefur mér fleiri tækifæri til að eyða orkunni minni í e-ð eins tilgangslaust og að markaðsetja maskara, selja snyrtidót, verða góð í fótbolta..eða hvað það nú er sem gerir fólk “farsælt”? Á ég e-ð frekari rétt á betra lífi en þetta fólk? Fólk í Suður- Afríku þurfti að eyða orkunni sinni í að halda lífinu í kringumstæðum sem gerðu það eiginlega ómögulegt, á meðan við gefum sjálfum okkur kredit fyrir að eiga e-ð sem okkur var hálfvegis gefið upp í hendurnar.


Hvað erum við að eyða orkunni okkar í? Við prédikum siðfræði, hvað er rétt og rangt en svo horfir heimurinn fram hjá hörmungunum og fer frekar að eyða “gáfum” sínum og hugrekki í að opna líkamsræktarstöð? Við þykjumst vera sterk, gáfuð, klár og fleira og fleira en erum samt svo hrædd við þær aðstæður sem við höfum sjálf búið til og þorum ekki að gera neitt til að breyta þeim hörmungum sem við vitum af. Við komum með afsakanir eins og: “það er í rauninni ekkert sem við getum gert”, “þetta er ekki á okkar valdi” blaablaablaaa… en samt viljum við öll undir niðri trúa á kraftaverk sem gera okkur sjálfum kleift að lifa betra lífi!


Það sem mér finnst verst af þessu öllu er að ég er miður mín núna eftir þessa vitneskju sem ég öðlaðist, en á morgun koma mín eigin “vandamál” og áhyggjur í staðinn og ég á eftir að gleyma hversu djúpst snortin ég er í dag.


Er rótin af þessu öllu saman kannski eigingirni? Ég vill ekki trúa því að hinn hreini maður, sá sem er ekki mótaður af illskunni í kring um sig sé í eðli sínu vondur. Við erum öll börn náttúrunnar sem ættum að geta öðlast hugarró og frið innra með okkur án hvítra steina, gulls, olíu eða þeirra náttúruauðlinda sem gera menn að villimönnum, rándýrum og ófreskjum. Ég vill trúa að við séum betri en þetta. Ég vill trúa því að tilfinningin sem ég fékk þegar ég horfði á þessa bíómynd, sem gerði mig reiða, leiða og fyllti mig sektarkennd bendi til þess að við öll séum í eðli okkar góð. Ég vill trúa að það séu aðstæðurnar sem við höfum skapað okkur, átökin sem að einkenna söguna og heiftin sem kemur útfrá henni sem gerir okkur að því sem við erum í dag. Ég vill trúa að þessu getum við breytt, ef við hættum að gefa okkur afsakanir fyrir því afhverju ekki. Við höfum öll hjarta, en það er kannski komin tími til að nota það rétt.

… smá pæling.. endilega sjáið þessa mynd..!


Kveð að sinni,

Supriya.