Er Póker Ólöglegur?

Hér eru mínar hugleiðingar um efnið.

Varðandi þetta álitaefni eru tvö refsiákvæði sem koma til greina þ.e. 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í 183. gr. segir:

“Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum …1) eða fangelsi allt að 1 ári, ef miklar sakir eru.”

Þar sem framangreint ákvæði fjallar einungis um þá sem gera sér veðmál að atvinnu getum við útlokað það strax, þar sem við erum einungis að tala um einstök tilvik, þ.e. þegar félagar hittast og spila poker. Öllum hlýtur að vera ljóst að við erum ekki að gera okkur það að atvinnu.


Í 184. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir:

“Hver, sem aflar sér tekna beint eða óbeint með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði, er hann hefur umráð yfir, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.”

Framangreint lagaákvæði tekur ótvírætt til þess að láta fjárhættuspil fara fram í sínu húsnæði ef tekið er “rake” þ.e. ákveðin prósenta af þeirri upphæð sem spilað er fyrir.

Hins vegar er meira álitamál hvort ólöglegt sé að spila póker í heimahúsum eða öðrum fasteignum í einkaeigu, ef ekki er tekið rake. Samkvæmt ákvæðinu er ólöglegt að “afla sér tekna beint eða óbeint.” Þetta má hugsanlega skilja svo að sá sem heldur pókerinn heima hjá sér sé að afla sér tekna af spilinu. Hins vegar er eins og allir vita engin trygging fyrir því að sá aðili hafi neinar tekjur af spilinu, þ.e. hann gæti allt eins endað í tapi í lok kvöldsins.

Þá er óhugsandi að skýra lagaákvæðið svo að sá sem heldur pókerkvöld heima hjá sér gerist sekur um refsiverðan verknað, eingöngu ef hann endar í plús eftir kvöldið. Þ.e. refsiákvæðið væri algjörlega fáránlegt ef einungis tilviljun (eða hæfni spilarans) réðið því hvort refsiverður verknaður teldist framinn.

Þá má geta þess að ef sá sem lætur spilið fara fram í sínu eigin húsnæði en tekur ekki þátt í spilinu, er óumdeilanlega ekki að brjóta lög þar sem hann getur ekki haft neinar beinar eða óbeinar tekjur af því að horfa á aðra spila poker.

Það er líka vert að geta þess að aðrir sem taka þátt í geiminu (þ.e. aðrir en húsráðandi) geta ekki gerst brotlegir við ákvæði 184. gr. Sérstök gagnályktun í refsirétti (concursus necessarius), segir okkur að ef verknaður eins aðila er lýstur refsiverður í refsiákvæði, og fleiri aðila þarf samkvæmt rökbundinni nauðsyn til að fremja verknaðinn, og ekki er getið um að verknaður þeirra sé refsiverður í ákvæðinu, þá verður hann skv. gagnályktun talinn refsilaus.

Að mínu áliti stenst framangreint refsiákvæði 184. gr. ekki lögskýringarregluna um skýrleika refsiákvæða ef beita á því gagnvart þeim sem ekki taka “rake” af pottinum þegar menn hittast til að spila póker. Með þessu á ég við það að reglan er að þessu leiti allt of óskýr til að menn geti gert sér grein fyrir því hvort þeir eru að brjóta lög eða ekki. Niðurstaðan er sú að ef menn taka ekki rake af pottinum þá er poker löglegur í heimahúsum, hvort sem þar spila vinir eða að þar hittist fjöldi manna sem þekkjast ekki neitt, og spila pókermót.

Ég vil hins vegar að lokum benda á það að mót sem haldin eru á börum eða veitingahúsum, þar sem seldir eru drykkir, geta hins vegar verið refsiverð fyrir veitingahúsaeigandann þar sem hæglega er hægt að halda því fram að hann afli sér tekna “óbeint” eins og segir í 184. gr. með því að láta pókerinn fara fram í sínu húsnæði (hann selur náttúrulega meiri bjór þegar menn eru að spila hjá honum).

Kveðja Jói. Ef þið viljið senda mér meil um þetta þá er það: (johano@hi.is)