Nú var Bush, kallinn, að undirrita ný lög og reglur um að kanarnir mættu spæja, nánast að vild, um alla þá sem þeim þykir pínkuponsu grunsamlegir og þeir eru sko slatta margir. Nú má hlera síma og fylgjast með ferðum manna án mikilla heimilda, jafnvel engra, og það er ekki mikið mál í dag á tímum rafrænna boða, þ.e. síma, gemsa, netsins, korta o.s.fr. Svo má taka menn “til skoðunar” að vild. Jeminn góður, ég er ekki mjög hrifinn af þessu. Við lifum á tímum átaka og ótta eða einfaldlega stríðs úti í heimi og fólk vill að sjálfsögðu hafa allan vara á. En friðhelgi einkalífs virðist liðin tíð og verulega er ég hræddur um að þetta verði misnotað. Ekki vildi ég vera ungur, dökkhærður piltur í Bandaríkjunum sem ætti ættir sínar að rekja til miðausturlanda, svei mér þá.
Svo er nú reyndar annað sem er ekki síður alvarlegt. Man nú reyndar ekki hver það var og veit ekki í hvaða farvegi hugmyndin er, en þingmaður nokkur í Bandaríkjunum vill leyfa yfirvöldum að taka upp nýjar “aðferðir” við að yfirheyra fólk sem grunur leikur á að hafi eitthvað óhreint í horni poka síns. Það var ekki um að villast þegar þessar hugmyndir voru skoðaðar að hann vill taka upp pyntingar til að fá fram játningar. Úllala, segi ég og vona bara að þessu verði nú ekki vel tekið enda er mun minna mál að fá fólk til að viðurkenna allan fjandann með þessu. Andlegar og líkamlegar pyntingar eru vonandi ekki það sem koma skal í “lýðræðis”ríkjum, þrátt fyrir að hinar og þessar forsendur hafi breyst eins og þessi kallangi vildi meina. Þetta rataði nú á forsíður blaða og var eitthvað í umræðunni fyrir viku eða svo þannig að einhverjar pælingar eru í gangi. Og ef þetta er framtíðin er sko gefið mál að ekki vildi ég vera ungur, dökkhærður piltur í Bandaríkjunum sem ætti ættir sínar að rekja til miðausturlanda, sveiattan og sveiattan og svei mér þá.