Einbreiðar brýr Í þessum pistli ætla ég að tala dálítið um samgöngubætur á landsbyggðinni, og sérstaklega einfaldar/tvöfaldar brýr. Þetta átti upprunalega að vera svar við greininni “Samgöngur hér á Íslandi” eftir Amazon. Svarið vatt hins vegar upp á sig og varð eiginlega alltof langt til þess að vera bara svar.

Ég bý á Höfn í Hornafirði og stunda skóla í Reykjavík, svo ég fer nokkuð mikið þarna á milli. Á leiðinni þarna á milli eru 28 einbreiðar brýr, þar af 23, bara í Austur-Skaftafellssýslu. (Það eru reyndar fleiri einbreiðar brýr í sýslunni, en þær eru í austurátt frá Höfn, og falla þá ekki inn í þessa úttekt. Þarf ekki að fara að gera eitthvað í þessum ósköpum? Þess má reyndar geta að fyrir örfáum mánuðum var settur hólkur í veginn þar sem stendur að sé Sæluhúsakvísl á Skeiðarársandi. Undir þá brú hefur ekki runnið vatn í áratug. Þannig að mér er spurn: Þurfa vatnsföll virkilega að hætta að renna svo brýr séu tvöfaldaðar eða lagður hólkur í staðinn? Þetta á sérstaklega við á Austurlandi og líklega á Vestfjörðum, en þangað hef ég aldrei komið svo ég þekki það ekki svo vel. Reyndar veit ég að vinna er hafin við tvöföldun Staðarár í Suðursveit, sem er auðvitað allt saman gott og blessað, þó að mér fróðari menn segi að nýja brúin sé afskaplega vitlaust staðsett.

Í ljósi þess að umfjöllun um jarðgöng er eins mikil og raun ber vitni finnst mér að umræðan um einbreiðar brýr hafi að einhverju leyti minnkað, en hún er alls ekki síður mikilvæg. Menn virðast gleyma því í umræðunni um jarðgöngin að menn þurfa nú að geta komist almennilega að göngunum til þess að komast í gegnum þau, og því eru tvíbreiðar brýr bráðnauðsynlegar. Það má t.d. minnast á það að þegar maður keyrir austur frá Höfn í gegnum nýlega opnum Almannaskarðsgöng, þá er maður ekki kominn nema svona 3 kílómetra austur fyrir göngin þegar maður þarf að fara yfir fyrstu einbreiðu brúna. (Sem ég man reyndar ekki eftir að hafi nokkurn tíma runnið vatn undir.) Fljótlega eftir það koma margar fleiri einbreiðar brýr sem þarf að fara yfir.

Þess vegna finnst mér að það ætti að gera mikið átak í að útrýma einbreiðum brúm á landinu, eða að minnsta kosti að veita vegfarendum þau sjálfsögðu mannréttindi að sleppa við þær á þjóðvegi 1 í það minnsta. Og þá er ég ekki bara að tala um rétt í kringum Reykjavík, eins og svo oft virðist vera eina vegaframkvæmdasvæðið, heldur á öllu landinu.