Eruði rétt skráð? Það kemur örugglega engum á óvart að meirihluti Íslendinga sé skráður í Þjóðkirkjuna, eða 84,1% samkvæmt síðustu tölum Hagstofunnar. Fyrir áratug var þetta hlutfall 91,5% en þess má geta að skráð trúfélög á Íslandi eru nú orðin rúmlega tvöfalt fleiri heldur en þau voru fyrir u.þ.b. tíu árum. Skráningar til annarra trúfélaga og ótilgreind eru 3,9% miðað við 1% árið 1995 en skráningar utan trúfélaga eru nú komin í 2,5% miðað við 1,5% árið 1995. (http://www.hagstofan.is)

Aukinn fjöldi innflytjenda þar sem flestir þeirra aðhyllast aðra trú en kristni, gæti verið ástæðan fyrir þessum breytingum en einnig gæti verið að fólk sé farið að huga meira að þessum málum. Á hverju ári borgar þú 8.500kr í það trúfélag sem þú ert skráður, svo það er ekki alveg sama í hvaða trúfélagi þú ert. Ef þú ert skráður í Þjóðkirkjuna, borgar ríkið á móti svo upphæðin er komin í 11.000 krónur sem kirkjan fær. Samkvæmt könnun sem gerð var árið 1987 á vegum Guðfræðistofnunar voru það 62,9% sem skilgreindu sig ekki sem kristna. Þrátt fyrir það eru 84,1% þjóðarinnar skráð í Þjóðkirkjuna og er því óhætt að segja að ekki séu allir skráðir í það trúfélag sem samræmist trúarskoðunum. Þó að næstumþví 20 ár hafi liðið frá því að könnunin var gerð er þetta alltof mikill munur. Börn innan kirkjunnar eru auðvitað talin með en ekki taka þau þátt í könnunum vegna aldurs og greindarskorts. En fyrir þá sem ekki vita erum við sjálfkrafa, við fæðingu, skráð í sama trúfélag og móðir okkar er í.

Hugsum okkur að þú sért í Þjóðkirkjunni þar sem það eru yfirgnæfandi líkur á því miðað við aðra kosti og þú trúir ekki á þennan tiltekna guð, “af hverju ættirðu samt að spá í þessum málum?” Þar sem þetta eru þínir peningar, máttu borga í hvaða trúfélag sem er, jafnvel þó þú aðhyllist það ekki. En er eitthvað vit í því? Ef ég aðhyllist Samfylkinguna, en styrki samt Sjálfstæðisflokkinn, á mér að vera skít sama um það af því mér finnst pólitík hvort sem er vera óáhugaverð? Það sama á við um kirkjuna, og ástæðan er sú að hún hefur ansi mikið vald í okkar samfélagi hvernig sem okkur líkar það svo, er annað mál. Þetta dæmi tók ég vegna þess að trú er ekkert annað en skoðun, rétt eins og stjórnmál.

Misskilningur er hjá mörgu fólki að halda að skráning úr Þjóðkirkjunni þýði það að trúnni sé kastað á blæ. Ef þú ert skráður í hana og aðhyllist kenningar hennar um guð og Jesú Krist, þá er enginn ástæða til að skrá sig úr henni. En skráning úr henni þýðir ekkert endilega að þú sért hættur að trúa. Þjóðkirkjan er enginn trygging til að komast á betri stað eftir dauðann, hún er enginn mælikvarði á því hvað telst vera góð trú, þú getur trúað á eitthvað gott og mótað þá trú eftir þínu höfði eins og margir gera, án þess að þurfa að borga til Þjóðkirkjunnar.

Ef peningar þínir renna til trúfélags sem þú ekki aðhyllist, geturðu alltaf leiðrétt það með því að ná þér í eyðublað á www.hagstofan.is og fyllt það út. Vantrú, sem er félag vantrúaðra á Íslandi eins og nafnið bendir til, hefur verið að vekja fólk til umhugsunar á þessum málum og reynt að fá þennan hóp sem ekki er rétt skráður til að leiðrétta trúfélagsskráningu sína í samræmi við þeirra skoðanir.

Skráning utan trúfélaga þýðir ekki sparnað uppá 8.500 kall. Í staðin fyrir að peningurinn renni til trúfélaga, rennur hann til Háskóla Íslands. Þar er hann t.d. notaður í þágu vísinda en peningarnir eru að sjálfsögðu notaðir til ýmissa hluta innan skólans. Hluti af peningnum er m.a. notaður í rannsóknarstofur, styrki til náms og rannsókna innanlands og erlendis, styrki til stofnunar fyrirtækja í raungreinum og uppbyggingu deilda innan skólans s.s. í fornleifafræði, læknisfræði, náttúrufræði og fleira. Með því að styrkja skólann erum við að styrkja framfarir á þessu sviði. Svo ég spyr, eruði örugglega rétt skráð?