þetta er ein flottasta grein sem ég hef séð um vestrænar bombur á Afganistan. Þetta er tekið af Silfri Egils á strik.is og greinina skrifaði Pétur Tyrfingsson þann 10.10.2001.

Viðsjárverðir tímar

Hvert er bandaríska herveldið að fara með okkur?

Ræða George Bush í sameinuðu þingi á Kapítólhæðum 20. september markar tímamót. Húsið var fullt af þingmönnum, hermönnum, bírókrötum og gestum. Forsetinn hrósaði fólki á báða bóga, þar á meðal Tony Blair sem sat í salnum bergnuminn. Svo gaf hann línuna. Hvílík ræða! Ég fylltist nokkrum áhyggjum sem hafa þyngst mjög þessa fjóra daga sem sprengjum hefur verið kastað á Afganistan.

Stríðsæsingaræður Bandaríkjaforseta ættu ekki að koma mér á óvart; ekki mærðarleg þjóðremban og sjálfsánægjan; yfirlætisfull og eigingjörn amerísk réttlætiskenndin með allri sinni ógeðfelldu hræsni; frasarnir úr Rambómyndunum og tilfinningavellan úr Húsinu á sléttunni. Ég er alltof gamall til að undrast sjálft röflið. Það sem veldur mér áhyggjum er að forseti Bandaríkjanna hefur lýst alveg nýrri stefnu sem ekki sér fyrir endann á og virðist ætla að teyma heiminn með sér á vit skelfilegrar óvissu.

Ég er ekki eins og margur annar að telja mér trú um í einhverjum stráksskap eða kæruleysi að þessi forseti sé vitleysingur, auli eða lítt yfirvegaður og fáfróður sveitalubbi. Þankastrikin í kolli hans þegar hann talar og höktandi málið stafar ekki frá því að maðurinn sé vitsmunalega skertur, lyfjaður eða eigi erfitt með að koma fyrir sig orði. Óekkí. Bush er ákveðinn og yfirvegaður maður með skýrar skoðanir. Þær eru bara svo banal að ímyndarfræðingar og almannatengslafólk hefur brýnt fyrir honum og agað hann til að gæta orða sinna og vanda val þeirra. Heimurinn og viðkvæmur almenningur gæti misskilið bíómyndatalsmáta. Þess vegna tek ég Bush alvarlega. Hann er með heila hjörð af fólki í kringum sig, stóra mikla vél til stefnumótunar og ráðagerða. Hann meinar það sem hann segir og okkur ber að taka það alvarlega. Make no mistake about it, eins og hann segir sjálfur.

Hvað er það í stefnuræðu Bandaríkjaforseta sem ætti að raska ró okkar og ástæða er til að hafa áhyggjur af? Fyrst og fremst lét hann út úr sér pólitíska yfirlýsingu sem á sér ekki hliðstæðu síðastliðin 50-60 ár: „Allar þjóðir hvar sem er þurfa nú að taka ákvörðun. Annað hvort eru þið með okkur eða þið standið með hryðjuverkamönnunum.“ Hér er öllum þjóðum heims settir úrslitakostir og kostirnir eru aðeins tveir. Ef við fylgjum ekki stefnu Bandaríkjanna og komum til móts við kröfur þeirra, þá stöndum við með hryðjuverkamönnunum. Og hann hefur annars staðar sagt að þeir sem hýsa hryðjuverkamenn eða styðja þá muni hljóta sömu örlög og þeir. Sem er dauði. Við vitum að fyrrum fylkisstjóra Texas er örugglega alvara þegar hann talar um dauðann. Okkur er hollt að taka með í reikninginn að Bush segir ekki að við stöndum frammi fyrir því að vera á móti eða styðja hryðjuverkamennina, heldur að styðja Bandaríkin eða vera skipað á bekk með hryðjuverkamönnum. Forsetinn og ráðaklíka hans munu skilgreina hverjir eru hryðjuverkamenn og við vitum mætavel að sú skilgreining byggist ekki á málefnalegu samkomulagi um merkingu hugtaksins og hvaða skilyrði þurfi til að falla undir það. O-nei. Við eigum einfaldlega að styðja Bandaríkin gegn þeim sem þau telja óvini sína. Þjóðum heims hefur ekki verið stillt frammi fyrir afarkostum af þessu tagi síðan Evrópa var á heljarslóð á fyrri hluta nýgenginnar aldar. Þá var það fremur framvinda sjálfra átakanna sem gerði þjóðum, stéttum og leiðtogum að velja annan kost af tveimur slæmum en ekki endilega hótanir sjálfskipaðs kyndilbera frelsis eða annarrar náðar.

George Bush tekur að sér að skilgreina hvað er í veði um leið og hann áskilur sér og sínum helgan rétt til að taka allar ákvarðanir um hvernig eigi að snúa sér í slagnum: „Þetta er glíma heimsins, þetta er barátta siðmenningarinnar.“ Ef einhver velktist í vafa þá erum við á leiðinnni í stríð: „Ég hef kvatt herinn í viðbragðsstöðu og það er ástæða til þess. Stundin er runnin upp þegar Ameríka grípur til aðgerða og þið munuð gera okkur stolt.“ Þetta stríð sem fyrir höndum er hefur ekki skilgreindan óvin eða skýrt lokamarkmið. Við skulum ekki láta okkur dreyma um að hér sé verið að ræða einhverja lögregluaðgerð á alþjóðavísu til að leysa morðgátu, handtaka glæpamann og láta hann taka afleiðingum gerða sinna. Það er allt annað á ferðinni: „Ameríkanar skyldu ekki vænta einnar orrustu, heldur langtíma herfarar sem er ólík öllum þeim sem við höfum áður séð.“

Það sem Bush á við er ekki að alræmd fjallahéröð og óblíð veðráttan í Afganistan verði vígvöllurinn og muni draga átökin á langinn. Við höfum áður séð hvernig slíkum darraðardans vindur fram, bæði á síðustu öld og þeirri nítjándu. Það sem hann á við er tvennt. Fyrsta: „Hvert þessi átök stefna er ekki vitað, en niðurstaðan er örugg …“ Lagt er upp í stríð og forsetinn gengst við því hreinskilnislega að ekki sé vitað fyrirfram hvaða stefnu það tekur. Það kemur heim og saman við að óvinurinn er ekki skýrt skilgreindur og markmið átakanna ekki heldur. Það verður látið koma í ljós. Hitt sem forsetinn á við sem nýlunda er í þessu stríði:: „Við munum nota öll nauðsynleg stríðsvopn.“ Hér er ekki aðeins átt við dipómatíu, njósnir, undirróður, samsæri, launmorð, mútur, valdarán málaliða, efnahagsþvinganir, eldflaugar, orustuflugvélar, fallbyssur, rifla, pístólur og handsprengjur. Heldur öll nauðsynleg vopn og engin undanskilin, - efnavopn, sýklavopn, kjarnorkuvopn. Það er ekkert útilokað. Með öðrum orðum eru Bandaríkin að leggja upp í herför gegn óvinum sínum, áskilja sér rétt til þess að skilgreina hann uppá sitt eindæmi, þeir sem ekki styðja þau fara í óvinaliðið og öllum meðölum verður beitt eftir því sem þurfa þykir. Hvenær við verðum búnir; hvenær komið er nóg? Við sjáum til. „Ég fer fram á þolinmæði ykkar … í því sem verður löng barátta.“ Bush kórónaði svo allt saman með því að segja alvöruþrunginn að baráttan sé milli góðs og ills og í þeirri orrahríð væri Guð ekki hlutlaus. Enn sem fyrr er almættið að baki Ameríkana.

Ég held að þessi stefnubreyting sé ljós mörgum ráðamönnum annarra ríkja, bæði þeirra sem styðja Bush heilshugar og hinna sem draga á eftir sér fæturna. Og sjálfsagt hafa þeir einhverjar áhyggjur. En ekkert er sagt upphátt og mér til undrunar sýnist mér skynsamir stjórnmálaskýrendur ekki hafa kveikt á perunni. Þetta gefur mér ástæðu til að vona að ég hafi misskilið Bush forseta þó ég óttist meir að hafa rétt fyrir mér.

Loftárásir á Afganistan hafa nú staðið í fjóra daga. Heima í Bandaríkjunum eru menn þegar byrjaðir að herða tökin á almenningi og þrengja að lýðréttindum. Við þurfum ekki að fara í neinar grafgötur með að stefnt er að eftirliti og einelti Stórabróður af því tagi sem Ameríkanar kynntust þegar öfuguggarnir tveir Hoover og McCarthy voru upp á sitt besta og Walt Disney og óameríska nefndin voru þarfaþing. Nú verða það ekki „kommúnistarnir“ sem ganga á vegum hins illa, heldur „hryðjuverkamennirnir“ og allir sem hafa séð mynd af þeim eða muna hvað þeir heita. Nú þegar er búið a handtaka fullt af fólki og farið í kringum lög og reglur sem gilda um slíkt. Háværar raddir eru nú um að gefa CIA aftur ótakmarkað leyfi til að ráða af dögum leiðtoga annarra þjóða ef ekki er þegar búið að gefa græna ljósið. Og stríðið er hafið. Hvert er svo markmiðið? Hvenær vitum við þegar því er náð? Hvernig á að ljúka stríðinu? Hvað tekur svo við?….. Osama bin Ladin er orðinn algert aukaatriði. Hvert er næsta skref eftir Afganistan? Eða verður látið staðar numið í bili þegar búið er að koma Norðurbandalaginu í valdastöðu (okkar eigin drullusokkum og nauðgurum)? Er Írak kannski næst, eða hefst leynilegur hernaður með samsærum, valdaránum, pólitískum morðum og skemmdarverkum til að grafa undan óæskilegum ríkisstjórnum? Eða snýr Bush og nótar hans sér að Libíu, Kúbu eða kannski Líbanon þar sem okkar eigin hrotti Ariel Sharon telur miðstöð terrorismans? Við vitum það ekki. Við vitum aðeins eitt: Bandaríkin eru lögð af stað og hulin ráðgáta hvenær hildarleik lýkur.