Í deiglunni eru trúðslæti, kórsöngur, blús og rokk því
margt verður um að vera á Ingólfstorgi og á Gauk á Stöng á laugardaginn nk.
Er það vegna alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins sem reyndar var á miðvikudaginn sl.
undir yfirskriftinni “vinna og geðheilbrigði” en á laugardag er það “vertu með í að rækta þitt geð”. Hefst hann með göngu kl.14 frá Hlemmi að Ingólfstorgi undir lúðrablæstri þar sem fjölskylduhátíð verður haldin.
Tjaldbúðum verður slegið upp og félög er koma að málefnum geðfatlaðra kynna starfsemi sína. Trúðurinn Spæli sprellar og sjónhverfingamaður stígur á stokk á meðan harmonikkuleikar spila undir listsköpun gesta og gangandi sem verður boðið að spreyta sig í málaralist.
Tónlistarveisla verður á Gauk á Stöng frá kl.15:30 – 20:00. Páll Óskar og Monika Abendroth, hörpuleikari, hefja dagskránna og Unglingakór Snælandsskóla stígur á stokk. Illugi Jökulsson heldur ræðu í tilefni alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins.
Gospel systur syngja, hljómsveitin Jagúar kemur fram og Andrea Gylfa blúsar ásamt mönnum sínum. Hljómsveitirnar Úlpa og Í svörtum fötum enda svo veisluna sem Ólafur Páll Gunnarsson, Rokklandsstjóri ætlar að kynna.
Að undirbúningi hátíðarhaldanna standa; athvarförf Rauða krossins, Vin og Dvöl, Geðhjálp, Geðrækt, Geðvernd, Klúbburinn Geysir og Iðjuþjálfun geðdeilda Landspítala-Háskólasjúkrahúss.
Ekki er nú seinna vænna fyrir almenning að fara að huga að sínu geðheilbrigði sé litið til þess að Alþjóðlega geðheilbrigðisstofnunin – WHO- telur að þunglyndi verði algengasta heilsuvandamál heims innan fárra ára. Reyndar eru geðraskanir taldar algengasta orsök örorku í heiminum og sennilega algengasta orsök sjálfsvíga. Talið er að 22% landsmanna þjáist af geðröskunum að einhverju tagi og valda þær meira vinnutapi og samfélagslegum kostnaði en aðrir sjúkdómar hér á landi. Heilbrigðisyfirvöld á Vesturlöndum ætla að skera upp herör gegn þessum vanda og verða geðheilbrigðismál sett sem eitt af forgangsmálum hér á landi á næstu árum.