Staðreyndir um hvalveiðar! Íslendingar hófu hvalveiðar í atvinnuskyni nú á dögunum. Eftir að hafa lesið umræðuna hérna á Huga komst ég að því að fólk virðist ekki vita mikið um staðreyndir málsins og allt er byggt á sögum sem einhver heyrði héðan og þaðan. Ætla að reyna að svara sem flestum rökum og koma með staðreyndir um málið. Er búinn að vera að skoða nokkuð mikið af heimildum að undanförnu og flestar tölur sem verða birtar eru byggðar á Vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins. Ástæða þess að það er valið sem heimild í stað Hafró er að þeir sem eru mótfallnir hvalveiðum segja að Hafró séu hlutdrægir sem ég tel ekki vera rétt, en samt mun ég nota tölur IWC sem voru samþykktar á fundi vísindanefndarinnar núna í júní 2006. IWC er í raun eini aðilinn sem getur kallast hlutlaus þegar kemur að tölfræði um hvali. Ástæða þess er að í IWC sitja um 70 þjóðir og eru ca. 50% á móti hvalveiðum og ca. 50% með hvalveiðum. Þessar tölur sem ég mun vísa í að neðan tók 5 ár að staðfesta og samþykkja. Til þess voru m.a. fengnir sjálfstæðir vísindamenn sem fóru ofan í kjölin á tölunum og aðferðunum sem voru notaðar.

Áfram með greinina…

Eru ekki hvalir í útrýmingarhættu?
Hvalir eru ekki í útrýmingarhættu, fyrir utan nokkrar tegundir þeirra. Flestir stofnar hafa verið að rétta úr kútnum eftir að veiðar voru bannaðar 1986.

Íslendingar höfu núna veiðar á langreyð, og veiddar hafa verið 2 langreyðar. Langreyður er annar stærsti hvalurinn sem syndir um í heimshöfunum. Hann er með stöðuna “Endangered” á lista IUCN (http://www.iucnredlist.org/search/details.php/2478/summ). En samt hefur IWC viðurkennt að a.m.k. 25.800 hvalir séu við strendur íslands (http://iwcoffice.org/conservation/iceland.htm). Stofninn hefur stækkað um 10% á ári á tímabilinu 1989-2001 (IWC scientific report 2006). Þrátt fyrir stærð stofnsins og stækkun hans á seinustu árum er langreyður enn á lista IUCN. Ástæða þess er að í suðurhvoli jarðar þar sem ekki eru til neinar staðfestar tölur (Japanir segja samt að stofninn hafi náð sér en eins og Hafró verð ég að telja þá hlutlæga heimild) um fjölda langreyða. Hins vegar viðurkennir IUCN að 40.000 langreyðar eru í Norður-Atlantshafi en þar sem þeir líta á langreyð á heimsvísu þá er hún en skráð sem “endangered”. Í janúar 2007 mun IUCN endurskoða stöðu sjávarspendýra og uppi eru raddir um að þeir munu þá skrá hana á svæðisbundinn máta, eins og er gert nú þegar með nokkrar hvalategundir. Íslendingar eru að veiða 9 langreyðar sem þýðir að við munum veiða 0,04% af stofninum. Það er ekki hægt að segja að það muni hafa nokkur áhrif á stofninn, sérstaklega í ljósi þess að hann hefur verið að stækka um ca. 10% á hverju ári.

Hrefna er svo langt í frá að vera í hættu. Í kringum ísland eru 40.000 hrefnur. Í norður atlantshafi öllu eru 176.000 hrefnur (allt kemur þetta frá IWC). Að halda fram að veiðar í atvinnuskyni á 30 hrefnum muni stofna stofninum í hættu er út í hött!

Hver getur eiginlega borðað kjötið af þessum fallegu og vitru skepnum???
Kjöt er kjöt, og eins og margir vita er hvalkjötið bara nokkuð gott. Hvalir eru ekki frábrugðnir neinni annara nýtanlegri uppsprettu af kjöti. Afhverju erum við að drepa og borða svín? Svín eru talin af mörgum gáfaðri en hvalir. Víst þau eru sonna gáfuðu þá ættum við líka að setja sláturbann á þau og sleppa þeim út í náttúruna… eða hvað?

Þegar við tökum ákvörðun um veiðar á einhverji dýrategund þá er frekar furðulegt að leggja jafn tormælanlega eiginleika eins og gáfur fyrir sig. Kenningin um að skíðishvalir séu gáfaðir er mjög umdeild. Velþekktur hvalverndunarsinni að nafni Phil Clapham sagði:
“Having worked with these critters for many years, I’d support the general view that … baleen whales are not dreadfully bright (much as I love them)” (http://whale.wheelock.edu/archives/ask99/0009.html)

Það eru engin rök að segja að vegna mikilfengleika síns þá eigi ekki að veiða hvali. Það er persónuleg skoðun hvers og eins en enginn rök. Það á að bera virðingu fyrir rökum annara og ekki að mæta þeim með ofstoppa og látum. Ég skil auðvitað þessi rök fólks, en ég er bara ekki sömu skoðunar. Ég samt reyni að sýna þeim þá virðingu að reyna ekki að svara þeim með mínum eigin tilfinningu, heldur rökum. Stundum er samt erfitt að greina þar á milli…

Ef það eru ekki nein vísindaleg rök á móti hvalveiðum þá á að leyfa þær fyrir þá sem það vilja undir hvalveiðistjórnun. Punktur.

Við höfum náð að viðhalda öðrum auðlindum okkar í sjónum og afhverju ættum við ekki að ná að stjórna þessum veiðum. Þær eru á miklu minni skala en nokkrar aðrar veiðar í sjó sem við stundum og því ætti það hreinlega að vera miklu auðveldara. Auðvitað eigum við að fá að nýta þær sjálfbæru auðlindir sem eru til staðar í sjónum okkur til framfæris og hagsbóta.

En íslendingar brutu alþjóðalög með að byrja að veiða hvali!!!
Neineinei… Við brutum hvorki alþjóðalög né siðferðileg lög með því að hefja hvalveiðar. Þetta er voða einfalt, við gengum í IWC á þeim forsendum að IWC mundi koma upp hvalveiðakerfi fyrir árið 2006, annars ættum við rétt á því að hefja veiðar eftir okkar eigin kerfi. Þetta samþykktu aðilarlönd IWC og vola, árið er 2006 og ekkert IWC hvalveiðikerfi. Þess má geta að IWC hefur haft það að markmiði sínu að koma upp hvalveiðikerfi síðan 1994 (sjá heimasíðu IWC) en ekki tekist það, þar sem lönd á móti hvalveiðum hafa alltaf lagst gegn nokkuri nýtingu hvalastofnanna. Á meðan þá leyfa Bandaríkjamenn veiðar frumbyggja, en banna öllum öðrum að veiða (nánar síðar). Samkvæmt ofangreindu þá eru því Íslendingar ekki lengur bundnir af þessu samkomulagi.

Allir eru sammála um það að þjóðirnar eigi ekki sjálfar að setja sína hvalveiðikvóta. En á meðan hvorki gengur né rekur í IWC þá verður bara að koma hlutunum á hreyfingu og sýna fram á að það gengur ekki að halda þessu banni til streitu. Það verður að koma á fóti sjálfbærum veiðum undir stjórn IWC sem eru byggðar á vísindalegum rökum. Spurningin sem allir bíða eftir er hvort að IWC geti hætt að láta pólitíkina stjórna sér og byrjað að byggja hlutina á staðreyndum í stað þess að byggja þá á skoðunum. Allar þjóðir heims með sínar ólíku menningar og skoðanir verða að koma saman og mynda sátt um þetta mál!!!

Djöfulsins bandaríkjamenn mar, þeir eru stærsta hvalveiðiþjóð í heimi! Og ástralir veiða í vísindaskyni víst!!

Fólk er alltaf að heyra einhverjar furðulegar staðreyndir frá vinum sínum. Ég vildi blása á þetta hér með!

Bandarískir frumbyggjar í Alaska mega veiða 280 Grænlenska sléttubaka samtals á árunum 2003-2007 en þó ekki meira en 67 á ári. Seinustu 5 ár hafa verið sonna, talið frá 2005: 68, 43, 48, 75, 47. Grænlenskur sléttubakur (eða bara sléttubakur?) flokkast sem stórhveli og er næstum tvisvar til þrisvar sinnum stærri en hrefna (á lengdina). Þetta er slatti í tonnum talið sem sagt. Því má vel skilja að bandaríkjamenn hafa ekki verið harðorðir í gagnrýni sinni á okkur, sérstaklega þar sem þeir ætla að leggja til við næstu ráðstefnu alþjóðahvalveiðiráðsins að framlengja þetta veiðileyfi og auka við kvótann (heimasíða IWC). Þeir vilja ekki vera sekir um of mikla hræsni…

Ástralir hafa aldrei stundað vísindaveiðar síðan bannið kom á 1986. Einu þjóðirnar sem hafa gert það eru Íslendingar, Norðmenn (eiginlega samt bara atvinnuveiðar mestan tímann) og Japanir. Allar tölur eru teknar héðan: http://www.iwcoffice.org/conservation/catches.htm. Áður en þið tjáið ykkur eitthvað um fjölda veiddra hvala þá er að skoða þetta…

Það eru enginn markaður fyrir þetta hvalkjöt!!!!

Það er hreinlega ekki okkar vandamál. Einkafyrirtækið Hvalur hf. er að veiða þessa hvali. Það er þeirra að láta viðskiptamódelið ganga upp. Afhverju ekki að veiða nokkra hvali úr þessum sjálfbæra stofni til að sjá hvort að við getum komið viðskiptum með hvalkjöt aftur í gang og umræðu um málið á sama tíma.

Merkilegt nokk, þó að sendiherra Japans hefur sagt að það sé enginn markaður þá þarf það ekki að vera satt. David nokkur í Tokyo hefur gert könnun á þessum rökum hvalverndunarsinna um umfram birgðir í Japan og hann hefur haldið því fram að birgðirnar séu alls ekki í einhverju hámarki og að viðskipti á milli landana komi alveg til greina. Þetta er samt langt frá því að vera víst og til að sjá hvað hann er að fara og hvaða rök hann hefur skoðið síðuna hans: http://david-in-tokyo.blogspot.com/. Ágætis lesning um efnið og mikið áhugaverðum rökum, meðal annars um rangfærslur stjórnmálamanna á alþjóðavettvangi. En þetta er allt á fyrsta reit og við þurfum að hafa kjöt í höndunum til að geta hafið þessa sölu.

Og að lokum…
Í rauninni ekkert meira. Ég get vel ímyndað mér að það er fullt af rökum sem ég hef látið ósvarað og ég skal svara þeim eftir minni bestu getu. Svarið bara þessari grein og ég skal svara athugasemdum ykkar. Ég hef reynt eftir minni bestu getu að koma fram með mál mitt með eins mikið af rökum og hægt er en stundum er erfitt að fjalla um efni sem er svo nálægt hjarta manns.

Ég vill samt líka gagnrýna íslensk stjórnvöld fyrir að hafa tekið þessa ákvörðun svona rosalega einhliða. Þegar að svona stór ákvörðun er tekinn þarf að setjast niður með öllum hagsmunaaðilum og kynna þeim málið og sýna þeim rökin. Sem sagt að REYNA að birgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Ekki bara einn gaukur sem tekur ákvörðun um málið án samstöðu í ríkisstjórninni. Það er í rauninni það sem gæti komið í bakið á okkur, en maður vonar samt ekki…

Ef þið viljið lesa meira um málið þá bendi ég ykkur á wikipedia og síðu IWC um málið. Í raun bendi ég bara á síðu IWC í heild sinni, en þar er mikið af fróðleik um málið.

http://www.iwcoffice.org/conservation/iceland.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/Whaling_in_Iceland
http://en.wikipedia.org/wiki/Whaling