Ég lít oft yfir og - ef tími og tækifæri leyfir - les greinar hér á huga, þó ég sleppi því gjarnan að svara þeim, enda oft nóg um svörin á þeim greinum sem mér annars þætti vert að svara. Þó greinarnar séu oft málefnalegar og með réttu hugarfari, þá er stílbragðinu oft ábótavant og ýmsu við röksemdafærslur að bæta.

Það er eitt sem mér leiðist sérstaklega sem allir sem skrifa greinar, ritgerðir og fjandinn má vita hvað annað ættu að þekkja betur en það er hvorki stafsetningar- né prentvilla heldur slæm fullyrðing sem nægir til þess að gera hvaða grein sem er að hrokafullum alhæfingum og illa skrifuðum rökum, a.m.k. í mínum augum.

Þetta hræðilega eyðleggjandi fyrirbæri í stíl er að sjálfsögðu það sem titillinn sýnir: “Það vita allir að…” eða kannski aðeins laumulegra: “Það vita flestir að…”

Nei, það einfaldlega vita ekki flestir/allir að forsetar Bandaríkjanna eru ekki þeir englar sem þeir sýnast vera. Það vita heldur ekki allir að ríkisstofnarnir eru hægvirkar eða þess vegna að Kim Jong Il er með bullandi ræpu núna, jafnvel þó það hafi birst í fréttum (þó það hafi reyndar ekki gert það svo ég viti, auk þess sem ég hef ekki minnstu hugmynd um ástand meltingarfæra hins Kóreanska þjóðhöfðingja). Fjandinn, það kæmi mér á óvart að “flestir” fylgdust einu sinni með fréttum yfirhöfuð.

Mér leiðist almennt að vera Besserwisser en ég nenni ekki að þegja lengur. Það er óþolandi þegar orðalag eyðileggur grein og ég þori að veðja að ég er ekki sá eini sem lítur þessum augum á svona mál, jafnvel þó það fari út fyrir einmitt þetta dæmi.

Tilmælin sem ég vil beina til þeirra sem skrifa greinar á huga, ekki síður en þeirra sem lesa huga og ætla sér að skrifa eitthvað annað og hafa ekki enn áttað sig á málinu eru þau að sleppa því að tala um að allir - eða flestir - viti eitthvað. Þið vitið það ekki, nema þá þið gerið rétt framsetta könnun úr stóru úrtaki, sem annars ætti að vera óþarfi þegar auðvelt er að stroka orðin einfaldlega út úr greininni og setja nokkur ný í staðinn.

Það má alltaf koma með sterkan punkt án alhæfinga.
(\_/)