Fjöldinn allur af fólki nútildags trúir ekki á guð. Skiljanlega, við erum alin upp í tímum þar sem rökhugsun og tækni ráða.
Það er eins og fólk sé ekki að átta sig á því að maður geti sagt eitthvað og haft rétt fyrir sér án þess að styðjast við rök í leiðinni. Frá því að þú vaknar og ferð að sofa fara eflaust margskonar hugsanir í gegnum kollinn á þér, eru þær allar einungis rökhugsun? Hugsarðu allt útfrá rökum? Eflaust ekki. Og ef allt sem þú upplifir fer í gegnum allskonar hugsunarferli sem tengist hlutum eins og tilfinningum þá verðurðu að gera þér grein fyrir því að heimurinn er ekki byggður á rökum og alveg eins og þú getur oft ekki lýst þínum draumum eða hugsunum þá eru til hlutir þarna úti sem þú verður að sjá með eigin augum, upplifa útaf fyrir þig.
Það að enginn geti í rauninni útskýrt guðlega upplifun sína á neitt nema hálfvitalegan máta þýðir ekki að guð sé ekki til.

Þegar ég ræði oft um guð við fólk þá segist fólk ekki trúa á hann, þau benda á hluti í kristinlegri trú sem dæmi sem eru fáránlegir. Þau benda á þá hluti í biblíunni sem standast ekki rök og oft hugsa þau biblíuna sem einhverskonar yfirlýsingu mannsins um hvernig á að haga sér, einskonar handbók sem tengist guði á lítinn máta þar sem hún er eldgömul og hefur verið endurskrifuð og túlkuð fram og til baka það oft að allur upprunalegur texti er orðinn að bulli.

Sjálfur á ég bágt með að trúa því að hægt sé að koma lýsingum á guði og boðskapi hans inní litla bók. Sjálfur leit ég á kristinn trúað fólk sem fífl og þau fældu mig frá því að trúa á guð. En málið er að þrátt fyrir það að einhverjar manneskjur sem hafa orðið fyrir trúarlegri reynslu þá geta þau aldrei komið því á skiljanlegan máta niður á blað, líkt og þú átt eflaust mjög erfitt með að útskýra drauminn þinn í gærnótt fyrir vini þínum. Hvernig heldurðu þá að þú getir útskýrt guð fyrir honum?
Ekki sleppa því að trúa á guð einungis vegna hálfvitaskaps í öðrum sem hafa “séð ljósið”. Þú getur ekki lýst öllum hlutum með orðum og ef þú reynir það þá endarðu oft upp með gagnstæðum afleiðingum.

Ef þú ert trúaður/trúuð, ekki reyna að troða trú þinni upp á aðra.
Ef þú vilt styðjast við eitthvað trúarrit sökum þess að þú hefur ekki andlegan styrk til að sjá guð í réttu ljósi, ekki reyna að koma textum þínum inná aðra sem geta séð hann án hjálparhandar annarra. Ef ég fæddist einn útí skógi, alinn upp af dýrum, myndi ég trúa á guð? Eða þyrfti ég hjálp frá einhverjum siðmenntuðum til að benda mér á tilvist hans?
Ef guð er til, þá sér hann um að upplýsa sjálfur. Hann skapaði hugsun okkar og heila, til hvers þarf hann að láta einhverjar manneskjur koma orðum hans á blað ef hann getur talað við þig beint?

Þrátt fyrir fallega sálma og tilvitnanir úr trúarlegum textum, þá held ég að ef ég finni æðri máttarvöld, þá geri ég það ekki með hausinn ofaní bók.

Guð gaf frelsi segir í biblíunni. Af hverju er ég þá bundinn við bók og kirkjur til að sjá hann í réttu ljósi?
Af hverju fæ ég ekki frelsi til að trúa á hann eins og ég vil, og uppgötva hann með mínum eigin leiðum..