Jæja ég ætla að koma með pínu hugleiðingar og staðreyndir um kynferðisofbeldi og opna aðeins umræðu um þetta málefni. Þetta hefur nú verið í umræðunni hérna á huga einstaka sinnum.


Ég held ekki að fyrst og fremst þurfi að breyta viðhorfi almennings því það hefur nú verið að gerast smátt og smátt. Ég held frekar að það sé dómskerfi Íslands sem þarf að breyta. Flest fólk lítur nauðgun alvarlegum augum, þess vegna er mér það hulin ráðgáta afhverju nauðgarar fá jafn væga dóma og tíðkast hér á landi.

Í flestum löndum á sama þróunarstigi og við erum á eru nauðganir litnar mjög alvarlegum augum þar sem nauðgun er einn af alvarlegustu glæpunum sem beinast að einstaklingum og þar tíðkast hærri dómar en hér á landi í lang flestum ef ekki öllum tilfellum. Nauðgun er kynbundið ofbeldi þar sem í flestum tilvikum eru það karlmenn sem brjóta gegn konum, börnum og öðrum karlmönnum og samkvæmt heimildum er einungis ákært í þriðjungi þeirra mála þar sem kært er fyrir nauðgun og skyld brot, það finnst mér einfaldlega fáránlegt.

Tökum dæmi:
1) 17 ára stúlku var nauðgað hrottarlega af manni í sumarbústað á Þingvöllum. Maðurinn reyndi einnig að skafa húðina af henni með ostaskera og henti henni undir sjóðandi heita sturtu svo fátt eitt sé nefnt. Hjúkrunarkona á bráðamóttökudeild Landspítalans sagði ástand stelpunnar hrottalegasta tilfellið sem hún hafi séð í sambandi við nauðganir. Gerandinn flúði land en náðist fljótlega og fékk 3 ára dóm og þar af einhverja mánuði skilorðsbundna.

2) Maður að nafni Tryggvi Rúnar Guðjónsson var í maí árið 2002 dæmdur í Hæstarétti í tíu ára fangelsi fyrir innflutning á tæplega 17.000 e-töflum, um 200 grömmum af kókaíni og átta kílóum af hassi.

Er þetta siðferðislega rétt? Að nauðgarar sem brjóta svo hrottarlega á persónufrelsi einstaklings fái svo mun minni dóm en menn sem flytja inn fíkniefni, þeir sem flytja inn fíkniefni eru ekki að brjóta á persónufrelsi einstaklings. Það er alfarið á ábyrgð einstaklingsins hvort hann neyti fíkniefna eða ekki. Þetta finnst mér siðferðislega ekki rétt.
En afhverju er þetta þá svona? Við erum að sjá þetta gerast trekk í trekk, barnaníðingar og nauðgarar að sleppa með fáránlega lága dóma. Oft er það vegna þess að sönnunargögn eru ekki til staðar, eða réttarkerfið tekur ekki mark á þeim sönnunargögnum sem til eru. Þ.e. vitnisburður þolenda telst ekki marktækur eða er ekki trúað vegna ósamræmis í framburði, það getur maður sérstaklega séð hjá börnum.
En sú tilhugsun að konur og börn gangi gegnum þetta, að kæra og vitna að gamni sínu er fáránleg. Óttaslegin börn sem hafa verið misnotuð oft til margra ára af einhverjum sem þau þekkja og eiga þau væntanlega þar af leiðandi mjög erfitt með að segja frá. Það getur verið að eitthvað brenglist í framburði þeirra vegna ýmissa ástæðna en ég tel að það sé ekki nóg til að taka nokkra mánuði eða ár af níðingnum.

Mín niðurstaða er sú að það sé tvímælalaust hægt að breyta viðhorfi fólks með fræðslu og opinni umræðu þar sem fólki er gert grein fyrir afleiðingum þessara alvarlegu brota sem nauðganir eru. Ég held að nú þegar séu miklar og jákvæðar breytingar að verða eins og t.d. sást af viðbrögðum fólks við sögu systranna í Hafnarfirði af áralangri misnotkun og heimilisofbeldi. Það sem er mikilvægast er að dómskerfið sé í takt við þessa vakningu í íslensku þjóðfélagi.
./hundar