Góðan kvöldið.

Ég varð fyrir því óláni að horfa á Skjá1 kvöld. Þessi sjónvarpsstöð hefur nú verið með því skárra sem í boði er á íslenskum sjónvarpsmarkaði undanfarin misseri, en nú þykir mér hún vera farin að slappa heldur mikið. Flestir hafa líklega tekið eftir því að Skjár1 hefur verið að endursýna þætti af Malcom in the middle, CSI, Everybody loves Raymond, Two guys and a girl og fleiri þáttum síðan síðasta vor. Og um hverja helgi er svo öll vikudagskráin endursýnd og hef ég orðið fyrir því oftar en einu sinni, og oftar en tvisvar, að vera að horfa á þætti í þriðja skipti.

Og nú í kvöld var að byrja nýr þáttur sem gengur undir nafninu Íslendingar. Og sjaldan eða aldrei hef séð jafn leiðinlegan sjónvarpsþátt. Hann gengur í stuttu máli út á það að Fjalar (guttinn sem var í Innlit/útlit) spyr fólk mismunandi fáránlegra spurninga út úr mismunandi gömlum Gallup könnunum. Spurningar hljóðuðu til dæmis svona: „Hversu mörg heimili á Íslandi hafa fleiri ein eitt símtæki?“ og „Í hvaða kjördæmi á Íslandi eru flest símtæki?“. Og svo áttu keppendur að giska á einhver prósent eða kjördæmi. Þessi þáttur var vægast sagt dapur á mátti sjá það vel á áhorfendum, sem voru að sofna í sjónvarpssal. Enda ekkert skrítið þar sem ósköpin dundu yfir í klukkutíma. Ég ætla rétt að vona að þetta sé ekki það sem Skjár1 ætlar að bjóða áhorfendum upp á laugardagskvöldum.

Annað sem hefur verið áberandi hjá S1 undanfarið er áberandi mikið af tæknimistökum. Annaðhvort eru tæknimennirnir þar ekki að standa sig eða þá að tækjabúnaðurinn er handónýtur. Eitt er víst að þetta er mjög pirrandi og finnst mér að S1 verði að fara að vanda sig betur. Ég veit reyndar vel að þetta er ókeypis sjónvarpsstöð og allt það, en … það eru takmörk.

Endilega rakkið mig niður ef að ég hef rangt fyrir mér en þetta er allavegana mín skoðun.

Kveðja
Pungurinn