Í morgunn tók ég þátt með samstarfsmönnum mínum í þriggja mínútna þögn þar sem öll Evrópa í heild sinni minntist látinna fórnarlamba hryðjuverksins. Þennan stutta tíma hugleiddi ég það að Þessar þrjár mínútur sem virtust heil eilífð, eru sandkorn miðað við alla þá ævi sem aðstandendur þeirra látnu þurfa að minnast ástvina og syrgja, og þá eilífð sem tók við fórnarlömbunum, hvert sem þau fara svo eftir vist á þessari jörð.
Heimurinn í dag er illur, amk það er skilningur manns á honum í heild sinni. Auðvitað er að finna góðar sálir í milljónatali um alla þessa plánetu, en þær eru eins og lampaljós við hliðina á brennandi báli illskunnar.

Margir hér á Hugi.is hafa velt því fyrir sér hvort Bandaríkin hafi átt svona skilið eða hvort þau hafi átt að búast við þessu. Þá velti ég því fyrir mér og spyr á móti. Stjórnuðu þessar þúsundir saklausra landinu? Þessar þúsundir sem bara lifðu í þessu landi og gerðu lítið meira en að fara í vinnuna, eiga fjölskyldu og borga skatta? Var einhver þarna á meðal sem sendi herflugvélar með sprengjur á Júgóslavíu? Var einhver þarna á meðal sem hafði bein áhrif á ríkisstjórnina í stuðningi sínum við Ísrael?

Í viðtali við ónefndan fréttamiðil sagði Osama Bin Laden að fylking hans gerði ekki greinarmun á hermönnum og sakleysingjum í þessu stríði. Er ekki líka auðveldara að skjóta og sprengja borgarann en hermanninn? Er ekki auðveldara að ráðast að hópi saklausra manna en þjálfaðra hermanna með vopn og vörn? Er það ekki málið? Hryðjuverkamenn velja auðveldu leiðina, allt tal um hugsjón og engan greinarmun er bara til að réttlæta drápin fyrir þeim sjálfum, eða fólki í kringum sig og fela sannleikann.

Ef einhver trúir þessum rökum hryðjuverkamanna virkilega, þá ætti enginn að mótmæla því að næsti óbreyttur bandaríkjamaður færi til þess ríkis sem hýsir þá sem frömdu þessi hryðjuverk og dræpi þar konu og barn í hefndarskyni?
Eða að hryðjuverkamaður kæmi til þín lesandi góður og murkaði lífið úr foreldrum þínum, barni, eiginmanni, eiginkonu eða þér sjálfum? Vegna þess að Ísland er hluti af NATO og þessvegna í sama “liði” og Bandaríkin? Jafnvel þó Íslendingar ættu þátt í beinum stuðningi við Ísrael eða hverju því verki sem ýtti hryðjuverkamönnunum í það að fremja þessi voðaverk, þá ert þú lesandi góður ekki að stjórna landinu. Því ættir þú þá að vera réttlátt skotmark?



Gísli
—–