Þetta er ritgerð sem ég gerði í ár um Virkjunarmál á Íslandi fyrir þjóðfélagsfræði tíma í tíunda bekk.

Inngangur

Á Íslandi er mikil tíska sem felst í að byggja álver. Ríkisstjórnin segir að álver skapi atvinnutækifæri og hjálpi hagkerfinu. Já þetta er allt gott og blessað, en við þetta styrkist krónan, fullt af útlendingum koma til Íslands til að vinna og við þurfum að virkja vatnsföll og háhitasvæði til að skaffa nóga orku. Eins og með margt annað þá eru bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar á þessum málum og sýnist sitt hverjum. Ég ætla í nokkrum málsgreinum að reyna að gera grein fyrir helstu álitamálum sem eru í umræðunni í dag. Ég er búinn að lesa nokkrar greinar í Mogganum sem hafa birst á síðustu dögum.

Stefna stjórnvalda

Menn hafa lengi sagt að íslenskt efnahagslífið á Íslandi sé of einhæft, að við séum of háð fiskveiðum því fiskur er meira en helmingur af útflutningi okkar. Þess vegna þurfum við að nýta aðrar náttúruauðlindir, eins og t.d. orkuna sem leynist í ám okkar og háhitasvæðum. Þess vegna fóru menn fyrir meira en þrjátíu árum að skoða hvort ekki væri hægt að fá hingað stóriðju. Fyrsta stóriðja á Íslandi hófst þegar álverið í Straumsvík var reist í kringum 1970. Síðan hefur verið byggt álver í Hvalfirði og þar er líka járnblendiverksmiðja. Núna er verið að reisa stórt álver á Reyðarfirði og uppi eru áform um tvö ný álver til viðbótar og stækkun eldri álvera. Núna stefnir allt í að við verðum fljótlega meðal stærstu útflutningslanda á áli í heiminum.

Efnahagsleg áhrif

Miklar fjárfestingar í álverum og virkjunum þýða að mikið fjármagn streymir inn í landið. Við þetta styrkist krónan og erlendar vörur verða ódýrari, en laun á Íslandi tiltölulega há miðað við laun í útlöndum. Þess vegna getur fólk keypt mikið og síðustu tvö árin höfum við flutt inn fleiri bíla en nokkru sinni fyrr. Við flytjum inn vörur fyrir miklu meira en við flytjum út vörur því núna fást færri krónur fyrir fiskinn og annað sem við flytjum út. Það verður líka dýrt fyrir útlendinga að ferðast til Íslands og þá gengur illa í ferðamannabransanum. Mörg fyrirtæki eru að flytja úr landi til landa þar sem launakostnaður er lægri og markaðirnir stærri. Einhverntíma mun krónan veikjast, en hvað verður þá eftir af fyrirtækjum öðrum en álverum og virkjunum?

Samfélagsleg áhrif

Íslendingar eru fámenn þjóð og þegar mikil uppbygging er eins og núna vantar vinnualf. Þess vegna flytja margir útlendingar hingað til að vinna. Fyrir austan þar sem mestu framkvæmdirnar eru, við Kárahnjúka og á Reyðarfirði, er meirihluti karlamanna útlendingar sem tala ekki íslensku. Það sama hefur reyndar gerst í mörgum sjávarplássum á Vestfjörðum. Hvaða áhrif hefur það á samfélagið á þessum stöðum? Margir segja að laun útlendinga séu lægri en laun Íslendinga og þess vegna hækki laun okkar minna en annars hefði orðið. Á sama tíma flytja flytja íslensk fyrirtæki úr landi, t.d. Actavis flytur hluta af framleiðslu sinni til Búlgaríu og laxeldisstöð flytur frá Austfjörðum til Færeyja.

Áhrif á tækniþróun

Ný þjónustufyrirtæki sem beita mikilli tækni spretta upp til að þjóna álverum, en mörg hátæknifyrirtæki eins og t.d. hugbúnaðafyrirtækið sem hannar Eve online leikinn eru að hugsa um að flytja burt. Þetta er útaf því að ef krónan er sterk þá fáum við minni hagnað við útflutning. Hvaða áhrif mun þetta hafa þegar framkvæmdum við stóriðju lýkur?

Lagahliðin

Þegar ákveðið er að virkja og byggja stórar verksmiðjur þarf að meta áhrif á umhverfið og út úr því geta orðið miklar deilur sem snúast um túlkun laga. Oft þarf líka að taka jarðir eignarnámi, þ.e.a.s. fólk sem á t.d. jarðir sem fara undir vatn verða að selja og sætta sig við verð sem einhver nefnd ákveður. Núna eru líka miklar deilur um starfsmannaleigur og kaup og kjör margra útlendinga og réttindi þeirra hér á landi, og hvort þeir eða fyrirtækið eða aðrir eigi að borga skatta og önnur gjöld af tekjum þeirra.

Umhverfismál

Umhverfismál eru þau mál sem eru mest í umræðunni hér. Um leið og við virkjum fer oft fallegt gróið land undir vatn þegar ár eru stíflaðar og stór uppistöðulón mynduð. Á þessari síðu getur þú séð land sem mun fara undir vatn þegar stíflan við Kárahnjúka er tilbúin http://www.inca.is/show/ Við Kárahnjúka eru jökulár virkjaðar. Rennsli í þeim er mest á sumrin þegar jökullinn er að bráðna, en miklu minni á veturna. Þess vegna er vatni safnað á sumrin og lónin svo tæmd yfir veturinn. Mikill leir er í jökulám og hætta á að leirfoki á vorin sem getur skemmt enn meira gróðurlendi. Íslendingar hafa skrifað undir alþjóðlegan sáttmála þar sem við skuldbindum okkur til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda, en þær valda því að hiti á jörðinni eykst. Við fengum þó sérstaka undanþágu til að auka þær vegna þess að við notum svo mikið af hreinni orku, en margar aðrar þjóðir fá mest af rafmagni sínu úr orkuverum sem brenna kol. Ef við ætlum að auka framleiðslu á áli eins og sumir halda, þá munum við ekki geta staðið við sáttmálann, þó svo að við séum nú þegar á sérstakri undanþágu. Viljum við það?

Lokaorð

Mér finnst að þótt margt komi gott með álverum og virkjunum þá séum við að ganga of langt og fórna of miklu – gróðinn kemur að hluta fram sem tap annars staðar og það verður ekki eins fallegt á hálendinu og gaman að ferðast um landið. Ferðaiðnaðurinn er mjög stór og mikilvægur ég vil frekar hafa hátækniiðnað sem gefur góðar tekjur og eyðileggur ekki náttúruna heldur en fullt af álverum og virkjunum. Það verður nefnilega ekki aftur snúið, en við getum alltaf virkjað seinna ef við viljum.