Fleiri lögreglumenn kallaðir út á álagstímum (ÚR MBL.IS)
Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra segir að borgarbúar komi ekki til með að finna fyrir skertri þjónustu lögreglunnar í Reykjavík, þrátt fyrir fækkun lögreglumanna vegna sparnaðar í rekstri lögreglunnar í Reykjavík. Vandinn sé tímabundinn og verði að líkindum leystur um áramótin.
Um 20-25 færri lögreglumenn verða að störfum hjá lögreglunni í haust en voru við störf í byrjun árs. Þá voru þeir 275 en verða nú 250-255.

Sólveig átti fund með yfirstjórn lögreglunnar í gær vegna málsins og segir hún þann vanda sem lögreglan á við að etja vera tímabundinn sem eigi rót sína að rekja m.a. til hallareksturs undanfarinna ára. “Það verður unnið áfram að því að bregðast við þessum tímabundna vanda,” sagði Sólveig. “Rekstrarvandi lögreglunnar í Reykjavík krefst þess að embættið gæti aðhalds út þetta rekstrarár, en þegar hefur verið bent á að það er reiknað með að lögreglunni verði kleift að fjölga lögreglumönnum aftur um áramótin. Ég legg áherslu á að íbúar borgarinnar finna ekki fyrir skertri þjónustu, þar sem viðbótarmannskapur verður kallaður út á álagstímum ef á þarf að halda, s.s. um helgar. Í vinnslu er samstarf lögreglunnar í Reykjavík við Lögregluskólann þar að lútandi.”


Tæplega 1,6 milljarðar króna til ráðstöfunar
Sólveig segir ekki unnt að upplýsa um hvort auknum fjármunum verði varið til lögreglunnar í Reykjavík, enda séu fjárlög ríkisins í vinnslu. Lögreglan í Reykjavík hefur nú tæplega 1,6 milljarða króna til ráðstöfunar á yfirstandandi rekstrarári.
Sólveig bendir á að mannafli við löggæslustörf í borginni muni ekki minnka ef miðað er við fjölda lögreglumanna í sumar. Lögreglumönnum á launaskrá muni að vísu fækka, þegar afleysingamenn úr Lögregluskólanum fara aftur til náms. “Á móti kemur að flestir lögreglumenn hafa tekið sumarleyfi sín þannig að á heildina litið er um að ræða óverulega fækkun. Löggæslan í miðbænum á t.d. ekki að minnka miðað við í sumar, nema þörfin fyrir löggæslu minnki.”

Heimiluð stöðugildi hjá lögreglunni eru 290 en Sólveig segir að á síðustu árum hafi ekki verið mannað í öll stöðugildin, enda ráðist það af fjárveitingum til lögreglunnar.

Aðspurð hvernig 255 lögreglumenn eigi að sinna sömu störfum og 275 segir Sólveig að vel megi vera að lögreglan þurfi að hagræða, en bendir jafnframt á að lögreglan hafi náð góðum árangri miðað við fjölda lögreglumanna í sumar. “Ég vænti þess að lögreglan verði að haga störfum sínum í samræmi við þann fjölda lögreglumanna sem hún hefur en ég bendi á það að vonir standa til að fjölgað verði aftur um 20 lögreglumenn um næstu áramót,” segir Sólveig.

Ok þetta er grein af mbl.is sem vakti athygli mína. Er ég ein um að finnast það undarlegt að lögreglunni sé “umbunað” fyrir góðan árangur í sumar í niðurskurði og endurskipulagningu með því að skera enn frekar niður? Og finnst fólki eðlilegt að 225-250 lögreglumenn sinni störfum fyrir 290? Á það skal bent, fyrir þá sem aldrei hafa unnið vaktavinnu, þá eru vinnustaðir keyrðir áfram á yfirvinnu starfsmanna þegar mannekla er. Það þýðir að þegar lögreglumaður kemur að árekstri um kl. 1900, þá er hann kannski að koma að árekstri númer 8 þann daginn, og vaktin sem hann hóf kl. 0800 er rétt rúmlega hálfnuð. Við gagnrýnum heilbrigðisráðuneytið og yfirmenn spítala fyrir stefnu þeirra gagnvart vinnu unglækna, en lögreglumenn og störf þeirra eru ekki síður mikilvæg. Svo heldur Sólveig því fram að íbúar Reykjavíkur muni ekki finna fyrir þessari fækkun, en hvað með lögreglumennina? Munu þeir ekki finna fyrir henni? Mín reynsla af vaktavinnu, starfsmannaskorti og erfiðu starfi hefur verið sú að fleiri hætta. Ef það vantar þrjú stöðugildi, og það þarf því að manna 3x24 (þrír starfsmenn x sólarhringur) með aukavöktum, þá eykur það óneitanlega álag á þá sem fyrir eru. Nú hafa lögreglumenn ekki verkfallsrétt ef ég man rétt, og þeir, eins og aðrir sem vinna vaktavinnu, lúta yfirvinnuskyldu. Það þýðir að þú mátt ekki neita því að taka aukavakt, nema þú sért kominn yfir lágmarkið þá vikuna.
Ég held að ég ætli að vera voða góð við grey lögguna þegar/ef ég þarf að kljást við þá…
-oink oink flop flop-