Innlent | 14.08.2001 | 12:16

Landssíminn óskar eftir lögreglurannsókn vegna grunsemda viðskiptavinar
Landssíminn hefur farið þess á leit við lögregluna í Reykjavík að hún rannsaki grunsemdir viðskiptavinar um að starfsmaður Símans Internet hafi lesið tölvupóstinn hans. Starfsmaðurinn neitar sök en hann hefur verið sendur í leyfi á meðan mál hans er til skoðunar.

Viðskiptavinur fyrirtækisins sagði bréflega upp netþjónustu sinni hjá Símanum Internet og gat þess í bréfinu að hann hefði grunsemdir um að starfsmaður fyrirtækisins hafi lesið tölvupóst sinn, sem var vistaður á póstþjóni fyrirtækisins, og greint þriðja aðila frá efni þeirra. Viðskiptavinurinn, sem þekkir viðkomandi starfsmann fyrirtækisins persónulega, hefur fært viðskipti sín yfir til Íslandssíma.

Heiðrún Jónsdóttir Forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála hjá Landssímanum segir að málið sé litið mjög alvarlegum augum innan veggja fyrirtækisins, en hún bendir á að enn liggi engar sannanir fyrir. Hún segir að málið sé í skoðun og að nú sé verið að verið að kanna skrár fyrirtækisins. „Síminn telur málið mjög alvarlegt enda leggjum við mikla áherslu á öryggi viðskiptavina okkar og trúnaðarsambandi.“ Heiðrún segir að viðskiptavinurinn hafi átt fund með yfirmönnum Símans Internet og að fyrirtækið leggi mikla áherslu á að upplýsa málið. „Því teljum við eðlilegast að hlutlaus aðili rannsaki málið og höfum vísað því til lögreglu.”

Heiðrún segir það óhjákvæmilegt að takmarkaður fjöldi starfsmanna hafi aðgang að viðkvæmum upplýsingum og bendir á að örfáir aðilar innan veggja fyrirtækisins hafi aðgang að tölvupósti viðskiptavina Símans Internet. Hún segir það því tæknilega mögulegt að skoða tölvupóst annarra eins og það sé tæknilega mögulegt að hlera síma.

Brot varða sektum eða fangelsisdómi

Í póst- og fjarskiptalögum segir að allir sem starfa við fjarskiptavirki, hvort sem um er að ræða starfsmenn fjarskiptafyrirtækja eða aðra, skulu skyldugir, bæði meðan þeir gegna starfinu og eftir að þeir hafa látið af því, til að halda leyndu fyrir óviðkomandi aðilum öllu því sem um fjarskiptavirkin fer, hvort sem um er að ræða efni skeyta eða samtala eða hvort fjarskipti hafa átt sér stað og á milli hverra. „Ekki má án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti, önnur skjöl eða annála um sendingar sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti skal fara samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála," segir í lögunum.

Þá kemur fram að brot laganna um leynd og vernd fjarskipta varða sektum, en fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar eða brot ítrekuð. Gáleysisbrot skulu hins vegar eingöngu varða sektum.

———–

Mér þætti nú í sjálfum sér ekkert undarlegt að þetta gæti þekkst hjá öðrum internetsþjónustum, tel að margir tæknimenn hafi aðgang að svona réttindum og notifæri sé það í siðgerðis- og ólagalegum tilgangi, en einkennilegt þykir mér að og nokkuð fáránlegt að starfsmaður sé sakaður um að gefa þriðja aðila efni skeytanna. Ég meina það þarf að vera nokkuð siðferðislega blindaður til þess að gera slíkt. Hvað finnst ykkur?