Ég hef verið að velta þessu fyrir mér, þ.e. hvar ábyrgðin liggur ef einhver aðili setur inn óhróður eða annað ólöglegt inn á einhvern vef eða umræðuþræði.

Fyrir þá sem ekki vita þá var vefnum malefnin.com lokað vegna þess að á umræðuþráðunum þar var einhver aðili, í skjóli nafnleyndar, sem setti inn tengil á tölvupóstana hennar Jónínu Benidiktsdóttur. Athugið, ég er að tala um tengil. Eigandi malefnin.com ákvað eftir að hafa athugað lagagrundvöllinn, að loka vefnum þar sem hann komst að því að ábyrgðin var hans.


Nú er ég eigandi eins vefs þar sem er umræðuþráður, og fólk þarf ekki að skrá sig með kennitölu líkt og er gert hér á hugi.is. Reyndar er skráning með kennitölu engin trygging fyrir því að óprúttið fólk skrái sig ekki með kennitölu annarra (því jú kennitölur á íslandi eru ekkert leyndarmál).

Það er ekki til nein leið til að tryggja að sá sem skrifar greinar eða pósta á vefnum sé virkilega sá aðili sem hann segist vera. Jafnvel þótt sendur sé póstur heim til fólks (ekki tölvupóstur) þar sem því er gefið notandanafn og lykilorð, þá er engin trygging fyrir því að einhverjir steli ekki þessum aðgangsupplýsingum.

IP tala á tölvunni sem óprúttna fólkið kom frá er heldur engin trygging fyrir því að hægt sé að finna viðkomandi.

Þannig að eigendur þessara vefsvæða sitja í súpunni, þar sem óhróðri er dælt inn fyrir alla til að sjá. Ekki er hægt að standa í því að skoða alla pósta sem sendir eru inn, því flestir þessara vefsvæða eru ekki rekin í hagnaðaraskyni.


Erum við að sjá fram á að fleiri vefsvæðum á Íslandi verði beinlínis lokað vegna þessa? Ég hef verið að íhuga að loka mínu útaf þessu, þar sem ég kæri mig ekkert um að sitja í einhverri lagasúpu útaf einhverjum asna úti í bæ sem enginn veit hver er.

Það væri t.a.m. ástæða til að loka Huga, einkamál, private, o.fl. vefsvæðum sem býður upp á þjónustu fyrir íslenska internetnotendur.


Ég hef reyndar ekki kynnt mér þetta lagaumhverfi, en ef þetta er raunin þá veit ég það að mörgum vefum á eftir að vera lokað.

Fyrir mína parta, þá get ég ekki sagt að það sé lýðræðislegri umræðu til framdráttar, og að í frjálsu samfélagi sé hvergi vettvangur fyrir fólk til að eiga samskipti við annað fólk. T.a.m. ef Huga yrði lokað, þá gæti ég ekki skrifað þennan póst, og þú heldur ekki lesið hann.


En mér finnst þetta vera ansi mikið vafamál, þar sem hægt er að líkja svona umræðuvefum við símafyrirtækin. Ekki er hægt að lögsækja símafyrirtækin fyrir það að einhver hringi í einhvern og dæli yfir hann óhróðri. Og heldur er ekkert víst að sá aðili sem hringdi finnist, þar sem auðveldlega er hægt að hringja úr stolnum gsm síma, frelsi eða öðru.