Nú stendur til að tónlistarkennarar fari í verkfall sökum þess að ríkið vill ekki semja við þá um mannsæmandi laun. Eins og mörgum er kunnugt þá eru tónlistarskólar á Íslandi ekki á háum fjárlögum frá ríkinu, öfugt við erlendis, heldur eru þeir allir einkareknir. Þar af leiðandi eru skólagjöldin svimandi há þannig að ekki hafa allir foreldrar efni á því að leyfa börnunum sínum að stunda tónlistarnám. Þetta finnst mér vera hin mesta heimska því fátt er eins þroskandi fyrir krakka og að læra á eitthvað hljóðfæri, það er bæði aginn sem því fylgir svo og skemmtunin þegar vel gengur. Svo er tónlistin líka svo stór hluti af okkur sjálfum, hugsið ykkur bara hvernig lífið væri án hennar?

Málið er bara að tónlistarmenningin hér á Íslandi hófst ekki fyrr en á 20. öldinni, við Íslendingar vorum soddan fátæklingar hér á öldum áður að við áttum engin hljóðfæri. Eina tónlistin sem við heyrðum voru gamlar stemmur sem voru kyrjaðar í moldarkofunum á hátíðis- og tyllidögum, svona til að lýsa upp svartasta skammdegið. Þessu var ólíkt farið í öðrum Evrópulöndum til dæmis, þar var leikin klassísk tónlist fyrir fólk til að skemmta því og mikið var lagt upp úr því að fólk sem hafði tónlistarhæfileika nyti góðs af því.

Hérna á Íslandi virðist hins vegar öllum vera sama. Ríkið hefur ekki minnsta áhuga á því að reka góða tónlistarskóla heldur eyðir skattpeningunum í að byggja stórar kringlur og önnur fíflaleg mannvirki. Nú og svo þegar verkfall tónlistarkennara er yfirvofandi geta þeir ekki einu sinni hunskast til að gera almennilega samninga við þá. Ríkið hugsar bara ekki dæmið til enda. Það að vera í tónlistarnámi eða að sinna einhverju áhugamáli hefur svo mikið forvarnargildi fyrir krakka. Þeir krakkar sem hafa ekkert áhugamál leiðast frekar út í eitthvað rugl og svo hafa rannsóknir líka sýnt að börn og unglingar sem stunda tónlistarnám standa sig yfirleitt betur í skóla en jafnaldrar þeirra. Nóg um það…

Eitthvað VERÐUR að taka til bragðs. Þessu þarf að breyta. Vonandi er ég ekki ein um þá skoðun.