Mér hefur að undanförnu þótt skondið hvaða viðbrögð þessir tilbúnu Karakterar eru að fá í fjölmiðlum. Þá er ég vissulega að mestu að vísa í Silvíu Nótt og fárið sem um hana hefur verið að undanförnu.

Svo ég dreypi svona á aðalatriðunum eins og ég upplifi þau..
Þarna er verið að tala um Leikkonu sem að býr til karakter og fer með hann í sjónvarpið. Svipað og Gunnar Helgason gerði á Skjá einum hér um árið og bjó til Nonna-Sprengju, Magnús Scheving gerði Íþróttaálfinn og hey.. Ali G er í raun Sacha Baron Cohen.
Á sama hátt er Silvía Nótt aðeins Águsta Eva Erlendsdóttir ,leikkona að gera það sem hún fær borgað fyrir.. Að leika!
Þessi Karakter er í fyrstu markaðssettur til að fara í taugarnar á fólki og verða að umræðuefni á kaffistofum á yfir helmingi vinnustaða landsins. Hún verður umtalaðasta manneskja landsins á nokkrum vikum, allir hafa skoðun á því sem hún er að gera og viti menn, hún er orðin fræg! Hún er manneskjan sem allir elska að hata! (Eins og Páll Óskar orðaði það um sjálfan sig eftir “London, París, Róm” Fíaskóið sitt)

Það er á þessum tímapunkti sem að það er farið að koma í ljós að þessi tilbúna samtímamanneskja, þessi stelpa sem er eins og uppmáluð af skítmenningu nútíma-vestræns lifnaðarháttar, er uppspuni!
Yfir helmingur þeirra sem vita af henni skipta þá um skoðun og finnst þessi tilbúningur sem troðið hefur verið inn í fjölmiðla íslensku þjóðarinnar algjör snilld! Það þykir orðið “hip og cool” að fíla Silvíu Nótt því þetta er bara djók. Enginn af þeim sem nú elskar hana vill viðurkenna að hann hafi hatað hana allan þennan tíma og segist hafa vitað það allan tímann að þetta var leikið!

Þjóðin skiptist eiginlega í tvennt.
Annarsvegar eru það þeir sem fagna þessu, þeir kaupa DVD diskinn og taka upp “Næturfrasa”, eins og ég kýs að kalla þá, og fara að segja “Skiluru” eftir hverja fullyrðingu.
Hinsvegar eru það þeir íhaldssömu, aðallega fólk úr eldri stéttum þjóðarinnar, sem finnst svona látalæti og tilbúningur ekki eiga heima í sama viðtæki og James Dean, Humphrey Bogart og Ingrid Bergman gerðu eitt sinn. Margir úr þessum hópi eru jafnvel bitrir að hafa ekki fattað upp á þessu áður en Ágústa Eva og Skjár Einn tóku sig til og gerðu þetta með glæsibrag.

Það fyndnasta er að þetta er einn best markaðssetti karakater sem ég hef séð í langan tíma. Þeir sem elska hana og kaupa DvD Diskinn, horfa á þáttinn og selja þar með auglýsingar og kjósa hana jafnvel í Evrópu-Sjón (al-íslensk þýðing á Eurovision) sjá um að þau fá pening í vasann. Þeir sem þola hana ekki halda henni í fjölmiðlum og skrifa um hana greinar. Þeir gagnrýna hana og þessa hugmynd og halda að hún hafi mætt full í viðtal, svindlað í forkeppninni og skitið yfir stolt þjóðarinnar, landsbyggðina og sauðkindina!

Venjulega hefði ég reynt að “boycotta” (úr orðaforða Davíðs Rollukolls) þessa næturdís og farið í fýlu yfir því að ég hefði verið “plataður” í að koma karakternum í fjölmiðla. Orðið svekktur yfir því að hún hefði notað skoðanir fólks til að koma sér á framfæri. En ég verð hreinlega að hrósa Ágústu og Skjá einum fyrir að takast á ótrúlegan hátt að snúa á þjóðina. Þetta var án efa skoðað í bak og fyrir og á endanum látið vaða. Það sést á svipnum á sjónvarpsstjóranum á Eddu-verðlaunahátíðinni hvað hann er stoltur af ákvörðun sinni um að leyfa dívunni að skreyta dagskrána hjá sér. Hann stóð upp og nánast grét af ánægju þegar hún var kosin sjónvarpsstjarna ársins eða hvað sem hún var kosin á þessari íslensku Emmy/Grammy hátíð.
Þeim tókst að plata fólk í að kjósa hana sem fulltrúa Íslands í Evrópu-sjón og sigra forkeppni sem hefur sjaldan innibyrgt jafn mikið “talent” og nú. Þarna voru samankomin sjálfskipaður konungur landsins (Geir –Celeb- Ólafs), Barnaprinsessan (Birgitta) og samansafn Ædolstjarna sem sátu eftir með sárt ennið eftir að Silvía hirti af þeim tæp 70% greiddra atkvæða.

En stóra spurningin er auðvitað enn eftir. Tekst þessum tilbúna al-íslenska einka-húmors-brandara að sigra Evrópu? Á ég eftir að kaupa Sivie-Barbie handa dóttur minni á komandi árum? Eiga múslimar eftir að brenna lifesize plagöt af augnstjörnunni í mótmælum við Múhameð með sprengju á hausnum?

Ég efast um að þeim eigi eftir að takast það! Ég held í raun að þetta stórstökk út í vestrænan veruleika eigi eftir að verða nálastungan í sápukúluna. Hún á eftir að taka sæti rétt fyrir aftan Hollenska jóðlarann og koma heim með skottið á milli lappanna. Hún á eftir að koma fram í þættinum sínum og grenja yfir ósanngjörnum dómi og asnalegum “upphitunarböndum”. Fólk fer að missa áhugann og þeir sem halda ennþá að Evrópu-sjón skipti einhverju máli, loka alveg á hana.

Ég geri mér fullvel grein fyrir því að auðvitað er ekki hægt flokka alla landsmenn í þessa flokka sem ég bý til hér, en vonandi hjálpar þetta þessum örfáu sem ekki hafa fattað þetta “Silvíu-concept” ennþá við að átta sig á málunum.

Þakka fyrir mig
Kv. GIS