Jæja gott fólk. Bitur á ný, því stundum getur verið svo erfitt að koma auga á það besta í erfiðum aðstæðum (andvarp). Mér virðist nefnilega sem svo að í hvert skipti sem ég er almennileg við einhvern (sem er nú ekki oft :) ) að það komi aftan að mér með slæmum afleiðingum.

Nei sannleikurinn er sá að yfirleitt er ég boðin og búin til að gera eitthvað fyrir fólk án þess ENDILEGA að fá eitthvað fyrir í staðinn. Samt vilja auðvitað allir, a.m.k. stöku sinnum, fá kredit fyrir það sem þeir gera fyrir aðra þótt ekki væri nema koss á kinnina eða eitt einfalt “takk”. Þar er ég engin undantekning. En eins og sannast hefur er lífið ekki sanngjarnt og í langflestum tilvikum fær maður ekkert nema skömm í hattinn frá fólki sem maður gerir eitthvað fyrir. Á hinn bóginn eru það örfáir sem eru manni þakklátir og segja “takk” og á slíkum stundum verður maður hrærður og finnst sem að líf manns hafi öðlast einhvern tilgang. Manni hefur, aldrei þessu vant, tekist að láta eitthvað gott af sér leiða og glatt EINA vesæla sál. (hummmmm…. hverjum er ekki sama, hverjum er ekki sama?)

En grínlaust þá fæ ég greiðann sjaldnast endurgoldinn og leyfi fólki að traðka yfir mig á skítugum skónum. Síðan, þegar mælirinn er fullur hjá mér og ég ætla loksins að standa upp í hárinu á fólki bregst það hið versta við og er ekki einu sinni viðræðuhæft heldur kallar mig öllum illum nöfnum og endar svo jafnvel með að skella á mig þ.e.a.s. ef ég ætla að fara að rífa mig eitthvað við það í gegnum síma. (Mæli ekki með því…).

Þetta er alveg að gera mig gráhærða því smám saman fær fólk auðvitað þau skilaboð að ég sé svo mikil gunga að það sé bara allt í lagi að vaða yfir mig. Ég segi hvort eð er aldrei neitt við því. Núna er ég alls ekki að segja að ég sé eitthvað fórnarlamb sem allir vefji um fingur sér, heldur var þetta eitt ákveðið atvik; sem ég nenni ekki að greina frá, sem gerði mig svo reiða að það bullsauð í mér.(Plús það að ég fékk afar sárt spark í óæðri endann :) ). Í kjölfar þessa atviks fór ég að hugsa að ég læt í rauninni mjög oft vaða yfir mig án þess að mæla orð frá vörum. Þess vegna spyr ég, eiga svona gungur eins og ég ekki bara að sleppa því að gera öðrum greiða? Fólk virðist nefnilega alltaf ganga á lagið, það hættir sér alltaf skrefinu lengra, og skrefinu lengra, þar til því hefur tekist að brjóta mann niður auk þess sem maður er orðinn, vægast sagt, alveg svakalega pirraður. Ofurbrjálaður! :)

Vott em æ suppóst tú dú? Eru einhverjir hér sem eiga í sömu erfiðleikum eða eiga góð ráð handa gamalli belju eins og mér??