Þó ótrúlegt sé og kannski hálf skammarlegt að hugsa til þess, og fæstir myndu viðurkenna það, þá er í það minnsta um meginþorri þjóðarinnar sem nýtur þess að lesa/heyra skandalasögur um nágranna sína eða þjóðþekkta einstaklinga. Því meira krassandi og dörty sem sögurnar eru, því skemmtilegri er sá fjölmiðill sem um málið fjallar í huga flestra (engin alhæfing heldur bara pæling hjá greinahöfundi).

Allt frá upphafi mannskyns hefur Gróa á leiti verið á ferðinni á meðal manna og stundum hefur hún tekið harðar á einum frekar en öðrum – allt eftir efni og ástæðum. Það er líklega hálfgerð nýbylja að byrjað er að fjalla um menn og málefni í fjölmiðlum, þar sem ákveðnir eða meintir afbrotamenn eða mislukkaðir þjóðfélagsþegnar eru nafngreindir og jafnvel myndir af þeim birtar, mörgum til ama en öðrum til mikillar lukku.

Þegar ég segi til ama, þá meina ég að það er að sjálfsögðu þeim til ama sem um er fjallað og af þeim myndir birtar og þeir nafngreindir, burt séð frá sekt eða sakleysi – þeir eru “meintir” brotamenn og því hugsanleg söluvara.

Ærið erfitt getur reynst að endurheimta mannorð sitt aftur ef saklaus reynist sá sem um er fjallað því oftar en ekki trúir almenningur því sem hann sér/heyrir ef um flennistórar fréttir er að ræða.

Það er í mannlegu eðli að taka þátt, mynda sér skoðun á málefnum, og dæma strax með því einu að lesa fyrirsagnir dagblaða eða heyra fréttir af hinum ýmsu atburðum. Oftar en ekki situr svo þessi ímynd, sem almenningur gerir sér af hinni nafngreindu og myndbirtu persónu, eftir og erfitt er að hrekja þá ímynd burt því ef persónan reynist saklaus eftir allt bröltið þá er hugsanlegt að lítil klausa langt inni í afkimum fjölmiðlanna verði birt þar sem beðist er velvirðingar eða málin leiðrétt. En hver sér smáa letrið svo sem, hver les allar litlu klausurnar sem eru á víð og dreif í dagblöðunum? Ekki allir svo mikið er víst!

En þegar ég nefni öðrum til mikillar lukku þá á ég við eins og dæmin hafa sýnt og sannað í t.d. tilviki Steingríms Njálssonar, þar sem hann var búinn að lokka heim til sín ungling (hugsanlega með eitthvað misjafnt í huga) sem nágranni bjargaði vegna þess að hann grunaði hvað hugsanlega í vændum var þar sem hann sá til og þekkti Steingrím N. sem barnaníðing, eftir myndbirtingu DV (bara dæmi, því einnig hefur t.d. verið varað við meintum “svefnnauðgara” með nafn/myndbirtingum).

Er ekki mikil gleðigjöf og hamingja því fylgandi að geta bjargað lítilli barns/mannssál frá því að lifa í skugga hrotta sem einskis svífst í þeim tilgangi einum að fullnægja eigin óhugnanlegu fantasíum? Jú, það myndi ég ætla að allir væru sammála um, en hvar mörkin má draga er og verður líklega ætíð umdeilanleg.

Þó svo að engin óski neinum raunverulega svo ills að þeir höndli ekki álagið, burt séð frá því hvort um sekt eða sakleysi sé að ræða, fari yfir móðuna miklu vegna umfjöllunnar fjölmiðla um þá, þá finnst mér persónulega mikil synd að hengja smið fyrir bakara.

Í sambandi við nýjasta fárið, meintan piltaníðing frá Ísafirði, er að mínu mati farið offari gegn stefnu DV í því að nafn/myndbirta og fjalla um málefni áður en öll kurl eru komin til grafar.

Það skella allir skuldinni á DV og mála þann fjölmiðil sem Gróu á leiti, hinn mikla sökudólg sem engum hlífir og öllum er til ama, en er sökin (á dauða hins meinta barnaníðings) raunverulega á höndum þessa fjölmiðils? Nei, ekki að mínu mati, það er bara svo gott og auðvelt að hafa einhvern til að skella skuldinni á - ég tala nú ekki um ef einhver hefur þegar hafð horn í síðu þessa fjölmiðils, að nú er tækifæri til að blása upp múgæsing og stefna öllum í kringum sig gegn þessum miðli.

En hverjum ber þá að taka á sig sök ef skuldinni er sannarlega ekki í raun og veru hægt að skella á DV - ef um er að ræða að meintur/ir afbrotamaður/menn sem um væri fjallað hyrfu nú á vit feðranna af eigin hendi?

Hver er hlutur þess sem ber upphaflega ábyrgð á því að málin verði að þvílíku báli sem raun ber vitni að stundum verður? Hver er hlutur þeirra sem komu þessu af stað? Hver er hlutur meintra afbrotamanna? Hver er hlutur þeirra sem rannsaka málin og hver er hlutur fjölmiðla sem fjalla um þau mál?

Upphafið á alltaf meintur brotamaður að mínu mati - ef meintur brotamaður hefur gerst sekur um t.d. kynferðislegt ofbeldi gagnvart ungum börnum, nú eða hvaða brot sem er! Með því að brjóta lög og níðast á ólögráða unglingum t.d. er hinn meinti brotamaður að bjóða hættunni heim í stofu til sín.

Það er í mínum huga hann einn sem ber ábyrgð á eigin lífi og limum, annaðhvort brýtur hann af sér og á það á hættu að upp um hann komist með öllu því báli sem fylgir, eða hann heldur sig innan ramma laganna og lifir hamingjusamur þar til örlögin taka í taumana og hann kveður lífið og tilveruna sáttur við sitt.

Ef upp koma kvistir/sögusagnir um afbrot eða lögbrot einhvers, þá er það í verkahring þess sem sakaður er um brotið – að sanna sakleysi sitt ella sæta refsingar fyrir brot sitt.

Í mínum huga kallast það sönnun á sekt ef meintur afbrotamaður flýr af “vettvangi”, sekt yfir því að hafa gert eitthvað sem ekki stenst lög og reglur um almenna hegðun gagnvart öðrum þjóðfélagsþegnum.

Ef meintur afbrotamaður aftur á móti reynist saklaus - þá eru það kærendur sem bera á meintan afbrotamann einhverja sök, sem bera ábyrgð á því hvernig málum er háttað. Ef um alvarlegar afleiðingar sakbendinga þeirra er að ræða, eins og t.d. sjálfsvíg hins meinta afbrotamanns, þá er það “fingurinn sem benti” sem ber ábyrgð á því hvernig málin þróast.

Ef meint fórnarlömb hefðu ekki byrjað, bent fingri, búið til meinta atburði eða eitthvað álíka, þá væri ekkert mál til að fjalla um og ekkert vandamál á ferðinni.

Einstaklingur sem t.d. er veill á geði, þunglyndur, eða eitthvað hvekktur út í lífið og tilveruna, já eða bara viðkvæmur einstaklingur, er borin sök á einhverju alvarlegu sem varðar líf og limi almennings en er í raun saklaus af, gæti auðveldlega brotnað undan álaginu sem fylgir því að vera allt í einu miðpunktur athyglinnar í sínu nágrenni, sínum heimabæ eða sínu heimalandi. Lítið þarf til að fá slíka manneskju til að velja auðveldustu leiðina út, en er sökin þá ekki þeirra sem bentu á hann í upphafi og sögðu “hann er sekur, hann gerði þetta”?

Að þessum hugleiðingum loknum hugsa ég enn og aftur um það hvað það er auðvelt að hengja smið fyrir bakara – hengja fjölmiðla fyrir að fjalla opinberlega um málefni sem eru þegar á allra vitorði í kringum meinta sakborninga - í stað þess að komast að því hver “bakarinn” er og hvort um sök eða sakleysi sé að ræða og í framhaldi af því hver beri ábyrgð og á hverju.

Kveðja:
Tigercop sem pælir sennilega of mikið í því sem hann hefur engan áhuga á í raun og veru og finnst það hálfskondið að skoða hvernig alþingismenn, ýmiss samtök og jafnvel stórhluti þjóðarinnar tekur þátt í því að harma hvernig umfjöllun ákveðins fjölmiðils um “meintan” barnaníðing er háttað – en á sama tíma skiptir engin af þeim sér af fjölmiðlaumfjöllun um gamla konu sem er að deyja drottni sínum vegna þess að hún hefur ekki efni á því að lifa – og allur þessi hópur virðist ósnortinn af “heimsku” kellingar og horfa svo bara glottandi í hina áttina - skamm bara!