Ég skrifa þessa grein vegna greinar sem ég las í heitar umræður um reykingar á almannafæri jafnt og á kaffihúsum og veitingastöðum.
Því miður er sú grein orðin útjöskuð og ómálefnaleg og fannst mér því ekki mikill tilgangur í að svara henni þar.

Ég vil byrja á að lýsa yfir óánægju minni með það að bannað sé að reykja á almannafæri. Ekki vegna þess að þá get ég ekki reykt á almannafæri lengur, heldur vegna þess að lög sem eru dæmd til þess að enginn fari eftir þeim eru öllum til óþurftar og geta aðeins orðið til vandræða. Það verður ekki frekar hætt að reykja á almannafæri heldur en fólk er hætt að drekka á almannafæri.

Nú er líka fokið í flest skjól fyrir reykingafólk. Hvar á fólk að reykja? Nú eru flest fyrirtæki að berjast við það að verða reyklaus. Sem þýðir ekki að það séu engir starfsmenn sem reykja, heldur það að þeir hafa enga aðstöðu til þess. Ég er að vinna hjá Eimskip og þeir ætla nú í September að útrýma reykherberginu og nýta plássið í annað. Þeir hafa jafnframt beðið starfsfólk að reykja ekki í skýlinu fyrir framan andyrið. Ok, þannig að fólk verður að fá sér göngutúr til að geta reykt. Maður getur vel sætt sig við það á sumrin en það er erfiðara í frosthörkunni á veturna.
“Fólk getur farið út í bíl og reykt”, segja sumir, en þeir sem segja það vinna ekki í miðbænum, þar sem er allt að korters gangur að staðnum þar sem maður fann stæði.

Kaffihús, veitingastaðir og skemmtistaðir eru einu staðir sem eftir eru sem má reykja á. Einu sinni mátti reykja í bíó og sumum sjoppum og öðrum slíkum stöðum. Nú er það búið og aðeins þessi síðustu vígi eftir.
Ef ég er beðinn ef einhverjum við mitt borð að drepa í þá geri ég það hiklaust. Ég reyki heldur ekki á meðan annað fólk við mitt borð er að borða. Þetta kalla ég tillitssemi. Það er aftur á móti alltaf einhver að borða á nærliggjandi borðum á veitingahúsum og alltaf reyklaust fólk á kaffihúsum. Ef ég ætlaði að taka tillit til þeirra allra, gæti ég ekkert reykt. Að reykja ekki eftir góða máltíð er eins slæmt fyrir mig og fyrir reyklausa að fá reyk beint í andlitið á meðan þeir borða, ef ekki verra. “Þið getið farið út og reykt” segir fólk, en kannski langar mann ekkert að yfirgefa veitingastaðinn strax. Kannski er hríðarbylur úti.Fyrir okkur að sleppa því að reykja í heilann dag er eins og fyrir ykkur að drekka engann vökva í heilann dag. Okkur líður virkilega illa við það.
Vissulega er þetta vandamál. Við viljum halda rétti okkar til að reykja og þið viljið halda rétti ykkar til að þurfa ekki að þola óbeinar reykingar. Því miður fara þessir hlutir ekki saman. Ég sætti mig fullkomlega við að reykja ekki þar sem ég má það ekki (Sem er orðið á flestum stöðum)en ætlast hinsvegar til þess að aðrir sætti sig við að ég reyki þar sem ég má það.

Mig langar að bæta því við sem ég hef nefnt oft áður að reykingaáróður í dag snýst ekki um að hjálpa fólki að hætta að reykja heldur um að rakka reykingafólk niður og hlæja að því hvað það er heimskt og asnalegt og sverta það á allan mögulegan hátt.
Mér finnst þetta ekki sanngjarnt, því hvort fólk reykir eða ekki er enginn mælikvarði á karakter.
Við reykingamenn höfum okkar réttindi líka og við sættum okkur ekki við að þau verði fótum troðin. Reykingamenn eru líka menn!
kv.