<B>OPIÐ BRÉF TIL LANDSVIRKJUNAR</B>


Athugasemdir við tillögu að matsáætlun Sultartangalínu 3 dags. 18. júlí 2001

Stjórn HH samtakanna (Samtök gegn háspennuloftlínum í Hvalfirði) hefur kynnt sér ofangreinda tillögu Landsvirkjunar og gerir eftirfarandi athugasemdir:
Tillagan virðist á margan hátt vera faglega uppsett og þar er getið allmargra atriða í umhverfislegu tilliti sem Landsvirkjun segist muni láta rannsaka og kanna. Einnig eru settir fram níu valkostir á loftlínum og tveir valkostir á jarðstrengslögnum í byggð í Hvalfjarðarstrandarhreppi.
Fram kemur að Landsvirkjun mun ekki gera upp á milli þessara kosta á þessu stigi og að aðalkostur verður lagður fram í matsskýrslu. Bent er á að hitt og þetta þurfi rannsaka og er vísað til ýmissa lagafyrirmæla þar að lútandi.
Við lestur tillögunnar virðist engu að síður augljóst að hverju Landsvirkjun stefnir, en það er að leggja loftlínu alla leið frá Sultartanga að Brennimel. Þetta kemur glögglega í ljós í kafla 1.3. TÍMAÁÆTLUN. Þar eru verkþættir sundurgreindir vegna lagningar loftlínu og tímasetning framkvæmda áætluð. Ekki er stafkrókur um hugsanlega tímasetningu framkvæmda vegna jarðstrengs.
Eindregin andstaða er við þessa hugmynd Landsvirkjunar frá heimamönnum, sveitarstjórn Hvalfjarðarstrandarhrepps og öllum öðrum sveitarstjórnum í sveitunum sunnan Skarðsheiðar, Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi sem er samstarfsvettvangur allra sveitarfélaga á Vesturlandi, fjölda umhverfissamtaka og stofnanna svo sem öllum málsaðilum er fullkunnugt um. Það er til lítils að láta fara fram alls konar rannsóknir og kannanir ef Landsvirkjun er ráðin í því að hafa niðurstöðurnar að engu. Hugur þarf að fylgja máli.
Í kafla 6.3.1. fyrstu málsgrein er talað um Sultartangalínu 3 eins og hún sé þegar risin: ,,Sjónræn áhrif Sultartangalínu 3 stafa fyrst og fremst af möstrum og leiðurum. Á miklum hluta leiðarinnar er línan við hliðina á Sultartangalínu 1, sem setur nú þegar svip á umhverfið.” (ltbr.undrt.). Málsgreininni lýkur síðan með þessari ótrúlegu setningu: ,,Þar er því ekki um mikla breytingu að ræða hvað varðar sjónræn áhrif og landslagsheildir.” Þetta er einkaskoðun Landsvirkjunar. Hér í sveit hafa menn aðra mælistiku á umhverfið. Skoðun Landsvirkjunar er í hróplegu ósamræmi við það sem fram kemur í kafla 2 og kafla 4.1.1. en þar er skýrt frá því að Sultartangalína 3 skuli víkja frá Sultartangalínu 1 á um 8 km kafla og að um 1,5 km verði á milli þeirra þar sem farið er yfir Hvítá. Þetta er gert ,,til þess að minnka líkur því að sú fyrrnefnda verði sýnileg frá Gullfossi.” Það er vel að Landsvirkjun vilji ekki skerða fegurð Gullfoss. Það sama á vitaskuld að gilda um Hvalfjörðinn.
Í kafla 4.8. er rætt um að Brennimelslína 1 setji frekari byggð í Hlíðarbæ ákveðnar skorður og er sannarlega hægt að taka undir það. En það er mikill misskilningur ef Landsvirkjun heldur að viðunandi lausn á því máli sé að krækja þeirri línu upp hlíðina fyrir ofan Ferstiklu til norðurs í átt að Sultartangalínu 3 samkvæmt kosti D1 og síðan meðfram henni að þeim stað sem báðar línurnar myndu mæta Brennimelslínu 1 aftur í Saurbæjarhlíðinni. Að bera svona hugmynd á borð fyrir íbúa Hvalfjarðarstrandarhrepps lýsir annað hvort algjöru virðingarleysi gagnvart þeim eða dómgreindarskorti nema hvorttveggja sé. Þar kemur auðvitað ekkert annað til greina en jarðstrengur, eða hreinlega fjarlægja þá línu í tengslum við títt nefnda ,,hringtengingu” Þjórsár-Tungnaársvæðisins og Suðvesturlands. Hugmynd þar að lútandi var kynnt í athugasemdum HH samtakanna til Landsvirkjunar dags. 20. júní sl. og Skipulagsstofnun fékk afrit af. Er hún ítrekuð hér með. Ennfremur hafa ábúendur Svarfhóls í Svínadal og Landvernd bent á þennan möguleika í athugasemdum sínum dags. 17. júní og 22. júní sl. Landsvirkjun virðist hinsvegar ekki sjá ástæðu til að láta kanna þessa athyglisverðu og framsýnu hugmynd, því miður. Samt segir í Umhverfisstefnu Landsvirkjunar sem var samþykkt af stjórn Landsvirkjunar 4. september 1997: ,,Afstaða fyrirtækisins í umhverfismálum skal vera málefnaleg, opinber og einkennast af heildarsýn” ~ ,,Við ætlum með glöggri yfirsýn, stöðugum umbótum og með því að setja mælanleg markmið að draga markvist úr röskun á náttúrunni af völdum starfsemi Landsvirkjunar” ~ ,,Við ætlum að sýna samstarfsvilja í verki gagnvart stjórnvöldum umhverfismála, hagsmunasamtökum og almenningi.” Er þá fátt eitt talið af fögrum fyrirheitum í því plaggi.
Áfram heldur Landsvirkjun í kafla 4.8. og segir að flutningur á Brennimelslínu 1 upp fyrir Hlíðarbæ geti verið ,,eins konar mótvægisaðgerð til að milda áhrif vegna Sultartangalínu 3.” Þetta er fádæma rökleysa. Hvernig í ósköpunum er hægt að halda því fram að eftir að búið er að leggja nýja risaloftlínu um ósnortið skóglendi, þá hafi það ,,mildandi áhrif” að leggja aðra loftlínu og ef til vill jafnstóra, við hliðina á henni? Svona röksemdir eru móðgun við almenna skynsemi.
Að lokum mótmæla HH samtökin því harðlega sem greint er frá í síðustu setningu 1. mgr. í kafla 4.8. : ,,Niðurstaða um hvort eða hvernig Brennimelslínu 1 yrði breytt er háð því hver niðurstaða verður um línustæði og línugerð Sultartangalínu 3.” Er Landsvirkjun að bjóða því vel upplýsta fólki sem byggir Hvalfjarðarstrandarhrepp einhverja skiptimynt í staðinn fyrir stórfelld umhverfisspjöll? Er ,,Umhverfisstefna Landsvirkjunar” marklaust hjal?

Virðingarfyllst,
f.h. HH samtakanna

Reynir Ásgeirsson, formaður
Vífill Búason, ritari
Þorvaldur Magnússon, meðstjórnandi