Aðför að Reykjavíkurflugvelli! Það er með ólíkindum hvað stjórnmálamenn og flestir þeir sem eru að berjast gegn flugvellinum vita lítið um raunverulegt notagildi hans.

Þeir iðulega byggja rök sýn á röngum forsendum, fara með rangt mál og hafa ekki hundsvit á flugrekstri og hafa greinilega ekkert fyrir því að afla sér upplýsinga frá þeim sem vita betur til að færa rök fyrir sínu máli.

Þetta er eldheitt deilumál og að hlusta á hámenntaða einstaklinga bera út áróður gegn flugvellinum byggðan á röngum fullyrðingum og hreinni fáfræði um flugrekstur er skelfilegt

Ég ætla að telja upp nokkur rök sem þessir aðilar hafa haldi á lofti sem ástæður þess að Reykjavíkurflugvöllur megi missa sín og koma með svör við þeim.

Reykjavíkurflugvöllur má fara:

Vegna þess að allt sjúkraflug er hvort eð er flogið með þyrlum:
Þetta er rangt. Það er langt frá því að allt sjúkraflug sé flogið með þyrlum. Þyrlur eru góðar í aðstæður sem flugvélar geta ekki komist í t.d fyrir skip á hafi úti, inná hálendið og á staði sem er ekki í nálægð við flugbrautir. Oft sækja þyrlur slasaða og fara með þá á næsta flugvöll þar sem að sjúkraflugvél flytur þá til Reykjavíkur. Það verða allir að gera sér grein fyrir því að þyrlur fljúga hægt og lágt miðað við flugvélar, og þær henta illa við ísingarskylirði sem flugvélar geta hinsvegar vel tekist á við. Dæmi: þyrla sækir slasaðan einstakling á Vopnafjörð í slæmu veðri, hún þarf að fljúga meðfram ströndinni á sínum litla hraða og svo aftur til baka sömu leið gera blindaðflug til Keflavíkur og svo annaðhvort að fljúga frá Keflavík sjónflug á ennþá minni hraða til Reykjavíkur eða lenda í Keflavík og keyra viðkomandi til Reykjavikur. Það er alveg augljóst að þetta mun taka langan tíma. Skrúfuþota staðsett á Akureyri með flugmenn á bakvakt allan sólarhringinn fer til Vopnafjarðar flytur viðkomandi til Reykjavíkur á marfalt skemmri tíma. Sjúkraflug eru almennt floginn með flugvélum þar sem það er fljótlegra, jafnvel þó að það væri þyrla til taks á Akureyri, Ísafirði, Egilstöðum og Vestmannaeyjum,

Millilandaflug notar Reykjavíkurflugvöll svo sjaldan sem varaflugvöll að hann má missa sín:
Þetta er rangt og enn eitt dæmið um að fólk kynni sér ekki hlutina vel. Þó að millilandaflug á leið til Keflavíkur lendi ekki oft á Reykjavíkurflugvelli þá er hann notaður daglega sem varaflugvöllur í flugáætlun. Flugvélar sem fljúga blindflug verða alltaf að gera grein fyrir varaflugvelli fyrir hvert flug og alltaf að hafa eldsneyti fyrir varaflugvöll um borð hvort sem þeir noti hann eða ekki. Dæmi: Flugvél frá London á leið til Keflavíkur, það er gott veður á suðvesturhorninu en slæmt fyrir norðan og austan þannig að það er ekki hægt að notast við Akureyri og Egilstaði sem varaflugvöll, það væri hinsvegar hægt að nota Reykjavík ef það væri ekki búið að byggja raðhúsahverfi þar. Hvað þá? Það þarf að notast við Glasgow sem varaflugvöll þannig að það þarf að taka mikið eldsneyti og til þess að það er hægt þá þarf að fórna frakt og hugsanlega farþegum sem þýðir að það kemur minni peningur í kassann fyrir flugið. Þar sem þetta dæmi gæti verið nokkuð sem kæmi oft uppá þarf að hækka fargjöld til að vega upp á móti kostnaði, ekki viljum við það.

Það er bara ein flugbraut á Akureyri af hverju getum við ekki bara haft eina flugbraut í Reykjavík? Það er alveg ótrúlegt að háttsettur borgarfulltrúi skuli hafa látið þetta út úrsér að óathuguðu máli. Þessu er hinsvegar auðsvarað. Akureyri er við fjörð, veðurfar skapast oft af landslagi og er því ráðandi vindátt á Akureyri inn eða út fjörðinn, en í Reykjavík höfum við ekki þetta landslag og þurfum því tvær brautir.

Það er svo margt annað sem ég get talið upp þar sem þeir sem berjast gegn flugvellinum fari með rangt mál, en greinin er orðin löng þannig að ég læt það bíða að sinni.