Enn á ný er ég í tilvistarkreppu, að þessu sinni vegna hugtakanna “ást” og “hamingja” og hvort að það megi setja eitthvað samasemmerki þar á milli. Ég er sumsé orðin hundleið á því að hlusta á ástfangið fólk tala um hvernig líf þeirra sé gjörbreytt, hvernig það sé loksins búið að finna sjálft sig og manneskju sem það er tilbúið í að eyða ævinni með, og að nú sé hamingjuleit þeirra á enda. Bara vegna þess að það fann ástina. Það hitti einhvern aðila, varð ástfangið og um leið ofboðslega hamingjusamt. Líf þessa fólks er yfirleitt ekkert nema eintómur dans á rósum, oft er það ekki viðræðuhæft heldur svífur um á bleiku skýi langt frá því sem ég kalla að vera “dán tú örþ…”. En svo kemur stóri skellurinn, sem verður til þess að bleika skýið brotlendir á jörðinni. Fólk hættir saman að einhverjum ástæðum og þá er eins og tilvera þess hrynji, við tekur ástarsorg, grátur og gnístran tanna og því finnst því ekki geta litið lífið réttum augum á ný. Bara vegna þess að ástin yfirgaf það.

Hvað verður nú um lífshamingjuna? Ástin er farin, brothætta fuglseggið sem ástinni er svo oft líkt við er mölbrotið og engin leið að púsla því saman aftur. Sjálfsálitið í rúst, maður kennir sjálfum sér um hvernig fór, grætur beiskum tárum og veltir sér upp úr því dag og nótt hvað fór úrskeiðis og af hverju. Maður gleymir því smám saman að maður er ennþá heilbrigður, á ennþá fjölskyldu og vini og hefur nóg í sig og á. En það er náttúrulega ekkert merkilegt. Stenst allavega ekki samanburð við hina “sönnu ást” sem maður taldi sig hafa fundið. En finnst ykkkur þetta ekki vitlaust viðhorf? Að maður skuli virkilega halda að maður finni hamingjuna með því að hitta einhvern aðila sem maður verður ástfanginn af? Að þá sé manni borgið? (Ekki reyna að neita þessu gott fólk, þetta er það sem reynslan sýnir okkur… :) )

Sannleikurinn er hins vegar sá að hamingjan kemur innan frá. Um leið og maður er sáttur við sjálfa/n sig, hefur fundið lífi sínu einhvern tilgang og er að gera eitthvað sem veitir manni ánægju verður maður hamingjusamasta manneskja í geimi. Ástin spillir náttúrulega ekki fyrir, en höfum í huga að það “að elska sjálfan sig er upphafið að ævilangri ástarsögu!!” (Oscar Wilde).