Hér að neðan er grein sem birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 28. nóvember.
Ég vil hvetja alla þá sem skoðun hafa á þessu málefni að rísa á afturlappirnar og sína samstöðu með fötluðum.



Er leti fötlun?


Það hefur legið þungt á mér undanfarnar vikur og mánuði hvað það samfélag sem við búum í er orðið ágjarnt á bílastæði þess minnihlutahóps sem oft virðist verða undir í umræðunni, eða fatlaðra. Ég, sem vinur líkamlega fatlaðrar stúlku, hef ósjaldan orðið vitni af því að fullfrískt fólk leggur í þessi vel merktu stæði eins og ekkert sé sjálfsagðara og lítur undrunaraugum á mig þegar ég geng að því og bendi kurteislega á að leti teljist ekki til fötlunar. En þegar ég hugsa nánar út í þetta virðist megin orsökin lyggja í framtaksleysi lögreglunnar án þess að ég sé að taka upp hanskann fyrir borgaranna leti. Ég efast til dæmis ekki um að ef hraðamælingar legðust af í einhvern tíma myndi umferðarhraði aukast upp úr öllu valdi. Á fyrstu mánuðum þessa árs var kynnt í Kastljósinu átak sem lögreglan hafði ráðist í en þar voru stóru orðin ekki spöruð. Tekið fram að hver sá sem tæki upp á því að leggja í stæði fatlaðra ætti á hættu að vera sektaður og að bifreið hans yrði jafnvel fjarlægð.
Þann 5. september áttum við vinkona mín erindi í listasafn Reykjavíkur, en fyrir utan bygginguna eru tvö stæði fyrir fatlaða og næstu stæði merkt fötluðum að finna hjá Ingólfstorgi. Í báðum voru þessum stæði voru bílar ófatlaðra.
Ég tók mig til og hringdi í lögregluna og kynnti þeim stöðu mála og var mér tilkynnt að þeir myndu skoða málið. Tveim tímum síðar þegar okkar erindi var lokið sá ég að þessir bílar stóðu enn óhreyfðir og var á þeim engan sektarmiða að finna svo að ég hringdi aftur, og spurði þá hvað orðið hefði um það átak sem þeir lofuðu í Kastljósi Ríkissjónvarpsins nokkrum mánuðum áður. Þá var mér sagt af vaktstjóra að það væri ekki rétt með farið hjá mér að bílar væru dregnir í burtu ef þeir legðu í stæði fatlaðra. Vísaði ég þá í umrætt viðtal í þætti Kastljóssins máli mínu til stuðnings.
Tilvikið sem nefnt er hér að ofan er ekki einsdæmi og eru árangurslaus símtöl mín á annan tuginn. Ég vil því leggja til að ég og lögreglustjórinn í Reykjavík höfum upp á þessum þætti, setjumst niður, horfum á hann saman og ræðum aðgerðir embættisins til að fylgja eftir þeim loforðum sem gefin voru út í þættinum.
Guðgeir Sturluson
8675711
kveðja, Guðgeir.