Mikið hefur verið skrifað um Árna Johnsen undanfarna daga og spillingarmál honum samfara. Nokkuð virðist það á reiki hvað menn almennt telja spillingu og hvað ekki. Menn virðast tilbúnir að horfa framhjá smáhnuppli af hinu opinbera. Ráðherra notar t.d. ráðherrabílinn til að fara í kvöldheimsókn til ömmu sinnar, okkur finnst það í lagi og ekki skipta máli, ekki satt? Hefði það verið í lagi hefði Árni bara tekið einn stein? En ef ráðherran heimsækir ömmu sína á hverjum degi þá verða það 365 ferðir á ári. Þarf ráðherran að fara allar ferðirnar á sama deginum til að það teljist spilling?
Ef Árni hefði tekið einn stein á dag hefði hann verið fljótur að fá í garðinn án þess að fá á sig spillingar og þjófnaðarstimpil. Í hve stórum einingum þarf að stela til að það telji? Var Davíð kanski að kasta steinum úr glerhúsi þegar hann hjó Árna? Ætli hann og aðrir ráðherrar hafi ekki notað bíla og annað sem ríkið skaffar EMBÆTTINU til eigin þarfa, en kanski bara lítið í einu ? Ég er ekki að verja Árna nema síður sé, aðeins að benda á að nú þegar hans snerting við kerfið verður rannsökuð þá er einnig full ástæða til að kanna hvernig ráðherrar, nefndarformenn og aðrir þeir sem fara með vald og fjármuni fyrir ríkið fara höndum um það vald sem þeim hefur verið falið. Getur það verið að það sé ekki sama hver á í hlut þegar spillingin er annarsvegar? Eru menn búnir að gleyma því þegar Matthías Bjarnason notaði bjölluna hans Árna okkar Johnsen í þinginu til að greiða atkvæði tvisvar, þegar Árni var fjarverandi einhverja atkvæðagreiðsluna. Þetta var látið átölulítið en var þetta ekki spilling af verstu gerð? Ekki þurfti Matti að taka pokann sinn svo mikið er víst, en hann var kanski í náðinni hjá forustu Sjálfstæðisflokksins. Almannarómur segir að Davíð hafi lengi haft horn í síðu Árna og því hafi veri höggvið nú.