Hjá Skipulagsstjóra liggur núna skýrsla um mat á umhverfisáhrifum vegna Villinganesvirkjunar í Skagafirði og er frestur til 8. ágúst að gera athugasemdir við matsskýrsluna. Í matsskýrslunni sem hægt er að skoða í heild sinni hér http://www.rarik.is/heradsvotn/matsaetlun.htm er mikilvægi ferðþjónustunnar gerð lítil skil og einungis sagt stuttlega frá því að fljótasiglingar munu að vísu leggjast af á þeim svæðum sem þær eru stundaðar í dag, en í staðin mætti bjóða upp á bátsferðir á lóninu. Virkjun þessi byggir á áætlunum frá 1977 og hefur þegar verið samþykkt á Alþingi. Hún er einungis um 30 MW að stærð og er ekki hugsuð til neinnar sérstakrar orkuöflunar, heldur er einungis verið að framleiða til almennrar notkunnar. Það er fyrirtæki sem er að hluta til í eigu heimamanna sem stendur fyrir virkjunaráformunum ásamt Rafmagnsveitum Ríkisins og ætla þeir
að fara í samkeppi við Landsvirkjun. Hér er á ferðinni hugmyndir einstakra heimamanna um að fara í að virkja, að því er virðist bara til að sýna fram á að þeir geti það. Störf við virkjunina verða einungis eitt að aflokinni byggingu, en verði hún að veruleika mun sú uppbygging sem unnin hefur verið í sambandi við fljótasiglingar verða að engu og þau 5-10 störf sem eru þar
leggjast af auk þess sem almennt mun ferðaþjónusta í Skagafirði líða fyrir þessa framkvæmd. Þar sem þessi virkjun stendur utan við þá vinnu sem verið er að vinna í Rammaáætluninni um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur ferðaþjónustan ekki haft neitt tækifæri fyrr en nú að koma á framafæri athugasemdum og að mínu
mati er full ástæða til þess að þær athugasemdir komi frá sem flestum. Á ég þar við frá SAF, Ferðamálaráði og Ferðamálasamtökum Íslands og hverjum öðrum sem hægt er að virkja, t.d fyrirtækin sem eiga hagsmuni að áframhaldandi uppbyggingu fljótasiglinga.
Vilji menn endilega virkja á þessu svæði er annar kostur fyrir hendi sem felst í Skatastaðavirkjun sem liggur talsvert ofar í Jökulsá eystri og hefur miklu minni áhrif á fljótasiglingarnar. Hún er einnig umtalsvert stærri eða um 156 MW.