Ég hef lengi velt vöngum yfir okkar “einstaka” réttarkerfi og þeim fáránlegu dómum sem eru upp kveðnir hér, á okkar annars ágæta Fróni.

Ég býst við því að margir séu orðnir þreyttir á því að lesa um vægast sagt ósanngjarna dóma í blöðum landsins.
Ég er ekki þreytt lengur. Nei, ég er sko orðin alveg sjóðandi vitlaus yfir þessum tvískinnungi sem virðist vera allsráðandi hér heima við.

Við agnúumst út í þjóðfélög annarra landa fyrir spillingu, ólögmætan hernað, pyntingar og guð má vita hvað en sjáum svo ekki bjálkann í augum okkar sjálfra.

Stjórnvöld ættu að líta sér nær og breyta því sem breyta þarf í eitt skipti fyrir öll.
Hversu erfitt skyldi það nú vera fyrir þessa blessuðu þingmenn, með sína milljón á mánuði, að setja bara eitt stykki lög um lágmarksrefsingu kynferðisafbrota.
Og ekki væri nú verra ef hún væri svona fjögur eða fimm ár.
Er það ekki annars lágmark?

Í staðinn eru þeir að berjast fyrir reykingabanni á veitingahúsum og ýmsu öðru sem vel mætti sitja á hakanum.

Ég fór inn á síðu Alþingis og skoðaði aðeins hvað er á dagskrá hjá þinginu þann 3.nóvember 2005.
Svona var dagskráin :

14. þingfundur 03.11.2005 kl. 10:30

1. Upplýsingaréttur um umhverfismál (EES-reglur) 221. mál, lagafrumvarp umhvrh. 1. umræða.

2. Aðbúnaður hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum 236. mál, lagafrumvarp félmrh. 1. umræða.

3. Virðisaukaskattur (samgöngumannvirki, blöð og tímarit) 12. mál, lagafrumvarp MÞH. 1. umræða.

4. Rannsókn á þróun valds og lýðræðis 20. mál, þingsályktunartillaga JóhS. Fyrri umræða.

5.
Ferðasjóður íþróttafélaga 24. mál, þingsályktunartillaga HjÁ. Fyrri umræða.

6. Fullorðinsfræðsla 25. mál, þingsályktunartillaga EMS. Fyrri umræða.

7. Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins 27. mál, þingsályktunartillaga MÞH. Fyrri umræða.

8. Bensíngjald og olíugjald (tímabundin lækkun gjalds) 30. mál, lagafrumvarp JóhS. 1. umræða.

9. Stéttarfélög og vinnudeilur (lausir kjarasamningar) 32. mál, lagafrumvarp GAK. 1. umræða.

10. Lífeyrisréttindi hjóna 33. mál, þingsályktunartillaga GHall. Fyrri umræða.

11. Skil á fjármagnstekjuskatti 36. mál, þingsályktunartillaga ÖJ. Fyrri umræða.

12. Tekjuskattur og eignarskattur (ferðakostnaður) 37. mál, lagafrumvarp GAK. 1. umræða.

13. Göngubrú yfir Ölfusá 38. mál, þingsályktunartillaga KÓ. Fyrri umræða.

14.
Skilgreining á háskólastigi 39. mál, þingsályktunartillaga HjÁ. Fyrri umræða.

15. Öryggi og varnir Íslands 40. mál, þingsályktunartillaga ISG. Fyrri umræða.

16. Mat á fasteignum og álagningarstofn fasteignaskatts 41. mál, þingsályktunartillaga KolH. Fyrri umræða.

17. Textun (sjónvarp, kvikmyndir o.fl.) 42. mál, lagafrumvarp GAK. 1. umræða.


Ég er nú tiltölulega ánægð með þessa dagskrá, en get ekki hjá því komist að efast aðeins um mikilvægi 7. og 13. dagskrárliðs.
Kemur það okkur við hvernig færeyska fiskveiðistjórnunarkerfið er? Það finnst mér nú ekki. Þarna mætti til að mynda búa til pláss fyrir alvarlega umræðu um dómskerfið.

Ég hélt að það væri brú yfir Ölfusá? Við þurfum ekki tvær, allavega ekki í bili. Get ekki séð að það sé mikilvægara að smíða eina brú, þegar vandi okkar á sviði réttinda er jafn mikill og raun ber vitni.

Ég kíkti svo, fyrir forvitnis sakir, inn á vef hæstaréttar og skoðaði nokkur mál, af alls ólíkum toga.
Tvö fjársvikamál, eitt fíkniefnamál og þrjú kynferðisafbrotamál.
Hér koma málin.

1 Fjársvikamál.

Brot ákærða eru stórfelld, og sannað er, að hann hefur á skipulegan hátt náð umtalsverðum fjármunum úr ríkissjóði með svikum. Refsiákvörðun héraðsdóms er því staðfest að öðru leyti en því, að rétt er talið, þegar litið er til annarra dóma á svipuðu sviði, að fangelsisrefsing hans verði tvö ár og sex mánuðir.

(http://www.tax.is/news.asp)

2.Fjársvikamál.

R var ákærður fyrir skjalafals, fjársvik, fjárdrátt, brot á lögum um sölu notaðra ökutækja og brot á tékkalögum í tengslum við rekstur bílasölu sinnar. Var R sakfelldur fyrir skjalafals, fjársvik, brot á tékkalögum og fjárdrátt, en sýknaður af fjársvikum í þremur ákæruliðum og broti gegn lögum um sölu notaðra ökutækja. Var R dæmdur til fangelsisrefsingar og greiðslu skaðabóta.
Ákærði sæti fangelsi í 3 ár.


Þær skaðabætur sem hann þurfti að borga hinum ýmsu einstaklingum voru samanlagt 18.402.913.

(http://www.haestirettur.is/domar?nr=299&leit=t)

Kynferðismál 1.

G var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum. Tekið var fram að héraðsdómur hefði metið framburð G ótrúverðugan en framburð stúlknanna og vinkvenna þeirra trúverðugan, og væru ekki efni til að vefengja það mat. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu G og heimfærslu brota hans til 1. málsl. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940 staðfest. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að G, sem var 28 ára gamall, fékk fjórar 12-14 ára telpur til að koma með sér í íbúð, sem hann hafði tekið á leigu í fáa daga, undir því yfirskini, að hann ætlaði að taka af þeim kvikmynd, og myndu þær fá greitt fyrir. Þegar í íbúðina var komið lét hann X hafa við sig munnmök og hafði samfarir við Y, en báðar voru þær 13 ára. Það væri ljóst að telpurnar vissu að ákærði hafði eitthvað kynferðislegt í huga þegar þær fóru með honum inn í herbergið en ekki færi á milli mála að hann notfærði sér þroskaleysi þeirra sem höfðu komið sér í aðstæður sem þær réðu svo ekki við. Virt var G til þyngingar að hann var að afplána dóm fyrir kynferðisbrot, sem hann hlaut í maí 2001, er hann framdi þessi brot. Var G því gert að sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Engin sérfræðigögn voru lögð fram um líðan telpnanna nú og um hugsanleg varanleg áhrif verknaðarins á þær. Þó væri ljóst að slíkur verknaður og hér um ræddi væri til þess fallinn að valda þeim, sem fyrir yrðu, sálrænum erfiðleikum og væri því rétt að dæma telpunum nokkrar bætur.
Ákærði dæmdist til að greiða hvorri stúlkunni 300.000kr í skaðabætur.

(http://www.haestirettur.is/domar?nr=1242&leit=t)

Þessi klikkhaus fékk sem sagt tvö og hálft ár, þó að hann væri áður búinn að fremja líkt brot!

Og ég varð líka alveg steinhissa þegar ég sá hvenær lögin sem hann hafði brotið voru samþykkt, fyrir 65 árum síðan!

Og þá þarf ekkert að fara að endurskoða þetta? Ætti ekki að vera einhver gildistími á lögum? Best fyrir 1.1.90!
Það væri nú nærri lagi!

Kynferðismál 2.

X var ákærður fyrir nauðgun, frelsissviptingu, eignaspjöll og þjófnað, með því að hafa haldið fyrrverandi sambýliskonu sinni nauðugri í íbúð hennar, þröngvað henni til holdlegs samræðis, valdið ýmsum skemmdum á eignum hennar og stolið svonefndu „heimabíói“ úr íbúð hennar. X átti langan sakarferil að baki og höfðu eldri auðgunarbrot ítrekunaráhrif á þjófnaðarbrot hans. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Hafði X ítrekað beitt konuna ofbeldi og hafði hún gengist undir sálfræðimeðferð vegna þessa. Var staðfest ákvörðun héraðsdóms um bætur að fjárhæð 1.380.000 krónur henni til handa.

(http://www.haestirettur.is/domar?nr=2981&leit=t)

Þessi kauði framdi margvísleg hrottafengin brot gegn sambýliskonu sinni, og í úrskurðinum er einnig tekið fram að dómurinn hafi verið þyngdur vegna ítrekaðra brota.

Heyrðu heyrðu. Þetta er nú ekkert rosalega hár dómur…

Gleymdist ekki alveg örugglega að þyngja hann?

Kynferðismál 3.

S var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við X á meðan hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Tekið var fram að skilja yrði niðurstöðu héraðsdóms svo að framburður stúlkunnar væri trúverðugur og framburður S ótrúverðugur. Væri því fram komin nægileg sönnun sem ekki yrði vefengd með skynsamlegum rökum, um að S hefði haft samræði við stúlkuna er ástand hennar var með þeim hætti að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga, sbr. 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940. Var refsing S ákveðin fangelsi í 12 mánuði en 9 mánuðir af refsingunni voru skilorðsbundnir.

Þessir dómar eru hreint og beint sláandi.
Er ekki verið að gefa óbeint í skyn að peningar séu mikilvægari en manneskjan?

Hversu mikla sálræna erfiðleika ætli maðurinn í fyrra fjársvikamálinu hafi nú valdið ríkinu? Líklegast þykir mér að þeir hafi grenjað úr sér augun.

Þarna fór bensinn minn, andsk…

Og svo ekki sé nú talað um seinna fjársvikamálið.
Þvílíka upphæð hef ég aldrei á ævi minni séð. Þessi upphæð skiptist svo á milli sex einstaklinga, sem líklegast hafa unað vel við sitt hlutskipti og valhoppað glottandi út úr réttarsalnum.

Fórnarlamb nauðgunar og hverskyns misnotkunar getur ekki glaðst og valhoppað út úr réttarsalnum, sama hversu háar skaðabæturnar eru.

Fíkniefnamál 1.

T var ákærður fyrir innflutning á 16.376 töflum og um 59 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA, rúmlega 200 g af kókaíni og rúmlega 8 kg af hassi. T játaði að hafa tekið við fíkniefnunum í Amsterdam og sent þau með pósti til Íslands en búið hafði verið um efnin í hátölurum og bassaboxi. T bar hins vegar að hann hafi talið að 12 kg af hassi hefðu verið í sendingunni en ekki önnur efni. Krafðist T ómerkingar málsins þar sem tvö vitni hefðu ekki komið að nýju fyrir dóm við síðari aðalmeðferð málsins í héraði og hið þriðja hafi þá neitað að tjá sig, en héraðsdómari hafði vikið sæti að lokinni aðalmeðferð og annar héraðsdómari tekið við málinu. Þá hafi borið að kveðja til meðdómendur í samræmi við 5. gr. laga um meðferð opinberra mála. Var ekki talið að efni væru til að ómerkja héraðsdóm af þessum ástæðum eða öðrum. Sannað var að T hafði átt frumkvæði að innflutningnum í hátalaraboxum og að hann hafði haft góða aðstöðu til að kanna hvers kyns efnin voru áður en hann flutti þau til landsins. Var því ekki fallist á þá fullyrðingu T, að til hafi staðið að flytja inn annað og vægara fíkniefni en flutt var inn í raun. Fallist var á forsendur refsiákvörðunar héraðsdóms að öðru leyti en því, að ekki þótti ástæða til þess að beita 2. málslið 2. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga í því skyni að fara út fyrir þann 10 ára refsiramma, sem við var að miða er T framdi brot sitt. Með hliðsjón af skilorðsrofi T, dómaframkvæmd og hinu mikla magni hættulegra fíkniefna, sem T flutti inn í ágóðaskyni, þótti refsing hans hæfilega ákveðin 10 ára fangelsi.

Jamm og já. Svona finnst mér að dómar í kynferðisafbrotum eigi að vera.

Hér er ákærði að eyðileggja líf, en þó er munur á kynferðisafbrotum og fíkniefnabrotum.

Fíkillinn hefur alltaf, á einhverjum tímapunkti, eitthvert val.

Það hefur fórnarlamb nauðgunar ekki.

Ég ætla að segja þetta gott í bili, ég vil afsaka hversu löng greinin er, og einnig tek ég fulla ábyrgð á því sem ég hef ritað hér að ofan. Það má vera að ég sé harðorð og kannski full höst á köflum, en mér er sama.

Ég hef fengið nóg!!