Reynslusaga byggð á sannsögulegum atburðum.

Ég var á djamminu um daginn og hitti þar fyrir ungan pilt, varla eldri en 23 ára. Upphófust miklar samræður okkar á milli um daginn og veginn og er leið á samtalið komst ég að því að þessi strákur var hin mesta karlremba. (Eins og kannski allir karlmenn, ég veit það ekki…).

Honum fannst hlutverk konunnar vera það að hún átti að elda ofan í hann, strauja af honum skyrturnar, þvo af honum bremsufarsnærbuxurnar, nudda hann og ala upp börnin. Helst átti konan líka að vera með ól svo hann gæti haft hana í bandi og teymt hana um allt því eins og hann tók sjálfur til orða, “konan var jú fyrsta húsdýr mannsins, ekki satt…”.

Ég er nú ekki viðkvæm fyrir svona svo ég ákvað bara að leika með. Ég sagðist vera hjartanlega sammála honum og að ég væri ósátt við það að konan skyldi allt í einu vera farin að vinna úti og að heimavinnandi húsmæður fyrirfyndust varla lengur, og að ég myndi fullkomlega sætta mig við að vera kúguð af karlmönnum því að þeir væru jú æðri verur heldur en við konurnar. Strákurinn varð ofsaglaður og stakk upp á því við mig að við myndum skipuleggja saman útihátíð undir yfirskriftinni “Konuna aftur í eldhúsið”. Útihátíðin var að sjálfsögðu bara fyrir karlmenn og átti ég aðeins að vera til sýnis í tjaldi, bundin við tjaldsúluna, svona táknrænt til að sýna undirgefni konunnar við karlmanninn. Svo skyldi verða háð keppni í að skjóta rjúpur, drekka brennivín og éta kæstan hákarl, Elvis-karókí-keppni og síðast en ekki síst viðrekstrarkeppni sem hann sagði að alla karlmenn dreymdi um að taka þátt í. “Ert’ ekki til í þetta bebe,” sagði hann. Ég fékk náttla hláturskast en þá brást hann hinn versti við og sagði til að afsaka sig að hann hefði bara verið að djóka í mér.

Ok, en öllu gríni fylgir einhver alvara. Ég er svona að pæla, er þetta það sem karlmenn vilja innst inni? Að konan sé bara í eldhúsinu og að hlutverk hennar sé að þjóna þeim?? Ég veit að flestir karlar SÆTTA sig við breytingarnar og nú hjálpast fólk að við að elda matinn og vaska upp og svoleiðis því það ríkir orðið svo mikið jafnrétti í þjóðfélaginu að það kæmist enginn heilvita karlmaður upp með svona stæla. VILJA KARLMENN Í RAUN OG VERU “LÍTIÐ TALANDI HÚSDÝR” OG SERVICE ALLAN SÓLARHRINGINN???