Merkilegt hvað fólk hefur mikið við þetta ráðstöfun að athuga. Ég hef skoðað í hvað þessir peningar, 66,7 milljarðar, fara í, og get ekki sagt neitt annað en að þetta sé allt hið besta mál.


HÁTÆKNISJÚKRAHÚS

Flestir hafa gagnrýnt þetta “hátæknisjúkrahús”, að það skuli vera eytt peningum í það á meðan ekki er hægt að reka núverandi heilbrigðiskerfi á viðunandi hátt. Svo eru sumir sem vilja bara dæla þessu Símagulli beint inn í reksturinn á heilbrigðiskerfinu….ég spyr nú bara, er ekki í lagi með það fólk?
Tja, það sem ég vil segja við þetta fólk er að hætta þessu rugli. Ísland býr við eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi.

Svo er eitt, þegar búið er að sameina öll þessi sjúkrahús sem eru á víð og dreif um höfuðborgarsvæðið undir eitt þak, þá myndast gríðarlegt hagræði. Það mætti bera þetta saman við að reka amerískan 3lítra bíl frá 1970 á móti að reka 1,6lítra japanska toyotu 2005 árgerð. Það sjá allir að það er gríðarlegur aukakostnaður sem felst í því að reka gamlan og úr sér genginn bíl.

Hátæknisjúkrahús er einmitt það sem það er, hagræði. Það verður hægt að hafa færra fólk í vinnu, á hærri launum, og sinna fleiri sjúklingum, sem kemur til góða fyrir alla. Rekstrarkostnaður heilbrigðiskerfisins mun minnka, og hægt verður að nota þá peninga sem verða umfram í að styrkja aðrar stoðir heilbrigðiskerfisins.


VEGAFRAMKVÆMDIR

Ég hef reyndar ekki skoðað mikið nauðsyn þessara vegaframkvæmda, en ég efast ekki um að einhverjar af þeim eru nauðsynlegar. Þó hefði ég viljað sjá einhverjum af þessum peningum eytt í að tvöfalda, og gjörbylta, veginum milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það verður án efa eitt brýnasta verkefni í vegamálum á næstu árum.

Hvað Sundabraut varðar, þá hef ég ekkert álit á henni þar sem ég keyri aldrei um á þessum hluta höfuðborgarsvæðisins.



SKULDIR

Mér líst frábærlega á það að klára að borga allar erlendar skuldir íslenska ríkisins. Ekki margar þjóðir sem geta stært sig af því að skulda engum. Reyndar mættu íslendingar almennt taka sig á og borga sínar eigin skuldir (aðrar en ríkisins), sem eru út úr kortinu.



LOK DAVÍÐS

Nokkuð gott hjá kallinum, taka við búi í kreppu, og skila því skuldlausu. Nú ríkir gríðarleg hagsæld á íslandi, og Ísland er í öðru sæti yfir lönd í heiminum þar sem lífsgæði eru mest.