Nú kemur það sannarlega í ljós hve mikil óþol ungir sjálfstæðismenn hafa gegn RÚV. Einstrengingsháttur þeirra og árátta í að halda höfðinu hátt í skýjunum með endalausu blaðri um að einkavæða hitt og einkavæða þetta er orðin leiðinleg. Það virðist vera mottó SUSara þessa dagana að annaðhvort kyrkja útvarp og sjónvarp allra landsmanna til ólífis eða henda því í krumlur einkavæðingarplebba sem vilja svo sem fyrst taka allt út sem ekki selur, því gróðinn börn mín góð er málið ekki satt?
Táknmálsfréttir, náttúrulífsþættir, bein útsending frá unglingamóti í frjálsum, allt þetta er ekki beint söluvænt er það? Gæti verið að svona sjálfsögð þjónusta við alla, jafnt borgarbúa sem sveitamenn, ríka sem gamla, íþróttanörda sem og vísindanörda sé eitthvað sem nýjir eigendur RÚV sæu ekki aurana í og tækju burt, settu kannski Bandarískan sitcom þátt í staðinn því hlátur selur.
Ég nefni gott dæmi um skert þjónustustig. Í fyrra kvörtuðu íbúar lítilla sveitarfélaga og bæja um vöntun á adsl sambandi fyrir daufum eyrum stjórnenda símans. Að leggja slíkt til afskekktra staða var ekki talið gróðavænlegt og því yrði slíkt ekki gert. Síminn sem var eitt sinn þjónustufyrirtæki fyrir alla landsmenn byrjaði að velja úr þá sem vert var að þjónusta. Á endanum tóku þeir reyndar sönsum en ekki fyrr en þjóðfélagið hreinlega rassskellti þá.

Örugglega er hægt að láta klausur um þjónustustig og fræðsluskyldu fylgja með sölu á RÚV ef og þegar þar að kemur en hve lengi endist slíkt? Hve langur tími mun líða þar til nýjir eigendur smeygja inn smá breytingum (og stærri) í krafti betri gróða og hagræðingar?
Eitt enn stakk í augu í þessari ályktun, hætta með Rás 2? hvað á maður þá að hlusta á? FM957, KISS FM, XFM eða aðrar einhæfar topp20 stöðvar!? Rás 2 er fjölbreytt útvarpstöð sem næst amk til mun fleiri staða en allar hinar plús fyrrnefnd fjölbreytni sem er meiri en á öllum hinum stöðvunum til saman.

-glúbbi
—–