Þann 19 júlí s.l. voru tveir ungir menn hengdir í Íran. Annar var 18 ára en hinn 17. Glæpur þeirra var sá að vera hommar - eða reyndar að stunda “hommaskap”.

Hvar á að byrja? T.d. á því að þeir hafa verið í varðhaldi í 14 mánuði þannig að þeir voru enn yngri þegar þeir frömdu “glæpinn”.

Eða að þeir voru pískaðir ítrekað í þessa 14 mánuði.

Eða á ég að hneykslast á því að menn eru HENGDIR fyrir að hommast? Jafnvel ekki örgustu biblíublásarar telja það sitt hlutverk að drepa homma. Þeir telja að Guð himslef sjái seinna meir um að refsa þeim.

Eða benda á að aftökuaðferðin er sú að henda um háls þeirra frekar þunnt nælonreipi og draga þá upp í gálga þannig að þeir kafna á 10-20 mínútum. Sparkandi, mígandi og skítandi. Þetta fyrir framan almenning sem hefur ekkert betra að gera en horfa á þetta sér til gamans. Ætli menn leggji undir hver drepist fyrst?

Nú er ég ekki hommi og ætti að vera nokkuð óhætt að skreppa til Irans. Hef jafnvel búið í strangtrúuðu arabaríki. Ég er umburðarlyndur bæði á kynhneigð og trú manna og vill með þessum skrifum ekki segja neitt slæmt um Islamstrú. En hverskonar fólk er það sem getur tekið jafn göfugt rit og flest trúarrit eru í raun (og já - ég hef lesið bæði Biblíuna og Koraninn) og afmyndað í slíkan hrylling?

Frá því að fréttir bárust um þessa aftöku hafa Iranir svarað gagnrýni á þann veg að strákarnir hafi nauðgað 13 ára dreng. Málið er að það má fá staðfest með einfaldri Google leit að ekkert er fjallað um það í dómsskjölum, og ásakanir um þessa nauðgun birtust eftir að Vesturlönd fóru að fjalla um aftökuna.

Og jafnvel þótt svo hafi verið… Ef 15 og 16 ára strákar hefðu nauðgað 13 ára strák. Er ekki frekar hart að hengja þá. Kannski Íslendigurinn í Texas sem situr í stofufangelsi sé bara heppinn.

Verst er að ég hef ekki minnstu hugmynd um hvernig maður getur mótmælt þessu eða látið óánægju sína í ljós. Og þessi þjóð stefnir að því að smíða kjarnorkuvopn!


P.s. afsakið hugsanlegar villur. Púkalaus.