Ég heila ykkur og kem með nokkrar vangaveltur varðandi hið nýja leiðakerfi Strætó bs.

Áhugavert var að fylgjast með einu af mörgum borgarstjóraefnum Sjálfstæðisflokksins í Kastljósi gærkvöldsins. Þar var mættur Gísli Marteinn Baldursson til að ræða nýtt leiðakerfi Strætó bs og var hann í byrjun gagnrýninn mjög á kerfið. Það væri í raun verra en gamla kerfið og þjónustan hefði í heild sinni versnað. Ekki gat þó Gísli beinlínis nefnt nein dæmi önnur en þau að hann hefði ekki getað tekið strætó beint úr Vesturbænum upp í Efstaleiti til að mæta í Kastljósið en svo hefði hann nú heyrt margt í mörgum, sérstaklega gömlu fólki og börnum, sem hann heldur að séu aðalviðskiptavinir Strætó. Eins og aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sagðist hann nota strætisvagna mikið. Líklega ferðast þeir þá jafnan margir saman undir huliðshjálmi úr Harry Potter því að almennir strætisvagnafarþegar verða lítið varir við fyrirmennin.

Til svara var forstjóri Strætó, Ásgeir Eiríksson. Hann benti meðal annars á að kerfið væri ætlað öllum almenningi enda væru gamalt fólk og börn aðeins lítið hlutfall viðskiptavina Strætó. Ennfremur að þótt þjónusta kynni að hafa versnað þar sem hún var áður best hefði þjónustan í heild batnað, meðalgöngulengdir hefðu ekki lengst og tíðni ferða á álagstímum hefði aukist.

Þetta er rétt hjá Ásgeiri eins og þeir vita sem þegar hafa gefið sér tíma til að prófa nýja leiðakerfið — ólíkt hinu ágæta borgarstjórnarefni Sjálfstæðisflokksins. Enda var hann fljótur að skipta um línu þegar þessi svör lágu fyrir og fór að gagnrýna þá stefnu að hið nýja kerfi væri ætlað öllum almenningi. Almenningur í Reykjavík væri þegar „búinn að velja einkabílinn“ (eins og það heitir á Vef-Þjóðviljanum, málgagni Gísla og félaga) og því ætti fremur að eyða meiri fjármunum í fleiri mislæg gatnamót en almenningssamgöngur sem samkvæmt Gísla eiga að vera fyrir börn og gamalmenni sem „eiga ekki kost á“ einkabíl (eða þarfasta þjóninum, eins og bílar eru kallaðir á málgagninu).

Þegar stjórnendur þáttarins spurðu nokkuð forviða hvort þetta stangaðist ekki á við öll hagkvæmnis- og umhverfissjónarmið stóð ekki á svörum hjá borgarstjóraefninu. Það á ekki að „þröngva“ almenningssamgöngum upp á fólk og því ekki að hanna slíkt kerfi fyrir almenning. Með sömu rökum mætti raunar segja að með hönnun vega sé verið að þröngva fólki til ferðalaga. Að umhverfissjónarmið skipti engu máli hlýtur ekki síður að vekja athygli þar sem borgarstjórnarefnið situr í umhverfisráði Reykjavíkurborgar. Og hingað til hafa Sjálfstæðismenn þóst vera umhverfissinnaðir, enda margt umhverfissinnað fólk í kjósendahópi flokksins. Því hlýtur að hafa brugðið í gær.

Í þessu virðast hugsjónir nýrra forystumanna Sjálfstæðisflokksins hafa komið upp á yfirborðið, hreinar og ómengaðar. Gagnrýni þeirra á nýja strætókerfið snýst ekkert um gæði þess. Þeim er greinilega alveg sama um umhverfissjónarmið og vilja greinilega að almenningssamgöngur verði hliðarverkefni í samfélaginu, einungis handa börnum og gamalmennum — enda hafa þeir aldrei neitt jákvætt að segja um strætisvagnakerfið, hvorki fyrir né eftir breytingar. Að efla þjónustu heitir á máli þeirra að „þröngva“ henni upp á fólk. Það er gott að þetta liggur ljóst fyrir og þessu geta Reykvíkingar munað eftir fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar þegar sjálfstæðismenn munu rembast við að láta eins og þeir séu bestu vinir umhverfisins.

Ég kveð í bili.
Evklíð.