Þessi grein var á vísi.is í dag.

Hér fyrir neðan er Kristján Ragnarsson að tala um það að sjómenn græða á falli krónunar. Hann byggir það á því að við fáum fleiri krónur fyrir fiskinn. Þvílíkt og annað eins bull. Þær krónur sem við fáum núna fyrir það sem við seljum til útlanda eru minna virði, þannig að hvernig geta sjómenn verið að græða á þessu. Þetta er eins og einhver gefi mér snúð og ég sker hann upp í 4 hluta, þá á ég allt í einu 4 snúða og verð mikklu saddari.

Er þetta ekki rétt athugað hjá mér. Ég er nú enginn hagfræðingur, en svona lít ég allavega á málið.

——————————————————————-
Útvegurinn og sjómenn græða á falli krónunnar
,,Afurðirnar eru seldar á hærra verði og heildaráhrifin eru jákvæð vegna gengisbreytinga, en við erum ekki ánægðir ef þetta gengur lengra því þá fer þetta að hafa áhrif á stöðugleika og kjarasamninga,“ sagði Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ. Hann var spurður um áhrif gengisbreytinga fyrir sjávarútveginn.

,,Útgerð og fiskvinnsla hagnast. Það er engin stétt á landinu sem hagnast á þessu einsog sjómenn. Gengið hefur það mikil áhrif á söluverðið, fiskverðssamninga og það hefur strax áhrif á fiskverð á mörkuðum. Kostnaðurinn leggst ekki af sama þunga á þá og okkur. Olía hækkar, lánin hækka og veiðarfæri hækka,” sagði Kristján Ragnarsson.

Gengistap hefur verið mikið í umræðunni, og sér í lagi hjá útgerðinni. ,,Þetta er gert samkvæmt alþjóðareikningsskilavenjum. Hækkanir lána eru færðar á rekstrarreikninga á árinu sem gengið fellur, en til lengri tíma litið eru áhrifin af þeim gengisbreytingum sem hafa orðið sjávarútveginum jákvæðar,“ sagði Kristján Ragnarsson. Þær háu tölur sem hafa verið nefndar vegna gengistaps segja ekki alla söguna, þar sem aðeins örlítið brot þeirra fjárhæða hefur komið til gjalda, þar sem oftast er um langtímalán að ræða.

,,Sjómenn á frystiskipum hagnast en ekki á öðrum skipum. Það hefur verið óbreytt verð á mörgum skipum í langan tíma, jafnvel sex ár. Vissulega hafa laun hækkað hjá þeim sjómönnum sem fá að selja á markaði og á frystiskipum einsog ég sagði. Margir þeirra sem selja í beinni sölu hafa ekki fengið fiskverðshækkanir þrátt fyrir þessar miklu gengisfellingar,” sagði Grétar Mar Jónsson, forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins.

Útflutningur sjávarútvegs er um 100 milljarðar á ári. Vegna falls krónunnar hafa tekjurnar aukist um rétt um 15 milljarða í krónum talið frá áramótum, en eðlilega eru þær krónur verðminni en áður.
——————————————————————-