Þegar ég var lítill gekk ég hús úr húsi með penna og seldi þá undir því yfirskyni að peningarnir færu til hjálparstarfs í Afríku. Það var alveg ótrúlegt hvernig pennarnir runnu út og eftir skamman tíma var ég kominn með því sem jafngilti tveimur þúsundköllum. Ég sá síðar afar mikið eftir þessum verknaði, ekki vegna þess að málefnið var vont, heldur vegna þess að ég var hreinlega ekki að selja penna til hjálparstarfs heldur hafði mér dottið þetta í hug á heitum sumardegi og langaði rosalega mikið í fullt af ís. Íspinnana át ég með bros á vör en bölvaði mér síðar þegar ég hafði vaxið upp úr óvitaskapnum. Eftir að hafa svo gengið síðar, hús úr húsi fyrir alvöru góðgerðastarfsemi - kannski út af brotinni samvisku - varð mér ljósar með hverju ári hve rausnarlegt fólk var flest þegar að góðgerðum kom. Ég sjálfur áleit mig vera að gera góðan hlut og var nokkuð stoltur af mér … fyrir utan þetta fyrsta atvik allavega.

Nú þegar Live 8 tónleikarnir standa sem hæst, með loka tónleikum í Edinborg þar sem G8 fundurinn verður haldinn sé ég þessa sömu rausn og ég sé með eigin augum, þó í minni mæli, hér heima. Fjárhæðirnar eru svo miklar að maður gæti ímyndað sér að þarna væri nóg til að kaupa handa öllum hús og leggja vatn til allra á einu bretti. Ekki veit ég hvort slíkt er hægt, en ég sá einhverstaðar minnst á að með brot af þessari upphæð væri hægt að færa öllum í Afríku vatn. Hinsvegar er raunin önnur og miðað við allar þær spár eins og þá sem ég minntist á ættum við með þeim fjárhæðum að hafa lagað Afríku fyrir al nokkru síðan. Ég hef samt aldrei áður stoppað og hugsað um hvort eitthvað væri athugavert við þetta allt saman.

Svo birtist á BBC frétt af Muammar Gaddafi leiðtoga Líbýu sem biður aðra Afríkuleiðtoga að hætta að biðja um frekari hjálparstarfssemi. Þá sat ég undrandi og spurði mig hvers vegna. Svo virðist sem peningar fari oftar en ekki í hendur spilltra stjórnmálamanna og annað þar fram eftir götunum. Ekki nóg með það, heldur er George Galloway að tala um nýlega góðgerðastarfsemi stórríkja sem einhverskonar beitu til að draga athygli frá því ógnar ástandi sem hefur myndast í Írak og Afganistan.

Hér er ýmislegt sem að þarf að hugleiða. Eru peningar raunverulega að hjálpa til? Er hægt að gera eitthvað annað? Hefur ástandið í Afríku verið notað nú og áður jafnvel til að beina athygli okkar annað? Er fólgin einhver hræsni í því að 1.000 moldríkar persónur setji á svið söfnunartónleika til að m.a. safna fé sem að þau hefðu geta fengið í svipuðu magni úr eigin vösum? … og enn og aftur, gera þessir peningar gagn hvort eð er?

Hugmyndin um fellingu skulda fátækustu Afríkuríkja virðist vera afar ágæt, skref sem að hefði átt að vera tekið fyrir svo löngu. Peningarnir sem safnast fara í niður greiðingu skulda, í hendur spilltra manna og er illa beitt á fáar hendur. Hvað ef fyrir nokkrum árum, þegar BNA ætluðu að senda genabreyttar plöntur til Afríku sem gáfu margfalt af sér og skelfdu frá sér engisprettur (sem er ein alvarlegasta plága Afríku ásamt mýrarköldu og alnæmi) hefði komist án mótmæla græningja og annarra öfgahópa? Ef að við gæfum þeim þann landbúnaðargrunn sem að til þarf til að standa undir fæðuþörfum eigin þjóðar og létum þau síðan standa á eigin fótum, væri ástandið betra? Hvað ef þau fengju tækifæri til að stofna lýðræði á eigin forsendum, eins og svo margar aðrar þjóðir (t.d. Ísland)? Hvernig virkar góðgerðastarfsemi fyrir lönd þar sem algjört stjórnleysi ríkir?

Réttast er að benda á greinar frá BBC og Spiegel :
* http://news.bbc.co.uk/2/hi/uk_news/politics/4654447.stm
* http://service.spiegel.de/cache/international/spiegel/0,1518,363604-2,00.html
* http://news.bbc.co.uk/2/hi/africa/4647579.stm

Hvað er að gerast, hvað heldur þú?