Er enginn orðinn þreyttur á þessu samskipti kynjanna- elementi sem tröllríður allri menningu og fjölmiðlaumfjöllun í dag. Hellisbúinn átti ágætis spretti og þegar þeirri uppfærslu lauk þá hugsaði maður með sér “jæja nú er þessum ofsaþreyttu kynjapælingum lokið í bili”. En nei, nú var ballið rétt að byrja. Píkusögur komu nokkrum árum of seint (The Vagina Monologues hafa rúllað í leikhúsum í USA í nokkur ár), Hallgrímur Helgason sem var að nöldra yfir ófrumleika ungs fólks á Íslandi, eltir lestina og býr til Rúm fyrir tvo sem á víst að vera karlmennskumótvægið (sem komið hefur fram í milljón bíómyndum og bókum) og er maður farinn að fá ansi mikið leið á þessum hæfileikamanni sem er farinn að kommersjalísera sig til helvítis (það virðast engin takmörk vera fyrir því hve mörg viðtöl maðurinn tekur að sér), Píkutorfan heillaði hinar hæpermeðvituðu rauðsokkur landsins upp úr skónum, Temptation Island skartaði einhverju óáhugaverðasta pakki sem sést hefur í sjónvarpi, Tantra-fólkið á að hafa verið á allra vörum og menn hafa yfirfært tilvist súlustaðanna á samskiptamál kynjanna með óforskömmuðum hætti. Þetta er orðið virkilega paþettikk! Það er lítið frumlegt árið 2001 að þykjast vera sniðugur með því að “þora” að segja ríða, typpi, píka, fullnæging,fokk og sjit. Það er búið að gera þetta allt saman milljón sinnum áður. Það er allverulega farið að slá í 101 besservisserana. Nýtt blóð óskast!