Höfum nokkuð á hreinu:
(1) Ég er fylgjandi Kárahnjúkum.
(2) Ég er á móti ofbeldi í mótmælum.
(3) Ég tel að það að slétta skyri á ráðstefnugesti er barnalegt, asnalegt og bara hreint út sagt heimskt.

Það breytir því ekki að ég tel íslensk stjórnvöld og íslenskt réttarkerfi á rangri braut ef dæma þarf mann í margra daga gæsluvarðhald fyrir slíkan verknað.

Svo ekki er minnst á að tjónið sé metið á milljónir. Á nú að fara að flokka skyr með efnavopnum?

Við verðum að fara að gæta að okkur.

Almennt er talið að gæsluvarðhald sé notað ef sá grunaði geti spillt sönnunargögnum, truflað rannsókn eða sé líklegur til að valda meiri tjóni. Hvað á við í þessu dæmi?

Hvort á að vega meira; frelsi einstaklings eða hugsanleg kvöð ráðstefnuhaldara að fá öryggisvörð við ráðstefnuna? Hafandi í huga að vitað er að ráðstefnan er um viðkvæmt og umdeilt mál. Væri ekki nær að dæma manninn í nálgunarbann?

Það má ekki gerast hér á Íslandi að lögreglan eða dómsstólar gerist verkfæri yfirvaldsins. Þetta eiga að vera þjónar og túlkar lagana sem lýðræðislega kosið Alþingi setur. Það má ekki heldur gerast að gæsluvarðhald sé notað sem tól til að “geyma” óþægilegt fólk. Sjáið til - manninum verður sleppt svona klukkutíma eftir lokakokteil ráðstefnunnar.

Fari hann í skaðabótamál við Ríkið og vinni það - hver borgar? Dómsmálaráðherra hefur ekki þann manndóm að taka á sig ábyrgð á þessari skelfilegu þróun.

Ég vill ítreka að ég er ekki fylgjandi þessum mótmælum. Kom mér ekkert á óvart þegar helstu talsmenn eru eitthvað listapakk sem lifir af styrkjum úr okkar vasa (var kallað ölmusa í den) sem þarf ekki að mæta í heiðarlega vinnu og getur dundað sér við svona. En þau mega mótmæla FRIÐSAMLEGA, og ef ekki þá fá refsingu í samræmi við verknaðinn.

Það er aumt samfélag sem metur skyrsléttur sem alvarlegra mál en nauðgun.