Ég er búinn að vera að fylgjast með fréttum frá Nepal síðan ég fyrst las um morðin á meðlimum konungsfjölskyldunnar þar í landi.

Það er augljóslega erfitt að komast yfir traustar heimildir í þessu máli og eins og með marga á illur grunur seint eftir að hætta að naga mig.

Eftir að taka törn í að lesa um þetta á mbl.is, bbc á netinu og time.com sló það mig að einhverjir fjölmiðlar eru annaðhvort að flytja skáldskap eða hreinlega (vonandi ekki!) að skálda fréttir.

Kíkið t.d. á http://www.time.com/time/world/article/0,8599,128973,00.html
en þar er grein birt þ. 3. júní. Það sem í þeirri grein er sagt er gefið út fyrir að vera hárnákvæm lýsing á atburðarrásinni en stemmir ekki við það sem er sagt í nýrri fréttum af atburðinum frá öðrum fjölmiðlum. Reyndar hljómar greinin sem ég bendi á eins og léleg skáldsaga en það er annað mál. Ég er búinn að lesa a.m.k. þrjár mismunandi lýsingar á atburðarásinni sem þarna er lýst sem skiptir kannski ekki janfmiklu máli og spurningin un hvort atburðarrás þessi hafi nokkurntíman átt sér stað, en sá möguleiki er jú vissulega fyrir hendi.

Það er greinilegt að einhverjir fréttamenn eru ekki að staðfesta lýsingar á atburðum áður en fjölmiðlar birta þær. Það kemur svo sem ekki á óvart en sjaldan hefur þetta legið eins í augum uppi fyrir mér eins og í fréttaburði af þessum hræðilegu atburðum í Nepal.

Er það til of mikils ætlast að fjölmiðlar taki fram þegar að staðreyndir eru á reiki? Það sem ég hef fengið að sjá nú undanfarið undirstrikar skoðun mína að gleypa ekki við öllu sem ég les án þess að hugsa.