Ert þú rasisti?

Rasisti aðhyllist stefnu er rasismi nefnist en
stefnu þeirri er gerð skil sem kynþáttahatur.

Hvað eru kynþáttafordómar?
Kynþáttafordómar er ein af undirgreinum fordóma þar sem mismunað er fólki á grundvelli kynþátta. Það er að segja; manneskja sem ekki líkar við aðra manneskju eingöngu vegna kynþáttar eða menningarbakgrunns er rasisti.

Afhverju eiga kynþáttafordómar sér stað?
Nýleg rannsókn hefur sýnt að viðhorf ungs fólks til innflytjenda sé að harðna, hvað ætli orsaki það?
Vinnustuldur
Málleysi
Fáfræði
Hræðsla

Vinnustuldur – Eins og staðan er í dag eru flestir nýbúar í láglauna vinnu sem aðrir landsmenn kæra sig ekki um og má sem dæmi nefna ræstingar – og fiskvinnslustörf. Það er enginn að stela vinnu neins, það eiga allir rétt á að vinna. Það á engin landið, við fáum bara afnot af því sem og allri jörðinni og því höfum við lítinn rétt til að banna fólki að nema land.

Málleysi – það er alltaf erfitt að læra ný tungumál, en eins og með allt annað þá kemur það með tímanum.

Fáfræði – Þjóðhverfur hugsunarháttur er þegar ferðalangur skoðar menningu annars hóps og dæmir menninguna eftir sinni eigin menningu. Í menningu felast allar hugmyndir, viðmið, tákn, gildi, og færni sem fólk hefur fengið frá eldri kynslóðum sem það reynir að koma áfram til skila, oft í nokkuð breyttri mynd, til komandi kynslóða. Fordómar skapast ef ekki er tekið tillit til annarar menningar en manns eigins.

Á hverjum stað fyrir sig er mismunandi menning, hvort sem við lítum langt eða skammt, það er öðruvísi menning á Þórshöfn en í Hafnarfirði, Grænlandi en Mexico. Ef við viljum víkka sjóndeildarhringinn er nauðsynlegt að kynnast nýrri – öðruvísi menningu og hugsunarhætti en manns eigins.

Hræðsla – Við erum hrædd við allt sem er okkur ókunnugt og því eru fordómar að miklu leyti hræðsla og fáfræði.

Fyrir nokkru síðan var erfitt að ferðast, hvað þá flytja á milli landa og því var lítið um að fólk væri af öðrum kynþætti en meirihluti samfélagsins.
Í nútímasamfélag aftur á móti, á tíma hraða og tækni þar sem púlsinn er við suðumark þykir ekki mikið mál að taka viku í ferðlag hinum megin á hnettinum.

Efnahagur og stjórnmál ríkja hefur mikil áhrif á hag fólks og því miður eru þessir tveir þættir virkilega misjafnir eftir ríkjum; það sem eitt ríki bannar er leyft í öðru, og því er gott að geta ferðast um ef stjórnmál eða efnahagur ríkis þíns sé þér á móti skapi. Til dæmis fara margir Íslendingar til Danmerkur í háskólanám þar sem þeir hafa miklu fleiri réttindi og meiri fríðindi.

Það að flytja er mikið mál, hvort sem verið er að flytja frá Garðabæ í Grundarfjörð eða frá Íslandi til Sri Lanka. Mikið erfiðara er þó að setja sig inn í nýja menningu, tungumál, sögu, stjórnmál, efnhag og umhverfi. Það er eins og að fæðast uppá nýtt án þess að yngjast, og því eldri sem maður verður því erfiðara er að læra og gleyma því sem gerðist í fortíðinni. Þegar menningarmunurinn er eins mikil og við flutning milli heimsálfa er skiljanlegt að það taki tíma að ná taki á menningu og tungu.

Hvernig myndi þér líða ef ákveðið væri að senda þig til Sri Lanka, þú ættir engan kost betri og flyttist því þvert yfir hnöttinn, burt frá öryggi, menningu, skyldmennum, tungumáli og vinum?
Kæmir á nýja heimilið þar sem allt væri öðruvísi, þú skildir engan, engin skildi þig, þú værir öðruvísi og einungis þess vegna væri fólk í nöp við þig. Án þess þó að þekkja þig, án þess að hafa gefið þér tækifæri til að kynnast þeim er búið að stimpla þig – innflytjandi
Ef þú eitthverntíma lendir í þessari stöðu, vilt þú þá að svona sé tekið á móti þér? Eða eins og segir í Biblíunni:
Það sem þú vilt að aðrir gjöri yður það skulið þér þeim gjöra.

„Það eru ekki til kynþættir manna. Það er bara til eitt mannkyn og innan þess eru karlar og konur, þeldökkt fólk, hávaxið fólk og lágvaxið, fólk sem gætt er ýmsum hæfileikum.” Tekið úr bókinni kynþáttafordómar – hvað er það pabbi?

Mér þykir flokkunin sem svo lengi hefur verið við lýð um kynþætti manna vera hin versta blekking. Það er bara til eitt mannkyn og sem betur fer býr það víðsvegar um hnöttinn. Þó þú fæðist á einum stað þýðir það ekki að þú sért skyldug til að búa þar alla þína ævi. Ferðastu að vild, þroskastu, upplifðu og víkkaðu sjóndeildarhringinn!


Helvíti er ekki staður heldur hugarástand.