Ég var að horfa á fréttirnar um daginn í okkar ástkæra ríkissjónvarpi og mér til mikilliar undrunar og hamingju var enginn annar en Ólafur Ragnar Grímsson á skjánum. Hann var frekar reffilegur á að líta þar sem hann var að hjálpa Súgfirðingum að draga fram lífið með því að kötta fisk að hreinni snilld. Síðan að loknum erfiðum tökum þá var hann spurður að því hvað honum fyndist nú eiginlega um þetta fólk Súgfirðinga. Ólafur var náttúrulega fullur af auðmýkt, líkt og Jésús kristur forðum daga, þegar hann svaraði því að fólkið væri ekki aðeins ógeðslega hraðvirkt við færibandið heldur væru þarna á ferð eintakir hugmyndasmiðir og fannst honum þjóðinni nánast borgið við þessa sýn, sérstaklega af því að gamla fólkið á staðnum var ekki löngu dáið úr leiðindum heldur ólgaði það af spenningi við að sjá forsetann með berum augum og var búið að æfa upp dulítið prógram fyrir grísinn.

Við þessa frétt þá fór ég að velta fyrir mér þessu merkilega sameiningartákni þjóðarinnar forsetanum. Ég vil taka það fram að ég hef ekkert á móti Ólafi sem slíkum en þar sem hann er nett athyglissjúkur og vanur veislum og villtum seðlapartýum þá skín það mun betur í gegn núna hversu tilgangslaus þessi gleðskapur forsetans er í raun og veru. Vigdís var heppinn því hún var ekki búin að tala af sér áður og var náttúrulega kona sem var kosin á þeim tímum þegar að almenningur trúði því vart að kona gæti bara talað þýsku á djamminu og frönsku við morgunverðarborðið án þess svo mikið sem að blikka auga.
Það gefur auga leið að maður sem að kemur í sjávarþorp og verður gáttaður á því hugmyndaflæði, sem fylgir því þegar svanga fólkið horfið út á hafið slefandi og ákveður að opna fiskverkun,að hann getur ekki haft mikið um að hugsa sjálfur. Forsetaembættið er að verða svona eins og lúxusleikskóli fyrir dekurbörn. Þau vakna á morgnanna, full af hugmyndum um veröldina og mennina sem að í henni búa, en fá síðan í hendurnar dagsáætlunina þar sem segir að í dag sé hann bókaður í morgunverð í Tokyo en verði að vera mættur klukkan fimm á graðhestasýningu Vesturíslendinga. Þegar svona er komið fyrir manni þá verður maður líkt og dekurbarnið algjörlega hugmyndasnauður og þessi boð hætta að gefa þér spennu og fjör og þú ferð að verða dauðyflislegur og áhugalaus og á endanum þá keyrir um þverbak og þér dettur ekkert betra í hug að segja, umkringdur þorski og þörum, að þarna sé nú sannkölluð hugljómun að eiga sér stað.
Þegar ég er í minni vinnu, sem ég kann sem betur fer mjög vel við, þá myndi það seint bjarga vondum degi að forsetinn kæmi bara til mín og segði mér hvað ég væri rosalega duglegur og sætur og að hann skynjaði þvílíkar hugmyndabylgjur út úr hausnum á mér að það væri vandmeð farið að vera í kringum mig fyrir endalausum hugmyndum mínum. Síðan myndi hann skoða verkið sem ég væri að vinna í og ég myndi lána honum vinnugallan minn og hann fengi aðeins að grípa í og brosa til mín og segja“ Veistu að nú skynja ég hvers lags fólk byggði þetta land í byrjun, það var fólk sem átti sér drauma og framkvæmdi þá og þú ert einn af þeim sem ert að gera draum forfeðranna ljóslifandi fyrir augum þjóðarinnar í dag”

Eftir þessa ræðu þá myndi ég náttúrulega þurfa að eyða vikulaununum í að splæsa hvítvíni og snittum á Óla, Dorrit og kannski bílstjórann, sem myndi segja mér eitthvað hnyttið og skemmtilegt úr bílferðinni og ég myndi verða fúll yfir því að hann hafi ekki getað trúað mér fyrir einhverju sexí um Dorrit.

Ég skil vel að við þurfum að hafa menn í vinnu erlendis, sem eru áhrifa miklir og vel kynntir eins og Ólafur er, því hann er bráðskarpur og örugglega ágætur til síns brúks, en við þurfum ekki að hafa sérstakt embætti starfrækt hér á landi sem gegnir þeim eina tilgangi að kynna sjálft sig fyrir okkur.
Tökum sem dæmi að ef að ég myndi bara kalla mig Kynningarhal. Nú starf mitt sem Kynningarhalur byggist upp á því að ég fer á dýrum bíl um landið og bý á dýrum stöðum og borða dýrt nammi á milli þess sem að ég held fyrir ykkur ræður þar sem ég segi ykkur að ég sé Kynningarhalur og að það sé eina starfið sinnar tegundar á landinu og að það sem geri það svo gott er að það lætur ykkur líða betur með þessa sál sem þið burðist öll með hversu þungbær eða léttbær hún er. Þið borgið kampavínið og ég segi ykkur hvað þið eruð sæt og gáfuð og um leið er ég búinn að kynna mig fyrir ykkur þannig að þegar að þið sjáið mig næst í sjónvarpinu, þar sem ég sit að snæðingi í inversku neðansjávarpartýi með Arafat og Sylvester Stallone þá getið þið náð í mömmu og pabba, ömmu og afa og sagt “Hey sjáiði þarna er Kynningarhalurinn sem sagði hvað ég væri ógeðslega fljót að líma og hann sagði líka að þið ættuð að vera ótrúlega stolt af mér út af einhverjum Ingólfi Arnarsyni, sem var einhver gæi sem hann talaði ógeðslega mikið um”