Bandarískir hermenn eru sakaðir um að hafa pyntað afganska fanga í aðalherstöð Bandaríkjahers skammt frá Kabúl árið 2002. Bandaríska stórblaðið The New York Times birti grein um þetta í gær þar sem vitnað er í leyniskýrslu hersins.

Hingað til hafa fréttir borist af pyntingum bandarískra hermanna á föngum í Írak og er skemmst að minnast misþyrminganna í Abu Graib fangelsinu þar í landi. Nú hafa hins vegar spurningar vaknað um framferði bandarískra hermanna gagnvart stríðsföngum í Afganistan en hundruð Afgana voru handteknar í kjölfar innrásar bandamanna þegar talíbana-stjórninni var steypt af stóli síðla ársins 2001.

Samkvæmt tvö þúsund síðna leyniskýrslu bandaríkjahers, sem vitnað er í í The New York Times, leikur grunur á að bandarískir hermenn tengist dauða tveggja Afgana sem voru í haldi í Bagram, aðalherstöð bandaríkjahers, skammt frá höfuðborginni Kabúl, í desember árið 2002. Blaðið greinir frá því að annar mannanna, sem var 22 ára afganskur leigubílstjóri, hafi svo dögum skiptir sætt miklum barsmíðum og spörkum í fótleggi af hálfu fangavarða og hafi verið hlekkjaður á handleggjunum við loft fangaklefans. Bandaríkjaher hefur opinberlega staðfest dauða mannanna og kunna tæplega þrjátíu hermenn að eiga yfir höfði sér ákæru í tengslum við málið.

Hamid Karzai, forseti Afganistans, hefur brugðist harkalega við fréttum af pyntingunum á afgönsku stríðsföngunum og krefst þess að bandarísk stjórnvöld grípi til harðra aðgerða gegn þeim sem bera ábyrgð á verknaðinum. Karzai er nú í fjögurra daga opinberri heimsókn í Bandaríkjunum og segist hann ætla að ræða málið við George Bush forseta á fundi þeirra á mánudag.