Mig langar til að halda áfram með umræðuna um neysluæðið sem mjög margir eru greinilega haldnir. Eins og silliebill var búin að minnast á þarf fólk bókstaflega að eiga allt nú á dögum. Svo ég vitni í hana Dís, vinkonu mína, þá er enginn maður með mönnum nema hann eigi tvo bíla (glænýjan stallbak og slyddujeppa), stóran ísskáp, tvö sjónvörp, uppþvottavél, heimabíó, Rainbowryksugu og brauðgerðarvél. Svo ekki sé minnst á lazy boy hægindastól, gsm-síma, dvd- og mp3-spilara og hvað sem þetta nú heitir allt. „Ef þessi atriði eru á hreinu, geta lífsgráðugir meðlimir minnar kynslóðar skilgreint sig hamingjusama. En ekki fyrr“.

Í dag er hamingjan stöðluð. Þú þarft að vera svona og svona til þess að eiga rétt á hamingjuríku lífi! En svo virðist sem hægt sé að kaupa sér hamingju í formi alls kyns tækja og tóla. Kauptu og þú munt öðlast lífsfyllingu! Mér finnst þetta gengið út í öfgar. Foreldrar eru farnir að kaupa hitt og þetta handa börnum sínum til þess að gera þau ánægð en alltaf heimta þau meira og meira. Foreldrarnir þurfa því að vinna meira og meira til þess að geta veitt börnum sínum þessa „lífsfyllingu“ en allt er það á kostnað þess tíma sem fer í að veita börnunum athygli, ást og umhyggju. Auðvitað hefur það slæmar afleiðingar fyrir börnin að fá slakt uppeldi og þekki ég mörg dæmi þess t.d. fíkniefnaneysla, áfengisdrykkja, offita og slæpingjaháttur.

Svo er það öll þessi útlitsdýrkun. Ef þið hafið horft á Fegurðarsamkeppni Íslands sem var haldin í síðustu viku hafið þið séð þá stöðluðu fegurðarímynd sem er „inn“ núna. Tálgaðar stelpur, steiktar í ljósabekkjum og með aflitað hár. Mér fannst þær allar eins, gjörsneyddar öllum persónueinkennum. Ég man ekki eftir að hafa séð neina rauðhærða þarna, það voru kannski þrjár dökkhærðar og hinar allar blondínur. Allar voru þær eins í vextinum. Jæja stelpur! Svona eigum við að vera, allar steyptar í sama mót! Og ég sem hélt að fegurð væri afstæð :,(

Nei annars hef ég ekkert á móti þessum stelpum, en mér finnst vanta fjölbreytni. Þessar stöðluðu fegurðarímyndir eru ekki að gera fólki gott. Örvinglaðar stúlkur flýta sér í megrun til að líkjast Christinu Aguilera og uppskera ekkert annað en átröskunarsjúkdóma s.s. anorexiu og bulimiu. Engin hamingja þar á bæ :/

En hvar er þá hamingjan okkar ef við getum hvorki keypt hana né leigt? Er hamingjan ekki bara hugarástand? Ef svo er væri þá ekki ráð að fara að rækta hugann og andlega heilsu? Eða kannski bara brosa og stilla okkur á jákvætt hugarfar? Eða hvað finnst ykkur?

P.S hvað er annars málið með að eiga jeppa þegar maður fer aldrei út úr bænum, kannski í mesta lagi út á Keflavíkurflugvöll?? Reykjanesbrautin er varla neinn torfæruvegur.