Hér hefur mikið verið ritað um skaðsemi ýmsra eiturlyfja, menn hafa barist fyrir t.d. lögleiðingu kannabisefna og þá hafa risið hér upp sjálfskipaðir siðapostular sem hafa, að því er virðist, þann eina tilgang í lífinu að vernda fólk fyrir sjálfu sér.

Þegar menn hafa bent á það að maríjúna hafi lítil líkamleg áhrif á fólk miðað við ýmsislegt annað sem við gerum þá hafa þeir sem allt vita bent á að þetta steiki í fólki heilann, geri það dofið og óvirkt o.s.frv. sem er í sjálfu sér alveg rétt, en það gerir áfengi líka og margt annað, svo dæmi sé tekið.


Ég rakst á soldið merkilega grein á mbl.is um mál sem tengist þessu lítillega og ætla að birta hana hér

Tekið af mbl.is –> “Fólk sem sífellt verður fyrir áreiti af völdum tölvupósts og símhringinga verður fyrir „greindarvísitölufalli“ sem er rúmlega tvöfalt meira en þeir sem reykja maríjúana verða fyrir, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem gerð var fyrir tölvufyrirtækið Hewlett Packard. Er varað við aukinni hættu á að fólk fái svonefnt „upplýsingaæði“ er lýsi sér með þeim hætti að fólk verði háð tölvupósti og sms.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, en rannsóknin var gerð við Sálfræðirannsóknarmiðstöðina í Bretlandi.

Í ljós kom að 62% þátttakenda í rannsókninni las vinnutengdan tölvupóst þegar þau voru heima hjá sér eða í fríi. Segir HP að þótt ný tækni geti aukið afköst verði fólk að læra að slökkva á tölvum og símum.

Rannsóknin leiddi ennfremur í ljós, að of mikil tækjanotkun dró úr greind þátttakenda. Greindarvísitalan lækkaði um 10 stig hjá þeim sem urðu fyrir áreiti af tölvuskeytum sem bárust og símum sem hringdu. Er þetta rúmlega tvöfalt meiri lækkun en komið hefur fram í fyrri rannsóknum á áhrifum maríjúanareykinga.

Yfir helmingur þátttakenda, sem alls voru 1.100, kváðust alltaf svara tölvuskeytum „samstundis“ og viðurkenndu 21% að þau myndu trufla fund til að svara skeyti. Glenn Wilson, sálfræðingur við Háskólann í London, er stjórnaði rannsókninni, segir að ómeðhöndlað upplýsingaæði geti dregið úr einbeitingu fólks. Að vera sífellt að beina athyglinni frá verkefnum í því skyni að svara tölvuskeytum eða sms hafi svipuð áhrif á hugann og svefnleysi.”


Þar hafiði það, upplýsingaæðið minnkar greindarvísitölu okkar um heil 10 stig, ef við miðum við að meðalgreind er í kringum 90, þá eru þetta 11%.

Ég fullyrði það að ef á markað kæmi núna lyf sem myndi minnka greindarvísitölu þeirra sem neyttu þess um 11% þá yrði það bannað með það sama, þýðir þetta ekki að við verðum að banna tölvupóst, sms, internetið o.s.frv. þetta er stórhættulegt.

EÐA…. eigum við að leyfa fólki að ráða því sjálft hvernig það stjórnar sínu lífi, taka sínar eigin áhættur.. það erum jú við sjálf sem þurfum að lifa með því, ekki Þorgrímur Þráinsson eða samtökin heimili og skóli.

Fyrst að við getum eins og við gerum í dag, tekið eitthvað eitt og eitt fyrir og bannað það og ofsótt þá sem það stunda, verðum við þá ekki að gera það allsstaðar, er ekki annað tvískinnungur.

Er þá ekki kominn tími til að banna fitandi mat, gos með sykri, sælgæti og snakk, þetta eru hlutir sem valda offitu sem er að verða eitt stærsta heilbrigðisvandamál heimsins.
Svo bönnum við tölvupóst og sms svo að fólk hrapi ekki í greind.
Svo setjum við það í lög að allir sem eru of þungir þurfi að stunda líkamsrækt, ef ekki er farið eftir því þá mun það varða sektum og fangelsi og svona gæti ég haldið áfram útí hið óendanlega….

Finnst fólki í alvöru ekki að það fari bráðum að verða komið nóg af þessari forræðishyggju sem ríkir hérna á þessu landi og í stað þess að við séum sífellt að reyna banna hluti til að losna við þá að við förum að sætta okkur við að þetta er hluti af okkar lífi og verður það um ókomna framtíð og reynum að hjálpa fólki að taka skynsamlega ákvörðun í stað þess að skrúfa það niður og neyða það til þess að taka einhverja fyrirfram ákveðna ákvörðun sem öll hjörðin verður að hlýða skilyrðislaust.

-Auðvitað er óhollt að reykja kannabisefni - eyðum því peningum í að segja fólki það og hjálpa þeim að finna aðrar leiðir til að “koma sér upp”

-Auðvitað er óhollt að borða fitandi mat, í stað þess að banna auglýsingar á honum fyrr en eftir 22 á kvöldin hvernig væri þá að auka næringarfræsðlu í skólum landsins og lækka verð á hollari matvöru.

-Látum vinnustaði veita starfsmönnum sínum aðhald og hjálpum þeim takast á við sýna upplýsingrfíkn á heilbrigðan hátt í stað þess að neyða heilann til að sópa 11% af gáfum okkar útum eyrun til að koma þar fyrir meiri ruslpósti.


Þessi grein er alls ekki skrifuð í þeim eina tilgangi að tala fyrir lögleiðingu eiturlyfja heldur til þess að vekja fólk til umhugsunar um það að við höfum í alltof langan tíma reynt að leysa vandamál með því að banna hluti og eyðum bæði kröftum og peningum í löngu tapaða baráttu.

Ef við tökum sem dæmi: Ef að allur ágóðinn af sölu áfengis í ÁTVR yrði notaður í forvarnir gegn áfengi, haldiði að það væri jáfn stórt vandamál og það er í dag??

Hvað er að því að ríkið taki að sér þessa sölu og geti svo notað hagnaðinn til að koma í veg fyrir að fólk byrji að nota þessi efni í stað þess að leyfa einhverjum eiturlyfjasölum að maka krókinn og hagnast um miljóna hundruð á hverju ári á meðan peningar skattborgaranna eru notaðir til að eltast við einhverja smáglæpamenn sem vinna sér það eitt til saka að vilja fá sér eina jónu í friði inná sínu eigin heimili.

Ef fólk sest niður og hugsar um þessi mál með opnum hug þá einfaldlega hlýtur það að komast að þeirri niðurstöðu að þetta kerfi sem við erum að nota núna virkar ekki og mun ekki virka og það er kominn tími til að prófa eitthvað annað.

Með kveðju