Ég er nú ekki vanur að byrja umræður hér á Huga en lengi skemmt mér við að skoða umræður hérna.

Í kvöld stóðst ég hins vegar ekki að nöldra svolítið yfir stafsetningu og málfari í greinum og svörum hugara.

Ég tek það fram að ég er ekki að reyna að særa fólk með þessu nöldri.

Það sem menn láta frá sér nú á dögum er vægast sagt hörmulegt. Nú er ég ekki að tala um alla notendur en ef eitthvað er, þá þykir mér þetta hafa aukist á síðustu misserum. Að sjálfsögðu er eðlilegt að stöku stafsetninga- og innsláttarvillur læðist með. En að heilu greinarnar séu skrifaðar á svo brussulegan hátt að helst mætti halda að þær hefðu verið skrifaðar í myrkri af blindum húsdýrum er ekki aðeins niðrandi fyrir höfundinn heldur erfitt fyrir lesandann að ráða í.

um daginn sá ég einn notandann skrifa um mannslíf með ý…… “LÝF” Það tók mig drykklanga stund að skilja hvað hann var að tala um..

Mér þætti gaman að vita hvað kennt sé í grunnskólum nú til dags. þó þessi nýja “stafsetning” verði ekki einskorðuð við grunnskólanema. Dæmi eru þess að framhaldskóla gengið fólk sé að tjá sig hér á svipaðann máta.

Nöldur af þessum toga á örugglega eftir að fara í taugarnar á mörgum. Eflaust hafa margir nöldrað yfir sama hlut og sjáfum þótti mér leyðinlegt þegar nöldrað var yfir mínum stafsetninga og málfarsvillum þegar ég var að stíga mín fyrstu skref (þó aldrei neitt í líkingu við þetta). En ef það sem ég sé á síðum huga er spegilmynd af samfélaginu í dag þá þætti mér réttlætanlegt að endurskoða menntakerfið í heild sinni. Það væri óásættanlegt ef þessi “leti” yrði að einhverskonar þróun í tungumálinu.

Ég býst við að lesblindni verði kastað fram sem einhverskonar vörn fyrir skrifum margra, en ég neita að trúa því að lesblindni hafi hellst yfir íslenska æsku eins og faraldur á síðastliðnum árum.

Á sama tíma og ég skrifa þessa grein er umræða á forsíðunni um heimildargildi greina á huga og hvað verði um þær þegar síminn verði seldur. Einhver vildi líkja því við að brenna þjóðarbókhlöðuna ef þessar greinar myndu glatast. Sjálfum þætti mér betra ef komandi kynslóðir hefðu ekki aðgang að vitfyrrunni sem mikið af þessum greinum og svörum eru.