Langar að benda ykkur á grein sem ég komst yfir fyrr í dag, og mér langar endilega að deila henni með ykkur.

Reykjavík fær til sín hlutfallslega meira af opinberum umsvifum en borgin skilar til hins opinbera í formi skatttekna, samkvæmt nýrri rannsókn Vífils Karlssonar hagfræðings og dósents við viðskiptadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst. Hann hefur um árabil lagt stund á svæðarannsóknir, sem er sérsvið innan hagfræðinnar, og sér samsvörun á milli nýlendustefnu fyrri alda og yfirgang Reykjavíkurvaldsins gagnvart landsbyggðinni.

Vífill segir að um 75% af öllum umsvifum hins opinbera sé í Reykjavík en ríkið fær aðeins rúm 40% skatttekna sinna frá höfuðborginni.

Svæðahagfræði rannsakar landssvæði fremur en þjóðríki. Mikilvægi svæða færist stöðugt í vöxt þegar landamæri verða sífellt óljósari nema kannski í réttarfarslegu tilliti og heimurinn er að verða örfá eða í sumum tilfellum eitt efnahagssvæði eins og sjá má á vexti Evrópusambandsins og öðrum sambærilegum svæðum. Inni í þessum stóru efnahagssvæðum eru mörg lítil efnahagssvæði sem eiga oft meira sameiginlegt heldur en efnahagur tiltekins lands. Þannig eru vínræktarhéruð Frakklands afmarkaðri og samstæðara hagkerfi heldur en Frakkland allt og að sama skapi kann landsbyggðin eða jafnvel Austurland að vera samstæðara hagkerfi heldur en Ísland allt svo dæmi sé tekið hérlendis.

Þegar litið er til afmarkaðra landssvæða fremur en landa taka hugtök eins og verg landsframleiðsla og hagvöxtur og önnur hugtök yfir heildarhagstærðir breytingum í samræmi við það og talað er um verga svæðaframleiðslu. Hagvöxtur er því hlutfallsleg breyting þess á einu ári.

Vansköttun hér og ofsköttun þar!

Þegar þessum „gleraugum“ hefur verið brugðið upp er afar athyglisvert að ráðast til atlögu við að svara áðurnefndri spurningu sem gengur út á það að rekja hvernig fjármagni er aflað til reksturs hins opinbera eftir landssvæðum annars vegar og ráðstafað hins vegar. Ef það er eitthvert misræmi á
þessu þá má augljóst þykja að rekstur hins opinbera grefur undan hagvexti á því svæði þar sem skattheimta er meiri heldur en umfang þess en ýtir undir hann á hinu. Á öðru svæðinu er því
efnahagslegur „leki“ en á hinu efnahagsleg „innspýting“. Þetta má jafnvel líka orða þannig að annað hagkerfið sé „ofskattað“ en hitt „vanskattað“. Í rauninni er þetta sambærilegt við hagstjórnartæki hins opinbera sem ganga m.a. út á hækkun skatta eða niðurskurð opinberra framkvæmda á hagvaxtarskeiðum til að draga úr ofþenslu og svo er þessu gjarnan öfugt farið á samdráttarskeiðum. Þegar þetta er skoðað þá skiptir líka verulegu miklu máli að horfa til hvernig viðskiptum er háttað á milli þessara svæða.

Landsbyggðin fær molana

„Það er ekki verið að sýsla við neina smá aura í þessu sambandi,“ segir Vífill. „Hið opinbera hefur frá árinu 1980 vaxið úr því að velta rúmum 35% af vergri landsframleiðslu í tæp 50%. Á sama tíma hefur landsframleiðslan aukist verulega. Í dag er velta hins opinbera að nálgast 400 milljarða króna ár hvert og því skiptir verulegu máli hvar þessum peningum er ráðstafað. Það sem ég er að leita svara við er hvort um sé að ræða landfræðilegt misræmi.“

En er það raunin?

„Já, það er landsbyggðin sem hefur beðið skaða af því en höfuðborgarsvæðið notið þess. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum mínum eru 75% af öllum umsvifum hins opinbera í Reykjavík einni. Það fær þó ekki nema 42% af skatttekjum sínum frá borginni. Reykjanes, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur og Seltjarnarnes þar með talin, er ekki ráðstafað nema um 10% af veltu hins opinbera en þaðan koma 31% skattteknanna. Restin af landinu fær ekki til sín nema um 15% af opinberum umsvifum þó að þaðan komi 27% skatttekna.

Nýlendustefna höfuðborgarinnar

Vífill segir að þetta sé sýnu alvarlegra í ljósi þess að viðskiptamynstur á milli svæðanna eru mjög ólík. Færð hafa verið rök fyrir því að viðskipti landsbyggðarinnar á höfuðborgarsvæðinu eru hlutfallslega meiri heldur en viðskipti höfuðborgarsvæðisins á landsbyggðinni. Þess vegna er líklegt að sá skaði sem landsbyggðin hefur orðið fyrir vegna þessa misræmis sé meiri heldur en hann hefði orðið ef verslun höfuðborgarbúa væri meiri við landsbyggðina. Að sama skapi má draga þá ályktun að ef misræmið hefði verið á hinn veginn, þ.e. í hag landsbyggðarinnar, hefði höfuðborgarsvæðið ekki orðið fyrir jafn miklum skaða og landsbyggðin hefur orðið fyrir, því fólk af landsbyggðinni sækir svo mikla þjónustu til höfuðborgarsvæðisins. „Eins og þetta er í dag þá má líkja þessu við nýlendustefnu ýmissa ríkja hér áður fyrr þegar nýlendur voru skattpíndar en sjóðirnir síðan fluttir heim til nýlenduherranna. Ef áhugi er fyrir því að gefa svæðunum jafnari forsendur til hagvaxtar, þá eru þetta sterkar vísbendingar fyrir því að það þurfi annað hvort að færa til stofnanir eða lækka skatta á landsbyggðinni,“ segir Vífill Karlsson.

Viðtalið birtist í Rannísblaðinu 10. mars 2005

Vildi bara benda ykkur á þetta!
Kv. Flavou